Vilt þú vera með? Opið fyrir framboð til framkvæmdastjórnar LÍS

Opnað hefur verið fyrir framboð til embætta framkvæmdastjórnar LÍS fyrir starfsárið 2019-2020. Framboð skulu berast á kjorstjorn@studentar.is fyrir kl 23:50 þann 15. mars n.k.. Framboðum skulu fylgja kynningarbréf og ferilskrá frambjóðenda. Kosningar til framkvæmdastjórnar eiga sér stað á landsþingi LÍS á Háskólanum á Bifröst helgina 29.-31. mars n.k..

Lýsing á framkvæmdastjórn og embættum úr lögum LÍS:

18.gr. Skipun framkvæmdastjórnar
Í framkvæmdastjórn sitja formaður, varaformaður, ritari, fjármálastjóri, alþjóðaforseti, gæðastjóri, markaðsstjóri og jafnréttisfulltrúi sem kosnir eru í embætti á landsþingi, sbr. 49. gr. Framkvæmdastjórn sækir umboð sitt til fulltrúaráðs

19.gr. Hlutverk og skyldur framkvæmdastjórnar
Framkvæmdastjórn stjórnar daglegu starfi samtakanna í samræmi við lög þessi, stefnur og samþykktir samtakanna. Þá tekur framkvæmdastjórn að sér önnur tilfallandi verkefni er lúta að hagsmunum stúdenta.

20.gr. Skyldur og réttindi fulltrúa
Fulltrúar í framkvæmdastjórn bera ábyrgð á miðlun upplýsinga til fulltrúaráðs. Við atkvæðagreiðslu á fundum framkvæmdastjórnar hefur hver fulltrúi eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða.

Fulltrúar hafa rétt til setu, málfrelsi og tillögurétt á fundum fulltrúaráðs og landsþingi.


21. gr. Formaður LÍS
Formaður LÍS er formaður framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs LÍS.

Hlutverk formanns er að:

  • Boða framkvæmdastjórnar- og fulltrúaráðsfundi, leggja fram dagskrá og stýra fundum.

  • Koma fram fyrir hönd félagsins og vera málsvari þess á opinberum vettvangi.

  • Vera ábyrgur fyrir miðlun upplýsinga til fulltrúa og varamanna í fulltrúaráði um alla starfsemi LÍS.

  • Gæta jafnt að hagsmunum allra aðildarfélaga og gæta hlutleysis í hvívetna.

 

Formaður hefur ekki atkvæðisrétt á fundum fulltrúaráðs nema að atkvæði falla að jöfnu.
Fulltrúaráð ákvarðar starfs- og launakjör formanns.

 

22. gr. Alþjóðaforseti
Alþjóðaforseti hefur umsjón með alþjóðastarfi, samskiptum við stúdentasamtök annarra landa og regnhlífasamtök stúdenta í Evrópu og víðar. Alþjóðaforseti er ábyrgður fyrir og sér um þátttöku íslenskra stúdenta á alþjóðlegum fundum og ráðstefnum. Alþjóðaforseti skal upplýsa fulltrúaráð og framkvæmdastjórn um alþjóðastarf samtakanna. Alþjóðaforseti skal  gæta þess að alþjóðastefnu samtakanna sé fylgt. Alþjóðaforseti er yfir alþjóðanefnd.

 

23. gr. Gæðastjóri
Gæðastjóri ber ábyrgð á því að þekking innan samtakanna á gæðamálum sé fullnægjandi. Þá er hlutverk gæðastjóra að efla þekkingu og áhuga hins almenna háskólanema á gæðamálum. Gæðastjóri er tengiliður Gæðaráðs íslenskra háskóla við samtökin. Gæðastjóri skal gæta þess að gæðastefnu samtakanna sé fylgt. Gæðastjóri er yfir gæðanefnd.

 

24.gr .Varaformaður
Varaformaður skal sinna formennsku í fjarveru formanns. Varaformaður skal aðstoða formann við gerð fundardagskrár. Varaformaður hefur yfirumsjón með lagabreytingum samtakanna og fer fyrir lagabreytingarnefnd. Lagabreytinganefnd skal endurskoða lög samtakanna ár hvert.

 

25.gr. Fjármálastjóri
Fjármálastjóri skal hafa yfirumsjón með fjármálum samtakanna. Fjármálastjóri ber ábyrgð á því að greiða þau gjöld er samtökunum ber að greiða og innheimta kröfur. Fjármálastjóri skal sjá um gerð fjárhagsáætlunar í upphafi starfsárs og leggja fyrir fulltrúaráð til samþykktar. Fjármálastjóri hefur prókúru fyrir reikningum samtakanna. Fjármálastjóri skal sjá til þess að ársreikningur sé gerður, kynna hann á landsþingi og bera hann upp til samþykktar. Fjármálastjóri er ábyrgur fyrir fjáröflun og hefur umsjón með gerð styrktar- og viðskiptasamninga. Fjármálastjóri er yfir fjármálanefnd.

 

26.gr. Ritari
Ritari LÍS skal skrá fundargerðir fyrir hvern framkvæmdastjórnarfund, á vinnudögum og vinnuþingum stjórnar. Ritari skal halda utan um mætingu stjórnarmanna á fundi og ber ábyrgð á varðveislu og vistun fundargagna samtakanna. Þá hefur ritari jafnframt umsjón með sameiginlegum gögnum samtakanna – að á þeim sé gott skipulag og hægt að finna öll þau gögn er samtökin varða.

 

27.gr. Markaðsstjóri
Markaðsstjóri sér um að koma samtökunum á framfæri og skal semja markaðsáætlun í upphafi starfsárs. Markaðsstjóri skal vekja athygli á LÍS í samfélaginu, þá sérstaklega meðal framhalds- og háskólanema. Markaðsstjóri ber ábyrgð á útgáfu LÍS svo sem á heimasíðu, samfélagsmiðlum og prenti. Markaðsstjóri sér um viðburði sem haldnir eru á vegum samtakanna. Markaðsstjóri er yfir markaðsnefnd.

 

28.gr. Jafnréttisfulltrúi
Jafnréttisfulltrúi skal gæta þess að jafnrétti ríki innan samtakanna. Hann skal leitast við að tryggja öllum stúdentum jafnan rétt, jafna stöðu og leggja ríka áherslu á að allir samfélagsþegnar búi við jafnrétti til náms. Jafnréttisfulltrúi skal sjá til þess að jafnréttisstefnu samtakanna sé fylgt. Jafnréttisfulltrúi er yfir jafnréttisnefnd.

Nánari upplýsingar veitir Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, formaður LÍS á elsa@studentar.is.