GLEÐILEGT PRIDE kæru stúdentar

Nú standa yfir hinsegin dagar í Reykjavík sem hefur eflaust farið framhjá fáum, ef svo er þá fer það ekki framhjá neinum héðan í frá þar sem að miðbærinn skartar öllum sínum regnbogafánum um helgina. Hápunktur hinsegin daga er gleðigangan sem gengin er með pompi og prakt í miðbæ Reykjavíkur. Í göngunni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar. Þar er einnig að finna aðstandendur og fjölskyldur þeirra sem tilheyra þessum hópum. Með því að mæta í gönguna með bros á vör og opið hjarta styður þú við alla sem taka þátt í þessari stórkostlegu göngu.


Að mæta í miðbæinn á meðan að gleðigöngunni stendur og veifa eins og einum regnbogafána er þó ekki það sama og að styðja málstaðinn og berjast fyrir honum. Hinsegin aktívistar berjast fyrir málstaðnum allan ársins hring og sinna honum daglega. Hinsegin stúdentar eru að sjálfsögðu meðal þeirra og vert er að nefna að Q - félagið fyrir hinsegin stúdenta er opið öllum en þar geta hinsegin stúdentar og allir áhugasamir fengið stuðning, tækifæri til þess að hittast og auka samheldnina þeirra á milli. Félag hinsegin stúdenta beitir sér fyrir réttindum hinsegin fólks innan og utan háskólanna og standa að allskyns fræðslu um málefnið.


Stúdentar í Evrópu hafa einnig unnið mikilvægan sigur nýlega en regnhlífarsamtök evrópskra stúdenta (ESU) samþykktu nýverið yfirlýsingu sem viðurkennir réttindi og ólíkar upplifanir hinsegin stúdenta. Þau réttindi sem eru til staðar í dag var barist hart fyrir og enn er langt í land á mörgum sviðum. ESU hefur samþykkt að berjast enn frekar og standa vörð um þessi réttindi fyrir hinsegin stúdenta. Að sjálfsögðu eru þetta gleðitíðindi og LÍS studdi þessa yfirlýsingu heilshugar þegar að hún var flutt fyrir aðildarfélögum ESU.


Af því tilefni er tilvalið að sækja einhvern af hinum fjölmörgu viðburðum hinsegin daga 2017 og halda áfram að styðja við hinsegin samnemendur okkar alla daga ársins.


Frétt unnin af Ágústa Björg Kettler kristjánsdóttir, fulltrúa SHÍ í framkvæmdastjórn LÍS og jafnréttisfulltrúa LÍS

 
Previous
Previous

Vertu með: nefndir LÍS 2017-2018

Next
Next

LÍS og BHM semja um áframhaldandi samstarf