Guest User Guest User

LÍS og mennta- og menningarmálaráðuneyti gera með sér styrktarsamning

Þann 19. september síðastliðinn héldu Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður LÍS, og David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, á fund með mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, í mennta- og menningarmálaráðuneyti (MRN). Það eru gleðitíðindi að tilkynna að ritað var undir samning við MRN sem tryggir fjármögnun samtakanna fyrir starfsárið 2017-2018.

Þann 19. september síðastliðinn héldu Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður LÍS, og David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, á fund með mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, í mennta- og menningarmálaráðuneyti (MRN). Það eru gleðitíðindi að tilkynna að ritað var undir samning við MRN sem tryggir fjármögnun samtakanna fyrir starfsárið 2017-2018.

Mynd: MRN

Frá því að Landssamtök íslenskra stúdenta voru stofnuð, þann 3. nóvember 2013, hefur verið unnið að leiðum til að fjármagna tilvist og starf samtakanna. Á starfsárinu 2015-2016 sótti framkvæmdastjórn um þjónustusamning við MRN, enda kominn tími til að tryggja langtíma fjármögnun samtakanna.
Í janúar 2016 féll það í hlut framkvæmdastjórnar starfsársins 2016-2017 að halda umsóknarferlinu áfram. Unnið var að endurskoðun á fyrri umsókn sem var í framhaldi send til ráðuneytis á ný. Ráðuneytið veitti LÍS bráðabirgðastyrk fyrir starfsárið 2016 og markaði það upphaf formlegra samningaviðræðna. Áskilið var að þær yrðu teknar upp að nýju í byrjun árs 2017. Framkvæmdastjórn 2017-2018 tók upp þráðinn og lauk viðræðum með undirskrift styrktarsamnings nú í vikunni.

Samtökin og verkefni sem þau halda utan um hafa vaxið ört frá stofnun enda hefur verið mikil þörf og eftirspurn fyrir landssamtökum stúdenta á Íslandi. Þessi samningur er því mikil lyftistöng fyrir rekstur samtakanna en hann var einungis mögulegur vegna fórnfýsi og ósérhlífni einstaklinga innan þeirra síðustu ára sem hafa viljað sjá samtökin vaxa og dafna.

Það mætti því segja að ferðalagið frá því að fyrsta umsókn var samin þangað til að samningur var endanlega undirritaður, hafi verið langt og lærdómsríkt en þó á sama tíma virkilega ánægjulegt. Við þökkum Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir fundinn og hlökkum til frekara samtals og samstarfs við ráðuneytið á starfsárinu sem og um ókomna tíð!

Undirritun
Read More