Grein í tilefni af 5 ára afmæli LÍS

R'UNASIGGI.jpg

Háskólaárin geta skipt sköpum við að undirbúa ungt fólk fyrir virka þátttöku á vinnumarkaðinum og í lýðræðissamfélagi þar sem rödd þeirra fær að heyrast. Til að háskólar standi undir þessu veigamikla verkefni verða þeir að bjóða upp á nám og kennslu sem styður háskólanema í að öðlast þekkingu, leikni og hæfni sem mun nýtast þeim í framtíðinni í námsumhverfi þar sem hagsmunir þeirra eru tryggðir. Á þeim fimm árum sem eru liðin síðan Landssamtök íslenskra stúdenta voru stofnuð hafa samtökin fest sig í sessi sem sameinuð rödd stúdenta á Íslandi – rödd sem veitir aðhald og stendur vörð um þessa hagsmuni.

Rannís hefur það hlutverk að styðja við rannsóknir, nýsköpun, menntun, menningu, æskulýðsstarf og íþróttir og eru háskólamál þar engin undantekning. Hér er rekin Landskrifstofa Erasmus+, sem meðal annars býður upp á tækifæri fyrir stúdenta til að auka færni sína og fá fjölbreyttari námsmöguleika með dvöl erlendis. Vandað starf LÍS í alþjóðamálum, ekki síst með stefnu samtakanna um alþjóðavæðingu íslensks háskólasamfélags, hefur hjálpað okkur við að skerpa á mikilvægi þess að nemendur hafi jafnt aðgengi að námstækifærum erlendis, að greina hvaða hindranir geta helst komið upp og að finna lausnir. Við deilum þeirri sýn að þátttaka í áætlun eins og Erasmus+ auki gagnrýna hugsun og þekkingu og geti stuðlað að umburðarlyndara samfélagi. Verkefni eins og Student Refugees á Íslandi, sem LÍS tekur þátt í til að auðvelda flóttafólki að sækja um og hefja nám á háskólastigi á Íslandi, sýna vel hvað samtökin geta komið góðu til leiðar í þessum efnum.

Rannís hefur á undanförnum árum átt í formlegu samstarfi við LÍS með þátttöku í Bologna Reform in Iceland (BORE), stefnumótunarverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sviði háskólastigsins og nútímavæðingar þess. Markmið verkefnisins er meðal annars að treysta stöðu stúdenta í gæðamálum en stúdentar eru, og hafa verið, öflugir þátttakendur í rammaáætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla um eflingu gæða. Sérstaklega ber að nefna að LÍS tilnefnir einn meðlim í Gæðaráð og einn áheyrnarfulltrúa til að sitja fundi ráðsins. Er því óhætt að segja að sjónarmið stúdenta hafi því fengið aukinn sess í umræðu og ákvarðanatöku ráðsins. Einnig tilnefnir LÍS tvo fulltrúa í ráðgjafarnefnd Gæðaráðs, en þar sitja einnig allir gæðastjórar háskólanna. Frá upphafi hafa stúdentar tekið þátt í störfum nefndarinnar, og til dæmis komið að skipulagningu ráðstefna um gæðamál sem nefndin hefur haldið, miðlað upplýsingum til nefndarinnar um strauma og stefnur í hagsmunabaráttu stúdenta á alþjóðavettvangi, og almennt séð til þess að stúdentar hafi öfluga málsvara á þessum vettvangi. Að lokum skal geta þess að LÍS samþykkti metnaðarfulla gæðastefnu sína á síðasta ári, og lyfti þar sannkölluðu grettistaki. Gæðastefnan er leiðarhnoða sem greiðir för til aukinna gæða, stúdentum og öðrum háskólaborgurum til mikilla hagsbóta.

Um leið og við óskum LÍS hjartanlega til hamingju með afmælið viljum við þakka samtökunum fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf á síðastliðnum fimm árum. Framlag ykkar er mikilvægt og við hlökkum til að starfa áfram með ykkur áfram að bættu háskólasamfélagi á Íslandi.

Rúna Vigdís Guðmarsdóttir

Sigurður Óli Sigurðsson

Sérfræðingar hjá RANNÍS, Rannsóknarmiðstöð Íslands.

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Þessi grein er önnur í röð greina um störf og sögu samtakanna sem skrifaðar eru að því tilefni.