Student Refugees hlýtur styrk úr Samfélagssjóði Landsbankans

Frá vinstri: Guðrún Agnarsdóttir, formaður dómnefndar, Salka Sigurðardóttir, Sonja Björg Jóhannsdóttir og Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Frá vinstri: Guðrún Agnarsdóttir, formaður dómnefndar, Salka Sigurðardóttir, Sonja Björg Jóhannsdóttir og Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Landsbankinn úthlutaði styrkjum úr Samfélagssjóði Landsbankans 18. desember síðastliðinn og fengu alls 37 verkefni styrkveitingu. Þar á meðal var verkefnið Student Refugees sem er á vegum LÍS en verkefnið hlaut 500.000 krónur. Verkefnið felur í sér að útbúa leiðarvísi, handbók og vefsíðu með öllum þeim upplýsingum sem flóttafólk þarf á að halda til þess að eiga kost á að sækja um háskólanám á Íslandi. Styrkurinn mun koma til góðra nota við uppsetningu verkefnisins.

Verkefnastýrur Student Refugees eru Salka Sigurðardóttir, alþjóðaforseti LÍS, og Sonja Björg Jóhannsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS. Í byrjun nóvember var skipaður starfshópur sem mun vinna að uppsetningu verkefnisins og eru spennandi tímar framundan hjá hópnum. Verkefnið er sett upp eftir danskri fyrirmynd en Student Refugees varð til vegna frumkvæðis stúdenta í Danmörku. Studenterhuset leiðir verkefnið í Danmörku í samvinnu við landssamtök danskra stúdenta (DSF).