Herferð LÍS og aðildarfélaga um endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna er nú hafin og ber yfirskriftina: Háskólamenntun í hættu. Tilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á vantkönum námslánakerfisins og afleiðingum þeirra, fyrir stúdenta, háskólamenntaða og samfélagið í heild. Markmiðið er að þrýsta á stjórnvöld að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána.

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Á síðastliðnum árum hefur fjöldi lántaka hjá Menntasjóðnum þó hríðfallið. Skólaárið 2009-2010 tóku 12.393 háskólanemar námslán en tíu árum síðar voru þeir orðnir 4.979. Þessar tölur vekja upp mikilvægar spurningar um aðgengi að háskólamenntun í íslensku samfélagi. 

Í þessu samhengi er vert að nefna að hér á landi hafa töluvert færri lokið háskólamenntun en í samanburðarlöndum okkar. Í nýútgefinni skýrslu frá OECD kemur fram að 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. Niðurstöðurnar verður að taka alvarlega, sér í lagi í samhengi við sílækkandi aðsókn í Menntasjóð námsmanna. 

Samanburðurinn knýr fram spurningar um hvaða hópar það eru sem mennta sig og enn mikilvægara: fyrir hverja er í boði að mennta sig? Stúdentar hafa bent á vankanta námslánakerfisins í mörg ár og nú bendir allt til að gallar Menntasjóðsins bitni ekki aðeins á háskólanemum heldur á menntunarstigi þjóðarinnar og það er kominn tími til að stjórnvöld hlusti á kröfur stúdenta.

 

Stjórnvöld í dauðafæri

Stjórnvöld eru í dauðafæri til að laga námslánakerfið því nú fer fram endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna. 

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóðinn skal fara fram endurskoðun á lögunum innan þriggja ára frá því þau komu til framkvæmda og niðurstöður endurskoðunarinnar kynntar eigi síðar en á haustþingi 2023. Í ljósi þess að ekki er kveðið á um reglulega endurskoðun þessara laga er ljóst að endurskoðun þessi veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi. 

Er það vilji stúdenta að þetta tækifæri verði nýtt til hins ítrasta og að kerfið í heild sinni verði tekið til ítarlegrar skoðunar, þar sem hlutaðeigandi aðilum, stúdentum og greiðendum, verði boðið sæti við borðið í gegnum allt ferlið. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt. 

 

styrkjakerfi að norskri fyrirmynd

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um Menntasjóð námsmanna kemur fram að við val á aðferð við styrkveitingu hafi verið horft til norska námslánakerfisins. Stúdentar hafa bent á að enn þurfi að gera töluverðar breytingar á lögum um Menntasjóðinn svo hið íslenska kerfi standist samanburð við hið norska. 

Lántakar hér á landi þurfa að ljúka námi á réttum tíma til að eiga rétt á 30% niðurfellingu höfuðstól láns síns við námslok. Í Noregi hljóta lántakar hins vegar 25% niðurfellingu á höfuðstól láns síns í lok hverrar annar, auk þess sem að lántakar eiga rétt á 15% niðurfellingu til viðbótar við námslok, óháð því hvort þeir ljúki námi á réttum tíma eða ekki.

Stúdentar leggja áherslu á að við styrkveitingu sé horft sé til jafnréttissjónarmiða í víðum skilningi svo að fyrirkomulag niðurfellingar komi til móts við fjölbreyttan hóp stúdenta. Markmið núverandi styrkjakerfis er að skapa hvata fyrir háskólanema að ljúka námi á tilsettum tíma. Mikilvægt er að litið sé til samsetningu þess hóps sem nær einhverra hluta vegna ekki að ljúka námi á réttum tíma en fjöldi meðlima þessa hóps er eflaust í viðkvæmari stöðu en aðrir, til dæmis þau sem búa við fátækt, þau sem glíma við veikindi, einstæðir foreldrar og svo framvegis.

 

Vextir á námslánum aldrei verið hærri

Vaxtakjör á námslánum hér á landi hafa stórversnað með innleiðingu laga um Menntasjóð námsmanna. Lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru verðtryggð og báru 1% fasta vexti þar til nýverið, þegar þeir voru lækkaðir niður í 0,4%. Vextir á lánum frá Menntasjóði námsmanna eru hins vegar breytilegir og geta orðið allt að 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. 

Þegar myndbönd vegna herferðar LÍS í tengslum við endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna voru unnin voru vextir á lánum frá Menntasjóði námsmanna 2,68% fyrir verðtryggð lán og 7,68% fyrir óverðtryggð lán skv. heimasíðu Menntasjóðs námsmanna (miðað við 1. febrúar 2023). 

Til þess að tryggja samanburðarhæfni vaxtakjaranna er réttara að miða við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa samdægurs auk vaxtaálag lánasjóðsins (0,8%). Þann 10.mars, þegar þetta er skrifað, voru vextir námslána því 2,28% (verðtryggt) og 9,11% (óverðtryggt). Á sama tíma voru breytilegir vextir húsnæðislána á bilinu 1,75-2,94% (verðtryggt) og 6,86-7,94% (óverðtryggt).

 

Framfærslulán eiga að duga fyrir framfærslu

Eftir sem áður undirstrika stúdentar mikilvægi þess að framfærslulán nægi stúdentum til að standa straum af almennum framfærslukostnaði hér á landi. Ljóst er að lág framfærsla skerðir aðgengi að menntun og er ein helsta ástæða þess að íslenskir stúdentar vinna einna mest Evrópuþjóða með námi. Þar að auki býr fyrirkomulag frítekjumarksins til vítahring þar sem stúdentar neyðast til að vinna meira til geta framfleytt sér, þrátt fyrir að vera á framfærslulánum, en við það skerðast námslánin svo þeir þurfa að vinna enn meira.

Árum saman hefur stúdentahreyfingin barist fyrir fullnægjandi framfærslulánum. Lánsupphæðir eru ákveðnar í úthlutunarreglum hvers árs og fellur það í skaut stjórnar sjóðsins að ákveða þær. Það er ekkert í lögunum sem skyldar stjórnina til að hækka upphæðir námslána á milli ára. Landssamtök Íslenskra stúdenta krefjast þess að  þess að ákvæði þess efnis að upphæðir námslána skuli endurskoðaðar til hækkunar árlega, með tilliti til verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytinga verði bætt við lög um Menntasjóð námsmanna.