Raunhæfar kröfur í vonlausu kerfi

Elísa shí 2018 (1).jpg

Enginn sagði að námsárin ættu að vera auðveld. Þau geta verið erfið, krefjandi og tímafrek en þau eiga líka að vera skemmtileg. Veita okkur innblástur. Við menntum okkur til að miðla til samfélagsins með þekkingu okkar. Reynum að gefa til baka. Við borgum meira að segja til baka. Borgum Lánasjóði íslenskra námsmanna til baka fjárhæðina sem hann lánarokkur á meðan á náminu stendur. 

 

Grunnframfærsla námslána hjá einstaklingi í leigu- eða eigin húsnæði er 184.806 krónur á mánuði. Þar af er gert ráð fyrir 75.276 kr í húsnæðiskostnað. Þess má geta að leiguverð á stúdentagörðum er í flestum tilfellum hærri en sú upphæð auk þess sem Félagsstofnun stúdenta getur einungis þjónustað um 10% nemenda við Háskóla Íslands. Þegar áætlaður húsnæðiskostnaður LÍN er dreginn frá stendur að hámarki eftir 109.530 kr fyrir stúdent til að framfleyta sér út mánuðinn að því gefnu að viðkomandi hafi ekki farið yfir frítekjumarkið.

 

Frítekjumark námslána er 930.000 á ári fyrir skatt, og hefur staðið í stað frá 2014, til samanburðar hafa laun í landinu hækkað um 43% frá janúar þess árs. Af einhverri ástæðu er sú upphæð sem stúdentar fá að láni frá LÍN til þess að framfleyta sér mun lægri en tekjur og bætur annarra samfélagshópa sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Grunnatvinnuleysisbætur eru 270.000 krónur á mánuði og lágmarkslaun eru 300.000 krónur á mánuði. 

 

Þegar stúdent vinnur með náminu til að reyna að hífa sig upp í lágmarkstekjur en þénar umfram frítekjumark, skerðist sú framfærsla sem hann fær að láni frá LÍN um 45 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem hann vinnur sér inn. Þetta þýðir að stúdent sem vinnur í þrjá mánuði að sumri til, má ekki hafa hærri laun en 310.000 kr. á mánuði vilji sá einstaklingur forðast að hljóta skerðingu af framfærslu vegna frítekjumarksins. Ætli stúdent sér að vinna með námi er hann því tilneyddur til að taka á sig áðurnefnda skerðingu.

 

LÍN lánar einungis fyrir 9 mánuðum af árinu og er því gert ráð fyrir að þær tekjur sem stúdent nær að vinna sér inn yfir sumartíma geti nýst til að brúa bilið yfir vetrartímann. Þó virðist umræðan aldrei taka tillit til þess að þær tekjur sem stúdentar ná að afla yfir sumarið þurfa einnig að nýtast þeim til framfærslu á þeim tíma. Það hlýtur því að teljast sérkennileg afstaða að gera ráð fyrir því að stúdentar séu til þess búnir að geta lagt þann pening til hliðar sem þeir vinna sér inn yfir sumartímann þar sem þeir þurfa í versta falli að geta sinnt sínum brýnustu lífs nauðsynjum yfir þá mánuði sem sjóðurinn lánar ekki fyrir framfærslu. 

 

Í óbreyttu kerfi fara stúdentahreyfingarnar fram á að frítekjumark verði hækkað upp í 1.330.000 hið minnsta en breytingin jafngildir einungis hækkun nafnlauna frá síðustu hækkun frítekjumarks árið 2014. Auk þess er farið fram á að skerðingarhlutfallið verði lækkað niður í 35% úr 45% og að framfærslan sé hækkuð. Kröfur stúdenta um hækkun frítekjumarks og hærri framfærslu eru því langt frá því að vera óraunsæjar, hvað þá ef litið er til stöðu og krafna annarra hópa í þjóðfélaginu.

 

Höfundur er lánasjóðsfulltrúi SHÍ

 

Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN