Nýafstaðin ráðstefna LÍS; Hágæði í háskólum og nærumhverfi stúdenta, eða hvað?

Ráðstefnan „Hágæði í háskólum og nærumhverfi stúdenta, eða hvað?“ fór fram á laugardaginn síðasta, 13. október, í Háskólanum í Reykjavík og var hún haldin af LÍS í samstarfi við RANNÍS og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þar komu saman fulltrúar þeirra sem gæðamál í íslensku háskólakerfi varða, stúdentar, starfsfólk háskólanna og hinir ýmsu hagaðilar. Tilgangur dagsins var að gera gæðamál, og ýmis önnur málefni er varða stúdenta, aðgengilegri fyrir alla þá sem þau varða.

Í byrjun dags fluttu Sigurður Óli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Gæðaráðs íslenskra háskóla og Erna Sigurðardóttir, áheyrnarfulltrúi LÍS í ráðinu, erindi um hvernig gæðakerfi í íslensku háskólakerfi eru byggð upp.

Aldís Mjöll Geirsdóttir, gæðastjóri LÍS, opnaði ráðstefnuna og kynnti afrakstur tveggja gæðaverkefna. Annars vegar „Leiðarvísir fyrir stúdenta um gæðastarf háskólanna“ þar sem aðkoma stúdenta að hinum ýmsu málum er varða gæðastarf innan háskólanna er útskýrð á aðgengilegan hátt, leiðarvísinn má finna með því að smella hér. Hins vegar hlaðvarpið „Stúdentaspjallið“, þar sem talað er um gæðamál á einfaldan og skemmtilegan hátt. Stúdentaspjallið er hugsað sem aðgengileg leið fyrir alla þá sem hafa áhuga á gæðamálum innan háskólanna að kynna sér uppbyggingu þeirra. Fyrsta þáttinn, „Hvað eru eiginlega gæði náms?“ má finna með því að smella hér.

Ráðstefnugestir voru beðnir um að svara því hvað þeir töldu falla undir gæði náms.

Ráðstefnugestir voru beðnir um að svara því hvað þeir töldu falla undir gæði náms.

Þá voru haldnir örfyrirlestrar um hin ýmsu mál sem snúa að stúdentum. Salka Sigurðardóttir, alþjóðaforseti LÍS, og Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, kynntu verkefnið “Student Refugees” sem LÍS eru að setja af stað þessa dagana. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS, hélt erindi um Eurostudent könnunina, þar sem fjallað er um efnahags- og félagslegan hag stúdenta í 28 evrópuríkjum og er þetta í fyrsta skipti sem tölfræðileg gögn liggja fyrir um hag íslenskra stúdenta. Sigrún Jónsdóttir, ritari LÍS, fjallaði um sýn stúdenta á húsnæðismarkaðinn og stöðuna sem þeir standa frami fyrir, hvort sem þeir eru á leigumarkaði eða að hugsa um að kaupa sér fasteign. Rúna Vigdís Guðmarsdóttir og Helga Lind Mar héldu fyrirlestur um viðbragðsáætlanir háskólanna við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Teitur Erlingsson, varaformaður LÍS, hélt erindi þar sem þeir tveir lánasjóðir sem standa stúdentum til boða voru bornir saman og staða LÍN var rædd frá sjónarhorni stúdenta. Alla þessa fyrirlestra má finna með því að smella hér.

Á ráðstefnuna mættu einnig erlendir sérfræðingar um gæðamál og aðkomu stúdenta að þeim, það voru þau Dale Whehelan og Aimee Connelly frá Írlandi og Marija Vasilevska frá Makedóníu. Þau gáfu okkur innsýn í gæðastarf innan háskóla og hversu mikilvæg aðkoma stúdenta er að öllu gæðastarfi og hvernig megi nálgast hana. Erindi þeirra má finna með því að smella hér.

Fulltrúar LÍS á ráðstefnuninni 13. október.

Fulltrúar LÍS á ráðstefnuninni 13. október.

Samtökin vilja þakka öllum þeim er komu að undirbúningi ráðstefnunnar fyrir og einnig þakka þeim gestum sem komu og sóttu ráðstefnuna um þetta mikilvæga málefni.