European Students’ Convention í Cardiff, Wales: “Securing our Future”

European Students’ Convention (ESC) er reglubundinn atburður sem LÍS sækir tvisvar á ári á vegum European Students’ Union (ESU) þar sem fulltrúar 48 landssamtaka stúdenta frá 39 löndum koma saman. Á fundinum eru ýmis málefni sem varða stúdenta í Evrópu tekin fyrir og rædd, ásamt því að undirbúningsvinna fyrir stjórnarfund ESU, sem er einnig haldinn tvisvar á ári og er æðsta ákvörðunarvald ESU, á sér stað.

Fulltrúar LÍS: Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Fulltrúar LÍS: Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Dagana 10.- 13. október sóttu fulltrúar LÍS 34. ESC ráðstefnuna í Cardiff, Wales. Yfirskrift ráðstefnunnar var “Securing our Future”, þar sem málefni eins og minnihlutatungumál og sjálfbærni voru í brennidepli. Fengu gestir ráðstefnunnar kynningu á verkefnum eins og Menther Lauth, sem beitir sér fyrir því að vernda og efla velska tungumálið. Það framtak var sérstaklega áhugavert fyrir fulltrúa LÍS í ljósi þess hver staða íslenskrar tungu er og þjónaði sem áminning um hversu mikilvægt er að gæta að tungumáli í námi og námsgögnum í háskólanámi.

Einnig fór fram kynning á sjálfbærnistefnu Wales, sem ber yfirskriftina “Well Being of Future Generations”. Þótt að landssamtök stúdenta í Wales hafi ekki verið hluti af stefnumótuninni sjálfri, fengu ráðstefnugestir kynningu á því hvernig þau hafa beitt sér fyrir því að ríkisstjórn Wales standi við þær áherslur sem kynntar eru í stefnunni með því að uppfylla sjálf markmið stefnunnar og setja pressu á yfirvöld til þess að gera slíkt hið sama. Framtak sem þetta er mjög gott dæmi um hvernig stúdentar geta beitt sér sem þrýstiafl fyrir samfélagslegum framförum og breytingum til hins betra.

Varaforseti NUS-Wales, Carmen Ria Smith fer með ræðu

Varaforseti NUS-Wales, Carmen Ria Smith fer með ræðu

Ásamt slíkum kynningum voru einnig haldnar vinnustofur í undirbúningi fyrir stjórnarfund ESU. Unnið var í verkáætlun fyrir árið 2018 og pólitískum áherslum fyrir ESU. Verkáætlanir eru gerðar með ársmillibili og eru byggðar á pólitísku áherslunum sem eru gefnar út á þriggja ára fresti, hvort tveggja fer í gegnum stjórnarfund ESU þar sem farið er yfir breytingatillögur og síðan samþykkt með atkvæðagreiðslu. Með þessu móti er hægt að gæta að því að vinna ESU sé hnitmiðuð og fylgi vilja aðildarfélaganna í hvívetna. 

Fulltrúar LÍS eru ánægðir með ráðstefnuna og hlakka til að færa þá vitneskju sem þeir öðluðust heim og koma henni í nyt í gegnum starfsemi LÍS.

Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur