Stjórnarfundur ESU á Möltu

Síðan á mánudag hafa fjórir fulltrúar LÍS sótt viðburðaríkan stjórnarfund ESU eða European Students' Union, sem eru regnhlífarsamtök landssamtaka stúdenta í Evrópu. Stjórnarfundurinn er æðsta ákvörðunarvald ESU þar sem meðal annars er kosið í stjórn samtakanna og um nýjar stefnur og áætlanir.

Sunna Mjöll Sverrisdóttir, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Þórður Jóhannsson og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fulltrúar LÍS á BM72

Sunna Mjöll Sverrisdóttir, Aldís Mjöll Geirsdóttir, Þórður Jóhannsson og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fulltrúar LÍS á BM72

Í dag var meðal annars kosið um og innleidd stefna um málefni LGBT+ sem eru sannkölluð tímamót í sögu samtakanna! Stefnan var skrifuð af lokuðum hópi einstaklinga innan ESU sem samsvara sig við LGBT+. Það er gríðarlega mikilvægt að samtök á við ESU eigi sér skýra og framsýna stefnu í málefnum LGBT+ og fagnar LÍS því einlæglega að í dag hafi það gengið eftir.

Einnig voru teknar fyrir breytingar á gæðastefnu ESU. Undirbúningsvinna LÍS hefur staðið yfir síðastliðinn mánuð og þá sérstaklega síðustu daga enda er um að ræða yfirgripsmiklar breytingar sem ræddar voru í marga klukkutíma.

Næsti stjórnarfundur (BM73) verður haldinn í Ísrael en það er að mati LÍS þvert á mannréttindastefnu ESU. Vegna þess bárum við upp yfirlýsingu þar sem bent var á mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og að ESU fylgi stefnum sínum eftir. 

LÍS lagði fram yfirlýsingu og óskaði eftir stuðningi frá ESU þar sem vakin er athygli á og fjallað um langvarandi undirfjármögnun íslenskra háskóla og kallað eftir úrbótum á þessari höllu stöðu. Það eru mikil gleðitíðindi að tilkynna að yfirlýsing okkar var samþykkt einróma en við vonum að stuðningurinn muni efla baráttu okkar fyrir auknum fjárveitingum til háskólakerfisins á Íslandi.

Við höfum sýnt og sagt frá fundinum á twitter og snapchat en þar finnið þið okkur undir nafninu lisnemar.

ESU er í forsvari fyrir fimmtán milljónir stúdenta og er mikilvægt að geta talað máli íslenskra stúdenta með þátttöku í starfi samtakanna og mikill heiður fyrir LÍS að fá að njóta þess að tala fyrir hönd íslenskra stúdenta á eins stórum vettvangi og þessum. Sterkt alþjóðastarf leikur lykilhlutverk í hæfum samtökum, þar sem við getum lært, miðlað af reynslu okkar, eflt alþjóðamilliríkjasamstarf og nýtt það svo til þess að efla sameinaða rödd íslenskra stúdenta.

Sendinefnd LÍS ásamt Helgu Lind Mar, fyrrum alþjóðaforseta LÍS og núverandi meðlimi framkvæmdastjórnar ESU

Sendinefnd LÍS ásamt Helgu Lind Mar, fyrrum alþjóðaforseta LÍS og núverandi meðlimi framkvæmdastjórnar ESU