Órar úr efri kojunni

Annamarsy_lis5ar

Þarna lá ég, í efri koju á dönsku hosteli vorið 2012, að morgni fyrstu ráðstefnunnar minnar á vegum Evrópusamtaka Stúdenta og hlustaði í hroturnar í herbergisfélögum mínum, steinrunnin. Þegar ég fékk lykilinn daginn áður sagði konan í móttökunni að ég yrði með þremur stelpum í herbergi en að þær kæmu ekki fyrr en seint. Mér brá því nokkuð þegar ég vaknaði, velti mér á hliðina og við blöstu tveir íturvaxnir og hálfberir finnskir karlmenn, þeir Jyri og Juha. Hroturnar komu að mestu frá Finnanum í neðri kojunni, Kim sem var fíngerðari en með engu færri Y-litninga.

Þegar tríóið vaknaði kom auðvitað í ljós að þetta voru hinir mestu mektarmenn. Þeir réttu mér fötin mín upp í koju og buðu mér sjúss af lífsvökvanum Miintu sem er kalt í munni en vermir hjartað og bragðast eins og hið besta tannkrem. Þar sem ég var eini Íslendingurinn á ráðstefnunni tóku þeir mig undir sinn væng og útskýrðu fyrir mér illskiljanlega dagskrárliði, ýmsar skrítnar skammstafanir og ekki síst millilandapólitíkina. Þeir voru frá regnhlífasamtökum stúdenta í Finnlandi – raunar voru nær allir ráðstefnugestir frá slíkum samtökum, innan og utan Evrópu. Sem fulltrúi SHÍ gat ég hinsvegar aðeins talað fyrir hönd stúdenta einnar stofnunnar, Háskóla Íslands. Þegar ég lagðist í kojuna mína síðasta kvöldið, umkringd elsku Finnunum mínum, gat ég ekki varist þeirri hugsun að eitthvað vantaði.

Þegar heim var komið spurðist ég fyrir – Afhverju áttu Íslendingar sjö háskóla en ekkert sameiginlegt hagsmunaafl? Það stóð ekki á svörum: sökum gríðarlegs muns á nemendafjölda milli skólanna höfðu stærstu stúdentafélögin, SHÍ og SFHR aldrei getað komið sér saman um atkvæðahlutfall í stjórn svo regnhlífasamtökin voru aldrei stofnuð. Nú virtist tíminn hinsvegar kominn. Snemma árs 2013 kom í ljós að fyrirhugaðar væru stórar breytingar á LÍN sem væru afar bagalegar fyrir stúdenta. Það leiddi til aukins samvinnuvilja milli stúdentafélaganna og dómsmáls þar sem stúdentar höfðu betur.

Raddirnar runnu í eitt

Hvað LÍS varðar slógu fulltrúar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst nær samstundis til. Skömmu síðar var HR komið á vagninn og fljótlega áttu allir stúdentar á Íslandi og íslenskir stúdentar erlendis sína fulltrúa í undirbúningshóp Landssamtaka íslenskra stúdenta. Verkið var þó ekki auðsótt. Stundum var lítið sofið og stundum var rifist, bæði fyrir og eftir stofnunina enda kom í ljós að það er meira en bara að segja það að stofna félag sem ætlað er að þjóna svo ólíkum nemendahópum.

Oft var erfiðast að eiga við mitt heimafélag, SHÍ, enda hefur félagið ekki aðeins langstærsta skjólstæðingafjöldann heldur einnig umdeilda sögu af sundurlyndri stúdentapólitík þar sem baráttan snérist gjarnan um völd fremur en hagsmuni. Svo LÍS mætti verða þurfti að vinda ofan af slíkum hugsunarhætti; SHÍ þurfti nefnilega alls ekki á hinum félögunum að halda, það voru hin félögin sem þörfnuðust SHÍ.

Það telst SHÍ því til mikilla tekna að hafa gengið inn í samstarfið með þeim hætti sem gert var. Í raun má sú ákvörðun teljast fordæmisgefandi fyrir fólk og hópa í samfélaginu sem eru í svipaðri stöðu og er jafnframt kjarninn í því sem LÍS stendur fyrir. Þegar þeir sterkustu brjóta odd af oflæti sínu og veita þeim smærri hluta valdsins er það heildinni til heilla.

LÍS eru allt í senn vettvangur fyrir stúdenta til að bera saman bækur sínar varðandi innanskólamál og sameinuð rödd gagnvart íslenskum og erlendum yfirvöldum. Samtökin eru lítið félag með stórt hjarta og skýran vilja til að styrkja menntun á Íslandi. Þau eru sýnilegri og fagmannlegri með hverju árinu en þar að baki liggur linnulaus sjálfboðavinna, vinna sem mig óraði ekki fyrir þar sem ég lá stjörf í kojunni minni 2012.  LÍS var og er hópátak. Samtökin þarfnast margra handa í verk sem aldrei lýkur en svo lengi sem það skilar árangri er starfið þess virði. Það var það fyrir mig, og ég trúi að það sama gildi um aðra stofnaðila.

Í dag finnst mér ég ekki eiga mikið í samtökunum en þau eiga mikið í mér. Ég er stolt og hrærð að fá að fagna fimm ára afmæli þeirra – áfanga sem eitt sinn var aðeins fjarlægur draumur  – og óska stjórn, aðildarfélögum og stúdentum innilega til hamingu.

Anna Marsibil Clausen
Fyrsti formaður LÍS (2013 – 2014)

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Þessi grein er fyrst í röð greina um störf og sögu samtakanna sem skrifaðar eru að því tilefni.

Previous
Previous

Grein í tilefni af 5 ára afmæli LÍS

Next
Next

European Students’ Convention 36 í Vín