Vinnustofa á vegum Landssamtaka palestínskra stúdenta í Ramallah, Palestínu

Dagana 4.-5. desember sóttu fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, vinnustofu á vegum Landssamtaka palestínskra stúdenta (PSCF) í Ramallah í Palestínu. LÍS var boðið af PSCF og Landssamtökum stúdenta í Danmörku (DSF) að taka þátt í þessari vinnustofu ásamt öllum öðrum aðildarfélögum European Students’ Union (ESU), en stjórnarfundur ESU var haldinn í Jerúsalem í vikunni áður og lauk 3. desember.

Hópmynd af þeim sem sóttu vinnustofuna

Hópmynd af þeim sem sóttu vinnustofuna

Ásamt LÍS þá sóttu sex önnur landssamtök vinnustofuna, ásamt fulltrúum frá ESU, þar á meðal forseti ESU, Helge Schwitters, DSF og PSCF. Hafa DSF unnið með PSCF frá því árið 2013, fyrst að því að stofna PSCF og síðan að því að byggja samtökin upp. Var þessi vinnustofa síðan hugsuð sem ákveðin tímamót í sögu PSCF, þar sem tækifæri gæfist fyrir samtökin til að kynnast enn fleiri samtökum í Evrópu, læra af þeim og stofna til samtals. Það var einstaklega lærdómsríkt fyrir fulltrúa LÍS og annarra samtaka að eiga samtal við palestínska fulltrúa stúdenta, þar sem hernám Ísraels í Palestínu veldur því að baráttumál stúdenta þar eru af allt öðru eðli heldur en stúdentar í Evrópu eru yfirleitt kunnugir.

Fólust vinnustofur meðal annars í því að finna langtímalausnir til þess að tryggja PSCF fjármagn, en vegna hernámsins er mjög erfitt fyrir samtök að eiga nokkurt fjármagn. Eins var alþjóðavæðing rædd en það er risavaxið vandamál fólgið í ímynd Palestínu úti í heimi, sem og þeir erfiðleikar sem felast annars vegar í því fyrir palestínska stúdenta að ferðast erlendis og hins vegar fyrir erlenda gesti að koma til Palestínu. Reyndu vinnustofurnar því að ýmsu leyti á hæfileika þátttakenda til þess að hugsa í lausnum og undir allt öðrum kringumstæðum en hingað til. Mynduðust líflegar umræður og ýmsar aðferðir búnar til með það að takmarki að leysa þessi vandamál og mátti þegar sjá að hafði myndast vísir að áframhaldandi samtali á milli samtaka.

Emad Abu Kish, rektor Al-Quds háskóla, stærsta háskóla Palestínu, var með erindi sem bar yfirskriftina “the role of youth in fighting extremism”. Þar ræddi hann þau vandamál sem ungmenni standa frammi fyrir í Palestínu. Um 70% ungmenna í Palestínu skortir vinnu og eru 35 þúsund útskrifaðra stúdenta atvinnulausir. Er ísraelskt hernám landsins rót vandans, þar sem það gerir nær allar tilraunir til þess að rækta og efla eðlilegt samfélag vonlausar. Hefur Al-Quds háskólinn reynt að beita sér út fyrir háskólann með því að standa fyrir ýmsum samfélagslegum framtökum, líkt og arabísku bókasafni í gömlu borg Jerúsalem fyrir Palestínumenn sem þar búa. Eru 20% ársútgjalda háskólans fólgin í þessum framtökum.

Fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Fulltrúar LÍS, Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Sneru fulltrúar LÍS heim með nýja sýn á hlutverk stúdenta í samfélaginu og nýjan skilning á þeim aðstæðum sem stúdentar víðs vegar búa við. Daginn eftir að fulltrúar LÍS lentu á Íslandi fór svo að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lýsti því yfir að Bandaríkin viðurkenndu Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael. Yfirlýsing sem olli því að það brothætta ástand sem ríkir á þessu landssvæði jók á reiðiskjálfi.

LÍS fordæmir afleiðingar hernámsins á stúdenta, og lýsir yfir stuðningi við palestínska stúdenta í baráttu sinni fyrir jöfnu aðgengi að námi og öryggi.

 

Frétt unnin af Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur