Framlengdur umsóknarfrestur í nefndir LÍS!

Hefur þú áhuga á félagsstörfum? Brennur þú kannski fyrir hagsmunabaráttu stúdenta? Langar þig til að hafa áhrif? Viltu starfa með stúdentum frá öllum háskólum landsins? 

Landssamtök íslenskra stúdenta auglýsa eftir áhugasömum einstaklingum í nefndir samtakanna en þær eru gæðanefnd, lagabreytinganefnd, fjármálanefnd, alþjóðanefnd, markaðsnefnd, jafnréttisnefnd og nýsköpunarnefnd. 

HVAÐ ERU LÍS?

Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS er því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.

Lesa má meira um samtökin hér

 

HVERNIG SÆKI ÉG UM? 

Einfalt! Þú fyllir í umsóknarformið okkar með því að smella hér

Opið er fyrir umsóknir frá 2. september til og með 1. október.

Við hvetjum einstaklinga af öllum kynjum til að sækja um þær lausu stöður sem í boði eru.

 

Nánar um hverja nefnd:

GÆÐANEFND

Brennur þú fyrir eflingu íslensks háskólaumhverfis? Þá er gæðanefndin fyrir þig. Nefndin starfar náið með fjölbreyttum einstaklingum og stofnunum á landsvísu sem vinna að eflingu gæða háskólanáms svo sem Rannís og Gæðaráði íslenskra háskóla. Skemmtileg verkefni eru á döfinni starfsárið 2020-2021 t.d. endurskoðun á stefnu, verkefni tengt upplýsingaöflun o.fl. Öll verkefni hafa það að markmiði að auka þekkingu á gæðamálum meðal íslenskra stúdenta sem og að efla þátttöku þeirra í gæðastarfi háskólanna. Um er að ræða einstakt tækifæri til að efla gæði háskólanáms á Íslandi. Við óskum eftir þremur metnaðarfullum og vinnusömum einstaklingum í nefndina.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Kolbrúnu Láru Kjartansdóttur, gæðastjóra LÍS. Netfang: kolbrunlara@studentar.is 

FJÁRMÁLANEFND

Fjármálanefnd sér um utanumhald fjármála LÍS auk fjáröflunar samtakanna og helstu viðburða. Það vinnur náið með Markaðsnefndinni við skipulagningu og framkvæmd viðburða sambandsins. Nefndin sér um að byggja upp og viðhalda samstarfi LÍS og fyrirtækja með þjónustusamningum eða styrkjum auk þess að vinna að styrkumsóknum innan stærri stofnana. Fyrir utan að öðlast færni í styrkumsóknum er það líka frábært tækifæri til að hitta annað fólk og vinna saman sem teymi. Leitað er að þremur áhugasömum aðilum til að sitja í fjármálanefnd auk framkvæmdastjóra.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Emilíu Björt Írisardóttur, Framkvæmdastjóra LÍS. Netfang: emilia@studentar.is 

 

ALÞJÓÐANEFND

Alþjóðanefnd LÍS sinnir alþjóðlegum skuldbindingum LÍS, sækir fróðleik til alþjóðlegra stúdenta og færir þann fróðleik heim til Íslands. Nefndin sinnir undirbúningsvinnu og úrvinnslu í kringum alþjóðlega viðburði sem fulltrúar LÍS sækja, þá einna helst á vegum Evrópusamtaka stúdenta (ESU), ásamt því að endurskoða alþjóðastefnu LÍS. Með þátttöku í nefndinni munu meðlimir fá innsýn inn í starf LÍS og ekki síður inn í störf alþjóðlegra stúdentahreyfinga en nefndin sér um að kynna sér og vekja athygli á tækifærum til þátttöku stúdenta í alþjóðlegu stúdentasamstarfi. Nefndin mun í sameiningu móta starf vetrarins undir handleiðslu alþjóðafulltrúa. Laus sæti í nefndinni eru fjögur og leitumst við eftir fjölbreyttum hópi af áhugasömu fólki. Hvers kyns reynsla eða þekking á alþjóðlegri umhverfi er kostur en alls ekki krafa, einungis brennandi áhugi á því að læra nýja hluti!

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Sigríði Helgu Olafsson, alþjóðafulltrúa LÍS. Netfang: sigga@studentar.is 

MARKAÐSNEFND

Markaðsnefndin miðar að því að efla sýnileika samtakanna innan íslensks samfélags og sérstaklega háskólasamfélagsins. Nefndin heldur utan um vefsíðu samtakanna, samfélagsmiðla og hlaðvarpi, í samvinnu við önnur embætti og nefndir varðandi innihald. Nefndin skipuleggur og framkvæmir tvær markaðsherferðir á hverju ári til þess að vekja athygli á réttindabaráttu stúdenta og er einnig ábyrg fyrir skipulagningu viðburða samtakanna ásamt fjármálanefnd. Reynsla og/eða þekking á grafískri hönnun, ritun og/eða samfélagsmiðlum er kostur. Laus sæti í nefndinni eru þrjú.

Viljir þú vita meira getur þú haft samband við Sigtý Ægi Kárason, markaðstjóra LÍS. Netfang: sigtyr@studentar.is 

JAFNRÉTTISNEFND

Jafnréttisnefnd heldur utan um verkefni og viðburði LÍS sem tengjast jafnréttismálum. Nefndin ber ábyrgð á því að jafnrétti sé framfylgt í öllum málum og skal vera framkvæmdarstjórn LÍS til ráðgjafar í störfum og málefnum stjórnar. Nefndin mun eiga í samráði við jafnréttisnefndir háskólanna og taka þátt í öðrum verkefnum. Laus sæti í nefndinni eru þrjú.

Ef þú vilt fleiri upplýsingar getur þú haft samband við Ernu Benediktsdóttur, jafnréttisfulltrúa LÍS. Netfang: erna@studentar.is

 

LAGABREYTINGANEFND

Lagabreytinganefnd LÍS sér um endurskoðun á lögum og verklagi á hverju ári. Tryggja þarf að lögin séu í samræmi við starf samtakanna og að samtökin fylgi þeim í hvívetna. Lagabreytinganefnd sér um gerð á breytingartilögum sem lagðar eru fyrir fulltrúarráð LÍS. Séu tilögurnar samþykktar þar fara þær fyrir Landsþing LÍS sem er æðsta ákvörðunarvald samtakanna. Möguleikarnir til þess að bæta skilvirkni og starf samtakanna eru því miklir með þátttöku í lagabreytinganefnd. Óskað er eftir einstaklingum sem hafa áhuga á lögum og lagabreytingum. Lögfræðiþekking er ekki skilyrði en þó kostur. Laus sæti í nefndinni eru fjögur.

Umsóknir og upplýsingar má fá hjá Antoni Birni Helgasyni, varaforseta samtakanna með því að senda tölvupóst á anton@studentar.is

NÝSKÖPUNARNEFND

Nýsköpunarnefndin er tímabundin nefnd fyrir árið 2022-2023 til að móta Nýsköpunarstefnu samtakanna. Á síðasta landsþingi LÍS var þemað Nýsköpun og rannsóknir í háskólasamfélagi og mun nefndin vinna með gögnum sem var safnað í vinnustofum ásamt því að nýta eigin þekkingu til að móta stefnuna. 

Umsóknir og upplýsingar má fá hjá Alexöndru Ýr van Erven, forseta samtakanna með því að senda tölvupóst á alexandra@studentar.is

Previous
Previous

Nýr framkvæmdastjóri á skrifstofu Landssamtaka íslenskra stúdenta

Next
Next

LÍS vill auka aðgengi fatlaðra nemenda að háskólanámi