Málstofa á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar: Hreyfanleiki fatlaðra stúdenta.

LÍS tóku þátt í málstofu á vegum Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar þann 15. nóvember en markmið málþingsins var að koma af stað umræðu um hvernig mætti auka möguleika og tækifæri fatlaðs fólks til háskólanáms erlendis í ljósi nýrrar skýrslu um hreyfanleika fatlaðra stúdenta. Norræna velferðarmiðstöðin er stofnun sem fellur undir Norrænu ráðherranefndina en hlutverk þess er að auka gæði í félagsmálageiranum á Norðurlöndunum með rannsóknum, þróunarstarfi, uppbyggingu tengslaneta og alþjóðlegu samstarfi. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS, fór með kynningu á áherslum LÍS úr alþjóðastefnu samtakanna sem og áherslum NOM, samstarfsneti stúdenta á Norðurlöndum, og ESU, Evrópusamtökum stúdenta. Málþingið er hluti af framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar  fyrir norrænt samstarf um málefni fatlaðs fólks sem spannar tímabilið 2018-2022.