LÍS hefur skyldur við framtíðina

Landssamtök íslenskra stúdenta hafa farið vel af stað. Fimm ára saga er ekki löng í neinum skilningi en starfsemi samtakanna hefur verið að festast í sessi og þau eru farin að gera sig gildandi í málefnum íslenskra háskólastúdenta svo eftir er tekið. Háskólinn á Bifröst fagnaði því framtaki að stofna samtökin og Bifröst hefur í tvígang verið vettvangur fyrir landsþing þeirra og það hefur verið mikill heiður fyrir skólann.

Með Landssamtökum íslenskra stúdenta eru nemendur í öllum háskólum landsins virkjaðir til leiks í hagsmunamálum sínum og breiðari umfjöllun og samstaða meðal allra stúdenta styrkir málstaðinn og tryggir að frekar er á raddir þeirra hlustað. Samtökin og álitsgerðir þeirra og samþykktir sem byggja á vandaðri umræðu og vinnu hafa mikla þýðingu fyrir þróun íslenskra háskóla. Það skiptir miklu máli þegar leitast er við að bæta íslenskra háskóla þannig að þeir styrki atvinnulífið og samfélagið með starfsemi sinni að samtökin komi að málum með afgerandi hætti.

Landssamtök íslenskra stúdenta hafa eins og íslenskir háskólar skyldur við framtíðina. Markmið okkar allra er að gera Ísland að öflugra og betra samfélagi þar sem háskólamenntað fólk kýs að finna sér starfsvettvang og búa í. Samtökin hafa í upphafi vegferðar sinnar verið að rækta þessar skyldur.

Ég óska Landssamtökum íslenskra stúdenta til hamingju með þennan áfanga í starfinu og sendi bestu óskir um áframhaldandi velgengni frá Háskólanum á Bifröst.

Vilhjálmur Egilsson

Rektor Háskólans á Bifröst

LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Þessi grein er sú fimmta í röð greina um störf og sögu samtakanna sem skrifaðar eru að því tilefni.

Previous
Previous

Mikil gleði á fimm ára afmæli LÍS!

Next
Next

Undir sama þaki – samstarf BHM við LÍS