Sonja Björg Jóhannsdóttir kjörin nýr forseti LÍS á landsþingi

Frá vinnustofum

Frá vinnustofum

Helgina 29.-31. mars fór Landsþing landssamtaka íslenskra stúdenta - LÍS fram í háskólanum á Bifröst. Yfirskrift þingsins var Sjálfbærni og háskólasamfélagið - hver er okkar samfélagslega ábyrgð? Þriðji og jafnframt síðasti dagur landsþings LÍS 2019 hófst á áframhaldandi vinnustofu um forgangsröðun á heimsmarkmiðum SÞ. Tilgangur vinnustofunnar var að draga saman áherslur þingfulltrúa úr fyrri vinnustofum. Ljóst er að heimsmarkmiðin ná yfir víðan völl en komu þingfulltrúar sér saman um undirmarkmið sem LÍS geta beitt sér fyrir. Niðurstöður vinnustofanna munu nýtast sem efniviður fyrir mótun á stefnu LÍS í sjálfbærni. Stefnan verður lögð fyrir landsþing LÍS á næsta starfsári.

Ályktanir landsþings

IMG_8960.JPG

Eftir vinnustofurnar voru borin upp þrjú önnur mál sem þingið tók afstöðu til. Í fyrsta lagi var ályktun LÍS um nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna - LÍN fyrir skólaárið 2019 - 2020 tekin fyrir. Lesa má nánar um ályktunina hér. Í öðru lagi lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands - SHÍ fram tillögu um að LÍS myndi fara fyrir hönd ráðsins með stuðningstillögu varðandi afstöðu SHÍ gegn tanngreiningum á hælisleitendum innan menntastofnanna á þing European Students Union - ESU í maí. Sömuleiðis óskaði SHÍ eftir því að þing ESU myndi taka til umfjöllunar afstöðu stúdenta í Evrópu gagnvart tanngreiningum innan menntastofnanna. Tillagan var samþykkt einróma. Það er ómetanlegt fyrir íslenska stúdenta að hafa aðgang að vettvangi eins og ESU þar sem hægt er að vekja alþjóðlega athygli á stöðu mála hér á landi sem og sækja stuðning frá stúdentum út um allan heim. Þetta er í fyrsta skipti sem aðildarfélag LÍS biður um að sótt sé eftir stuðningi á þennan máta. Í þriðja lagi barst tillaga frá Stúdentaráði Háskólans á Akureyri - SHA um að næsta landsþing LÍS færi fram á Akureyri. Sú tillaga var sömuleiðis samþykkt.   


Kosningar til framkvæmdastjórnar

Í lok dags fóru fram kosninsgar til embætta innan framkvæmdastjórnar LÍS. Alls bárust átta framboð í embætti framkvæmdastjórnar, en að kosningum loknum var framkvæmdastjórn starfsársins 2019-2020 fullskipuð. Mörg spennandi verkefni bíða nýkjörinnar framkvæmdastjórnar, en nú kemur í hönd skiptatímabil þar sem fráfarandi og nýkjörin framkvæmdastjórn vinna saman að því að kynna verkefni embætta og stjórnar fyrir nýjum meðlimum.  


Eftirfarandi eru meðlimir framkvæmdastjórnar LÍS starfsárið 2019 - 2020:

Forseti - Sonja Björg Jóhannsdóttir
Varaforseti - Sigrún Jónsdóttir
Alþjóðafulltrúi - Jóhanna Ásgeirsdóttir
Fjáröflunarstjóri - Aníta Eir Jakobsdóttir
Markaðstjóri - Polina Diljá Helgadóttir
Gæðastjóri - Eygló María Björnsdóttir
Jafnréttisfulltrúi - Anastasía Jónsdóttir
Ritari - Hjördís Sveinsdóttir

Nýkjörin framkvæmdastjórn Efri röð frá vinstri: Eygló María, Sonja Björg og Anastasía Neðri röð frá vinstri: Hjördís, Aníta Eir, Sigrún, Polina Diljá og Jóhanna

Nýkjörin framkvæmdastjórn
Efri röð frá vinstri: Eygló María, Sonja Björg og Anastasía
Neðri röð frá vinstri: Hjördís, Aníta Eir, Sigrún, Polina Diljá og Jóhanna



Previous
Previous

Opið fyrir svör í EUROSTUDENT VII könnunina

Next
Next

Landsþing LÍS ályktar um nýjar úthlutunarreglur LÍN