Bætum aðgengi stúdenta að geðheilbrigðisþjónustu

DSC01737-45.jpg

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er í dag (e. World Mental Health Day). Markmið hans er að auka vitund almennings um geðræn vandamál, mikilvægi geðræktar og forvarna á þessu sviði. Á undanförnum árum hefur orðið vitundarvakning sem opnað hefur almenna umræðu um geðheilbrigðismál. Þetta er mjög jákvæð þróun. Opinská umræða dregur úr fordómum í garð fólks sem þjáist af geðrænum sjúkdómum, hjálpar fólki að bera kennsl á einkenni slíkra sjúkdóma og stuðlar að því að það leiti sér aðstoðar í tæka tíð ef þörf krefur.

Í ár er Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn helgaður geðheilsu ungs fólks. Margt ungt fólk glímir við geðræn vandamál. Orsakirnar eru margvíslegar og oft er um að ræða flókið samspil mismunandi þátta. Algengt er að ungt fólk glími við kvíða og þunglyndi og því miður er tíðni sjálfsvíga víða há meðal þessa hóps. Í mars síðastliðnum komu út sjöttu niðurstöður EUROSTUDENT, alþjóðlegrar könnunar um hagi stúdenta í 28 Evrópulöndum. Um 15% íslenskra stúdenta sögðust þar kljást við andleg veikindi og er hlutfallið hvergi hærra. Gefur þetta til kynna sérstaklega bága stöðu íslenskra stúdenta í alþjóðlegu samhengi.

Geðheilbrigðismál hafa verið í forgrunni í hagsmunabaráttu stúdenta síðastliðin ár. Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) hafa kallað eftir auknum úrræðum á þessu sviði í nærumhverfi stúdenta, sérstaklega innan háskólanna. Meðal annars leggja samtökin áherslu á að sálfræðingar starfi innan allra háskólanna í þjónustu við nemendur. Bandalag háskólamanna (BHM) stendur heils hugar á bak við LÍS í þessari baráttu.

Sumir háskólanna hafa brugðist við ákalli stúdenta um bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu innan skólanna. Til að mynda hefur úrræðum á þessu sviði verið fjölgað innan Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans í Reykjavík (HR). BHM og LÍS fagna þessu en leggja jafnframt áherslu á að öllum stúdentum í landinu standi til boða viðeigandi ráðgjöf og þjónusta á þessu sviði og að þjónustan sé bæði aðgengileg og sýnileg í nærumhverfi þeirra.

DSC03499.JPG

Grein er skrifuð af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, formanns LÍS, og Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanns BHM, í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum, 10. október 2018.

Previous
Previous

Taktu þátt og hafðu áhrif! Student Refugees Íslandi

Next
Next

DAGSKRÁIN ER KOMIN! Hágæði í háskólum og nærumhverfi stúdenta, eða hvað?