LÍS vill auka aðgengi fatlaðra nemenda að háskólanámi

Ályktun um áskorun Þroskahjálpar: Hvað er planið?



Landssamtök íslenskra stúdenta taka undir áskorun Þroskahjálpar: Hvað er planið? Sem hvetur stjórnvöld til þess að veita fötluðu fólki jöfn tækifæri til að láta drauma sína rætast í námi og starfi.


Mikilvægt er að auka aðgengi fatlaðra nemenda að háskólamenntun. Bæði með fjölgun sérstakra námsleiða fyrir þennan nemendahóp og með bættu aðgengi að hefðbundnum námsleiðum. Háskólar gegna lykilhlutverki í mótun og framþróun samfélags og hafa bein og óbein áhrif á hvern einstakling sem tilheyrir því. Aukið framboð að menntun fyrir fatlaða nemendur er mikilvægur þáttur í því að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu sem og ýtir það undir að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu.


Þann 23. september 2016 fullgilti Alþingi Íslendinga samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar kemur meðal annars fram að: “Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að hefja almennt nám á háskólastigi og að það fái aðgang að starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra.”


Í lögum nr. 63/2006 um háskóla segir jafnframt að háskóla skulu veita fötluðum nemendum og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Þar kemur einnig fram að fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. 


Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands var mikið framfaraskref þegar námsleiðinni var komið á fót. Síðan þá hefur námsframboð fyrir fatlaða nemendur á háskólastigi þó ekki aukist og er námsleiðin sú eina í íslenskum háskólum sem er sérsniðin að fötluðum nemendum. Því er háskólanám fyrir fatlaða nemendur eingöngu aðgengilegt á höfuðborgarsvæðinu en tryggja þarf að nemendum sé ekki mismunað eftir búsetu. Sömuleiðis þarf að kanna fjölbreyttar útfærslur á námi fyrir þennan hóp en viðeigandi aðlögun á háskólanámi er hluti af mannréttindaskuldbundingum stjórnvalda. 


Að lokum taka stúdentar undir einkunnarorð áskorunnar um að með því að útiloka fatlað fólk frá námi missir samfélagið af hugmyndum þeirra, krafti og hæfileikum. Því er það hagur okkar allra að veita öllum námsmönnum jöfn tækifæri.


Previous
Previous

Framlengdur umsóknarfrestur í nefndir LÍS!

Next
Next

Opið fyrir umsóknir í nefndir LÍS!