Landssamtök íslenskra stúdenta eiga tvo fulltrúa í ráðgjafanefnd Gæðaráðs háskólanna. Það eru þau David Erik Mollberg og Aldís Mjöll Geirsdóttir. Fulltrúar LÍS í nefndinni gæta þess að stúdentar leggi sitt af mörkum í vinnu gæðaráðs auk þess sem fulltrúarnir eru málpípa stúdenta í ráðinu. 

Gæðaráð íslenskra háskóla var sett á laggirnar árið 2010. Gæðaráðið er skipað sex erlendum sérfræðingum sem gera úttektir á gæðum náms í íslenskum háskólum. Gæðaráði til halds og trausts er fyrrnefnd ráðgjafanefnd sem er skipuð gæðastjórum íslenskra háskóla og fulltrúum stúdenta. Rannís hefur umsjón með Gæðaráðinu.

Gæðaráðið hefur sett fram rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework) og birt í sérstakri handbók. Kveður rammaáætlun á um að á fimm ára tímabili skuli fara fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfs á Íslandi. Felst matið annars vegar í innra mati (sjálfsmati) háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum.

Hér má nálgast upplýsingar um rammaáætlun Gæðaráðsins á ensku.

Heimild: Rannís.