Umræður á landsþingi LÍS um húsnæðismál Listaháskóla Íslands

Á landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta sem var haldið í Háskólanum á Akureyri helgina 17. - 19. mars var ýtarlega fjallað um gæðamál háskólanna. Um hvað þau snerust, hvernig farið er að þeim og það tekið til umræðu hvaða mál ætti að leggja áherslu á út frá sjónarhóli stúdenta.

Það var því mjög viðeigandi, eftir heila helgi af slíkum umræðum og hugarflugi, að nemendaráð Listaháskólans óskaði eftir því að tekin yrði til umræðu þingsályktunartillaga sem liggur nú fyrir. Þingsályktunartillagan, sem lögð er fram af hópi þingmanna úr þremur mismunandi flokkum, hvetur til þess að húsnæðismál Listaháskólans verði sett í forgang á komandi tíð og að einhvers konar endanlegt fyrirkomulag verði fundið.

Screen Shot 2017-03-26 at 16.11.04.png

Eins og staðan er í dag þá er Listaháskólinn niðurkominn í fjórum mismunandi húsnæðum í misgóðu ástandi. Til dæmis um það má nefna að tvö húsnæðanna búa yfir engu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og í einu þeirra er núna vænst staðfestingar á því að þar megi finna myglusvepp, en kennarar og nemendur, sem hafa lýst því að finna fyrir áhrifum myglusvepps, hafa tekið upp á því að flýja húsnæðið og leitað í aðstöður utan skólans til þess að geta haldið störfum sínum áfram. Þær deildir sem eru staðsettar í því húsnæði munu koma til með að vera húsnæðislausar þegar staðfesting á myglusvepp hefur borist.

Húsnæði tónlistar- og sviðlistabrautar Listaháskólans er staðsett á Sölvhólsgötu. Beðið er eftir staðfestingu á því að í húsinu, sem er fimm hæða og lyftulaust, sé myglusveppur. – Mynd: visir.is

Húsnæði tónlistar- og sviðlistabrautar Listaháskólans er staðsett á Sölvhólsgötu. Beðið er eftir staðfestingu á því að í húsinu, sem er fimm hæða og lyftulaust, sé myglusveppur. – Mynd: visir.is

Sandra Rún Jónsdóttir, formaður NLHÍ, gerir grein fyrir umsögn NLHÍ um þingsályktunartillöguna – Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Sandra Rún Jónsdóttir, formaður NLHÍ, gerir grein fyrir umsögn NLHÍ um þingsályktunartillöguna – Mynd: Elín Dóra Birgisdóttir

Nemendaráð Listaháskólans las upp umsögn sína um þingsályktunartillöguna þar sem rök voru færð fyrir nauðsyn þessa máls og óskaði eftir stuðningi við umsögnina frá hinum aðildarfélögum LÍS. Bón NLHÍ var tekið af hinum aðildarfélögunum með eindæma hvatningu og vilja til stuðnings. Þau hvöttu NLHÍ til þess að láta í sér heyra og fögnuðu því að NLHÍ vekti athygli á þessu, undirstrikuðu þörfina á umfjöllun og tjáðu sig um það að LÍS ætti að beita sér sem þrýstiafl í þessu máli. Afrakstur umræðnanna fólst í því að öll aðildarfélögin hyggðust skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við umsögn nemendaráðs Listaháskóla Íslands og að í framhaldi af því myndi LÍS beita sér fyrir þessu.

NLHÍ er þakklátt fyrir þær móttökur sem það fékk við umleitan sinni, en viðtökur sem þessar eru tákn um einstakan hóp einstaklinga sem sitja í forsvari fyrir stúdenta landsins, þar sem ekki er leitað eftir því að kljúfa í fylkingar, heldur sameinast í baráttumálum sínum og gæta hagsmuna hvers annars.

Þessar umræður voru byltingakenndar að mörgu leyti, og þá mögulega fyrst og fremst að því að þarna var komið veigamikið mál sem LÍS gæti beitt sér fyrir með öllum sínum mætti, sem sameinuð rödd stúdenta.

Húsnæði myndlistardeildar er staðsett á Laugarnesi. Húsið er fyrrum sláturhús SS. Listaháskólinn nýtir einungis hluta húsnæðisins, en restin er nýtt í geymslurými fyrir ríkisstarfsmenn og þjóðleikhúsið. Pípulagnir hússins eru að mestu leyti handónýtar svo að skólplykt hefur legið í húsinu ásamt því að eina lyftan sem stendur til boða er vörulyfta. Húsið hefur ekki gengið í gegnum viðunandi breytingar til þess að geta þjónað sem almennilegt skólarými. – Mynd: lhi.is

Húsnæði myndlistardeildar er staðsett á Laugarnesi. Húsið er fyrrum sláturhús SS. Listaháskólinn nýtir einungis hluta húsnæðisins, en restin er nýtt í geymslurými fyrir ríkisstarfsmenn og þjóðleikhúsið. Pípulagnir hússins eru að mestu leyti handónýtar svo að skólplykt hefur legið í húsinu ásamt því að eina lyftan sem stendur til boða er vörulyfta. Húsið hefur ekki gengið í gegnum viðunandi breytingar til þess að geta þjónað sem almennilegt skólarými. – Mynd: lhi.is

 

Hér má finna þingsályktunartillöguna, umræður um hana í þingsal og upplýsingar um hvernig skila má inn umsögn, en það er öllum frjálst að skila inn umsögnum, hvort sem það eru einstaklingar eða hópar.


Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur, fulltrúa NLHÍ í framkvæmdastjórn LÍS