Langar þig að læra?

sonja

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta halda upp á 5 ára afmæli um þessar mundir og því ber að fagna. Margt hefur áunnist á síðastliðnum fimm árum og er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að samtökin hafi náð jafn langt og raun ber vitni á svo stuttum tíma.  Hlutverk LÍS er að sinna hagsmunagæslu fyrir stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta erlendis en það er gríðarlega mikilvægt fyrir stúdenta að hafa sameiginlega rödd og geta staðið saman öll sem eitt til þess að bæta kjör stúdenta. Saman erum við sterkara afl.

Að hafa þann möguleika að stunda nám á háskólastigi eru mannréttindi. Allir sem hafa áhuga og vilja til þess að stunda nám eiga að hafa rétt á því óháð kyni, kynhneigð, trú, uppruna, efnahag, búsetu, líkamlegrar eða andlegrar fötlunar, félagslegar aðstæðna eða stöðu að öðru leyti.

Jafnréttisbarátta stúdenta síðustu ára og áratuga hefur komið okkur langt. Ýmis kjör hafa verið bætt og er gaman að líta yfir farinn veg. Með því að koma á fót lánasjóð sem tryggir fólki tækifæri til náms án tillits til efnahags hefur aðgengi að háskólakerfinu aukist, en betur má ef duga skal. Með því að fjölga stöðugildum táknmálstúlka innan háskólakerfisins var verið að bætaaðstöðu þeirra sem eru döff. Eins hafa breyttar reglur LÍN - Lánasjóðs íslenskra námsmanna gefið flóttafólki betri kost á að stunda háskólanám á Íslandi.

En er raunverulega komið á jafnrétti fyrir alla að geta stundað nám á háskólastigi? Er jafnrétti við lýði þegar reglur LÍN um frítekjumark og framfærslulán eru úreltar? Er jafnrétti þegar fatlaðir einstaklingar neyðast til að velja háskóla út frá aðstöðu og þjónustu sem er í boði en ekki út frá gæðum og framboði námsins sem skólinn býður upp á? Er jafnrétti til náms þegar nauðsynlegt er að tala íslensku til þess að geta stundað grunnnám í háskólum á Íslandi?

Svarið er nei. Það er ekki jafnrétti til náms þegar ennþá eru hópar á Íslandi sem vilja stunda háskólanám en hafa ekki tök á því.

LÍS og aðildarfélög halda áfram að berjast fyrir réttindum stúdenta, öll sem eitt. Því allir eiga að hafa þann möguleika að læra það sem þeir vilja á sínum forsendum.


Sonja Björg Jóhannsdóttir

Jafnréttisfulltrúi LÍS

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Þessi grein er sú þriðja í röð greina um störf og sögu samtakanna sem skrifaðar eru að því tilefni.

Previous
Previous

Undir sama þaki – samstarf BHM við LÍS

Next
Next

Grein í tilefni af 5 ára afmæli LÍS