LÖG

LANDSSAMTAKA ÍSLENSKRA STÚDENTA

 

I. kafli Heiti og hlutverk

1. gr. Heiti

Samtökin bera heitið Landssamtök íslenskra stúdenta, skammstafað LÍS. Heiti samtakanna á ensku er National Union of Icelandic Students, en á erlendum vettvangi skal þó einnig notast við íslensku skammstöfunina LÍS. Heimili samtakanna og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk samtakanna er að:
i. Skapa samstarfsvettvang fyrir íslensk stúdentafélög.
ii. Standa vörð um hagsmuni háskólanema hérlendis sem og íslenskra háskólanema erlendis.
iii. Vinna að samræmingu gæðastarfs í íslenskum háskólum.
iv. Stuðla að jöfnu aðgengi að háskólanámi.
v. Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi háskólanema og vinna að hagsmunum þeirra á alþjóðavísu.

Samtökin geta í sameiginlegu umboði allra aðildarfélaga farið með samningsumboð og komið fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum aðilum.

3. gr. Stefnur samtakanna

Landssamtök íslenskra stúdenta, hér eftir LÍS, starfa samkvæmt stefnum sem eru mótaðar og endurskoðaðar á landsþingi samtakanna, sbr. 39. gr. Hverja stefnu skal endurskoða  á þriggja ára fresti að lágmarki. Fulltrúaráð leggur fyrir landsþing hvaða stefna er endurskoðuð hverju sinni með tilliti til aldurs.

Breytingartillögur á stefnum sem framkvæmdastjórn ber upp á landsþingi skulu samþykktar áður á fundi framkvæmdastjórnar og kynntar fyrir fulltrúaráði. Breytingatillögur skulu berast aðildarfélögum eigi síðar en 30 dögum fyrir landsþing.

4. gr. Orðskýringar

1. Þingfulltrúi: Fulltrúi aðildarfélags á landsþingi. Þingfulltrúi getur ekki verið í framkvæmdastjórn.

2. Fulltrúi í fulltrúaráði: Fulltrúi aðildarfélags í fulltrúaráði LÍS.

3. Virk atkvæði á landsþingi: Atkvæði er viðstaddir þingfulltrúar hafa og þau atkvæði sem fjarstaddir þingfulltrúar hafa veitt viðstöddum þingfulltrúum umboð fyrir.

4. Aðildarfélag: Félag sem á aðild að LÍS.

II. kafli. Aðild og aðildarfélög

5. gr. Aðildarhæfi

Aðildarfélög samtakanna eru félög háskólanema sem vinna að hagsmunum stúdenta á Íslandi, auknum gæðum háskólamenntunar á Íslandi eða hagsmunum íslenskra stúdenta á erlendri grundu. Aðildarfélög eru heildarsamtök háskólanema í háskólum á Íslandi eða heildarsamtök íslenskra háskólanema erlendis.

6. gr. Innganga

Umsóknir um aðild að LÍS eru teknar fyrir á landsþingi en eru aðeins teknar gildar hafi þær borist skriflega til framkvæmdastjórnar minnst 30 dögum fyrir landsþing. Umsókn um aðild skal undirrituð af stjórn umsóknarfélagsins og henni skal fylgja afrit af lögum þess. Til að aðildarfélag fái inngöngu verður meirihluti virkra atkvæða á landsþingi að falla með umsókninni.

Árgjald nýs aðildarfélags skal ákveðið á sama hátt og kveðið er á um í 60. gr.

Nýtt aðildarfélag skal tilnefna tvo fulltrúa sína í fulltrúaráði á því landsþingi sem umsókn þess er samþykkt sbr. 10. gr. Annar fulltrúinn tekur þá sæti í fulltrúaráði í tvö ár og hinn tekur sæti í eitt ár.

7. gr. Áheyrnaraðild

Félag háskólanema sbr. 5. gr. getur sótt um áheyrnaraðild að LÍS til eins árs, en um slíkar umsóknir gildir 6. gr., eftir því sem við á. Félag með áheyrnaraðild hefur rétt á að sitja og taka til máls á landsþingi, vinnuþingi og stjórnarfundum samtakanna. Áheyrnarfélag ber sjálft kostnað við alla þátttöku í starfi LÍS og hefur ekki kosningarétt innan samtakanna.

Ári eftir að áheyrnaraðild félags hefur verið samþykkt eða framlengd skal hún tekin fyrir á landsþingi. Þá getur áheyrnarfélagið bundið enda á áheyrnaraðild sína og þar með sagt sig úr LÍS. Að öðrum kosti getur landsþing framlengt áheyrnaraðild áheyrnarfélagsins sé þess óskað, bundið enda á áheyrnaraðildina eða samþykkt félagið sem fullgilt aðildarfélag samtakanna hafi það formlega sótt um slíka aðild sbr. 6. gr.

8. gr. Úrsögn aðildarfélags

Úrsögn aðildarfélags úr LÍS skal aðeins tekin gild berist hún skriflega til fulltrúaráðs LÍS, undirrituð af stjórn aðildarfélagsins, 30 dögum fyrir landsþing. Greidd árgjöld teljast þá óafturkræf.

Úrsögnin skal tekin til umræðu á landsþingi og fulltrúar aðildarfélagsins sem hyggst segja sig úr LÍS skulu gera grein fyrir úrsögninni séu þeir á staðnum. Úrsögnin tekur gildi um leið og landsþingi er slitið.

9. gr. Brottvikning óvirks aðildarfélags

Eigi aðildarfélag ekki fulltrúa á landsþingi tvö ár í röð skal fulltrúaráð leggja fram á landsþingi vantrauststillögu vegna viðkomandi aðildarfélags. Landsþingi er þá heimilt að taka aðild viðkomandi aðildarfélags til umfjöllunar og víkja því úr samtökunum með samþykki meirihluta virkra atkvæða.

Aðildarfélag sem vikið er úr samtökunum missir þegar í stað öll réttindi sín í samtökunum og fulltrúar þess missa þar með umboð til trúnaðarstarfa fyrir hönd félagsins innan LÍS.

10. gr. Aðild LÍS að félögum og samtökum

Fulltrúaráði LÍS er heimilt að sækja um aðild að öðrum félögum og samtökum samþykki landsþing það með meirihluta virkra atkvæða. Tillaga að umsókn um slíka aðild skal borin upp á landsþingi.

Tillögurétt vegna umsóknar hefur framkvæmdastjórn, fulltrúaráð og aðildarfélög. Tillagan skal berast til fulltrúaráðs að minnsta kosti 30 dögum fyrir boðað landsþing.

III. kafli. Fulltrúaráð

11. gr. Skipun fulltrúaráðs

Fulltrúaráð LÍS skal skipað tveimur fulltrúum frá hverju aðildarfélagi sem tilnefndir eru á landsþingi ásamt forseta LÍS sem kjörinn er sérstaklega. Hvert aðildarfélag tilnefnir á landsþingi ár hvert einn fulltrúa sem situr í fulltrúaráði í tvö ár.

Þá skulu aðildarfélög einnig tilnefna tvo varafulltrúa fyrir fulltrúa sem gegna því hlutverki í eitt ár, sbr. 17. gr.

Þó hefur aðildarfélag ráðrúm milli landsþings og skiptafundar, sbr. 15. gr., til að tilnefna fulltrúa og varafulltrúa sé það ekki mögulegt á þeim tíma er landsþing er haldið. Fulltrúinn skal þá tilnefndur skriflega og skal tilnefningin berast fulltrúaráði LÍS og öllum aðildarfélögum.

12. gr. Fundir fulltrúaráðs

Fulltrúaráð skal funda á sex vikna fresti að lágmarki og skulu fundirnir opnir stúdentum nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Fundir skulu boðaðir með tryggum hætti, í samræmi við ákvörðun fulltrúaráðs í upphafi hvers starfsárs, að minnsta kosti viku fyrir settan fundardag. Fundargögn skulu berast fulltrúum með fundarboði.

Þegar nauðsyn krefur má boða fund með minnst þriggja daga fyrirvara.  Með slíku fundarboði skal fylgja rökstuðningur, fundardagskrá og fundargögn.

13. gr. Lögmæti fundar og lögmæti atkvæðagreiðslu.

Fulltrúaráðsfundur telst lögmætur sé löglega til hans boðað. Atkvæðagreiðsla á fulltrúaráðsfundi telst lögleg ef 2/3 hluta fulltrúa í fulltrúaráði er viðstaddur.

14. gr. Hlutverk og skyldur fulltrúaráðs

Fulltrúaráð LÍS fer með æðsta vald í málefnum samtakanna á milli landsþinga, í samræmi við lög þessi, stefnur og samþykktir samtakanna.

15. gr. Skiptafundur

Skiptafundur skal haldinn eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að landsþingi er slitið. Fulltrúar aðildarfélaga sem tilnefndir eru á landsþingi taka formlega sæti í fulltrúaráði á skiptafundi.

Ef framkvæmdastjórn er ekki fullskipuð á landsþingi skal fulltrúaráð kjósa í embætti sbr. 51. gr.

Fráfarandi fulltrúar fulltrúaráðs og framkvæmdastjórnar skulu leggja sig fram við að miðla öllum þeim upplýsingum sem kunna að varða starfið til nýs fulltrúaráðs.

16. gr. Skyldur og réttindi fulltrúa

Fulltrúar í fulltrúaráði bera ábyrgð á miðlun upplýsinga til sinna aðildarfélaga. Við atkvæðagreiðslu á fundum fulltrúaráðs hefur hver fulltrúi eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla að jöfnu ræður atkvæði forseta sbr. 21. gr.

Fulltrúaráð kýs sér ritara á fyrsta fundi sem ritar fundargerðir funda fulltrúaráðs.

17. gr. Skyldur og réttindi varafulltrúa

Varafulltrúi hefur rétt til setu, málfrelsi og tillögurétt á öllum fundum fulltrúaráðs. Í fjarveru fulltrúa í fulltrúaráði hefur varafulltrúi hans sömu réttindi og ber sömu skyldur og fulltrúinn.

IV. kafli. Framkvæmdastjórn

18. gr. Skipun framkvæmdastjórnar

Í framkvæmdastjórn sitja forseti, varaforseti, ritari, fjáröflunarstjóri, alþjóðafulltrúi, gæðastjóri, markaðsstjóri og jafnréttisfulltrúi sem kosnir eru í embætti á landsþingi, sbr. 49. gr. Framkvæmdastjórn sækir umboð sitt til fulltrúaráðs. Heiti embætta framkvæmdastjórnar á ensku eru: President, Vice-President, Secretary, Funding Officer, International Officer, Quality Assurance Officer, Marketing Officer og Equal Rights Officer.

19. gr. Hlutverk og skyldur framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn stjórnar daglegu starfi samtakanna í samræmi við lög þessi, stefnur og samþykktir samtakanna. Þá tekur framkvæmdastjórn að sér önnur tilfallandi verkefni er lúta að hagsmunum stúdenta.

20. gr. Skyldur og réttindi meðlima framkvæmdastjórnar

Meðlimir framkvæmdastjórnar bera ábyrgð á miðlun upplýsinga til fulltrúaráðs. Við atkvæðagreiðslu á fundum framkvæmdastjórnar hefur hver meðlimur eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða.

Meðlimir framkvæmdastjórnar hafa rétt til setu, málfrelsi og tillögurétt á fundum fulltrúaráðs og landsþingi.

21. gr. Forseti LÍS

Forseti LÍS er forseti framkvæmdastjórnar og fulltrúaráðs LÍS og er yfir landsþingsnefnd.

Hlutverk forseta er að:

Forseti ber ábyrgð á að boða framkvæmdastjórnar- og fulltrúaráðsfundi, leggja fram dagskrá og stýra fundum. Forseti kemur fram fyrir hönd félagsins og er málsvari þess á opinberum vettvangi. Hann er ábyrgur fyrir miðlun upplýsinga til fulltrúaráðs og framkvæmdastjórnar um alla starfsemi LÍS. Forseti skal gæta jafnt að hagsmunum allra aðildarfélaga og gæta hlutleysis í hvívetna. Þá hefur forseti jafnframt umsjón með sameiginlegum gögnum samtakanna – að á þeim sé gott skipulag og hægt að finna öll þau gögn er samtökin varða.

Forseti hefur ekki atkvæðisrétt á fundum fulltrúaráðs nema að atkvæði falla að jöfnu.

22. gr. Alþjóðafulltrúi

Alþjóðafulltúi hefur umsjón með alþjóðastarfi, samskiptum við stúdentasamtök annarra landa og regnhlífasamtök stúdenta í Evrópu og víðar. Alþjóðafulltrúi velur  fulltrúa sem eru í forsvari fyrir samtökin erlendis í samráði við forseta og er ábyrgur fyrir starfi þeirra á alþjóðlegum fundum og ráðstefnum. Alþjóðafulltrúi skal upplýsa fulltrúaráð og framkvæmdastjórn um alþjóðastarf samtakanna. Alþjóðafulltrúi skal  gæta þess að alþjóðastefnu samtakanna sé fylgt. Alþjóðafulltrúi er yfir alþjóðanefnd.

23. gr. Gæðastjóri

Gæðastjóri ber ábyrgð á því að þekking innan samtakanna á gæðamálum sé fullnægjandi. Þá er hlutverk gæðastjóra að efla þekkingu og áhuga hins almenna háskólanema á gæðamálum. Gæðastjóri er tengiliður Gæðaráðs íslenskra háskóla við samtökin. Gæðastjóri skal gæta þess að gæðastefnu samtakanna sé fylgt. Gæðastjóri er yfir gæðanefnd.

24. gr. Varaforseti

Varaforseti skal sinna forsæti í fjarveru forseta. Varaforseti skal aðstoða forseta við gerð fundardagskrár. Varaforseti hefur yfirumsjón með lagabreytingum samtakanna og fer fyrir lagabreytingarnefnd. Lagabreytinganefnd skal endurskoða lög samtakanna ár hvert. Varaforseti ber ábyrgð á samskiptum við aðildarfélög og vinnu á milli LÍS og aðildarfélaganna sem snýr að uppbyggingu innra starfs samtakanna sem og aðildarfélaganna, sé þess óskað af þeim.  

25. gr. Fjáröflunarstjóri

Fjáröflunarstjóri er ábyrgur fyrir fjáröflun og hefur umsjón með gerð styrktar- og viðskiptasamninga. Fjáröflunarstjóri sér um skipulagningu, fjarmögnun og framkvæmd viðburða sem haldnir eru á vegum samtakanna. Fjáröflunarstjóri er yfir fjármálanefnd.

26. gr. Ritari

Ritari skal skrá fundargerðir fyrir hvern framkvæmdastjórnarfund, á vinnudögum og vinnuþingum stjórnar. Ritari skal halda utan um mætingu stjórnarmanna á fundi og ber ábyrgð á varðveislu og vistun fundargagna samtakanna. Ritari skal hafa umsjón með útgefnu efni samtakanna.

27. gr. Markaðsstjóri

Markaðsstjóri sér um að koma samtökunum á framfæri og skal semja markaðsáætlun í upphafi starfsárs. Markaðsstjóri skal vekja athygli á LÍS í samfélaginu, þá sérstaklega meðal framhalds- og háskólanema. Markaðsstjóri er yfir markaðsnefnd.

28. gr. Jafnréttisfulltrúi

Jafnréttisfulltrúi skal gæta þess að jafnrétti ríki innan samtakanna. Hann skal leitast við að tryggja öllum stúdentum jafnan rétt, jafna stöðu og leggja ríka áherslu á að allir samfélagsþegnar búi við jafnrétti til náms. Jafnréttisfulltrúi skal sjá til þess að jafnréttisstefnu samtakanna sé fylgt. Jafnréttisfulltrúi er yfir jafnréttisnefnd.

29. gr. Starfs- og launakjör embætta

Fulltrúaráð ákvarðar starfs- og launakjör embætta og verktaka sem ráðnir eru tímabundið til að sinna ákveðnum verkefnum. Þau sem gegna launuðum embættum skulu telja saman unnar vinnustundir fyrir samtökin. Tímaskráningar skulu vera aðgengilegar fyrir aðildarfélög.

30. gr. Fundir framkvæmdastjórnar

Framkvæmdastjórn skal funda að minnsta kosti einu sinni á þriggja vikna fresti. Fundir skulu boðaðir með tryggum hætti, í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar í upphafi hvers starfsárs, að lágmarki fimm sólarhringum fyrir settan fundardag. Fundargögn skulu berast með fundarboði.

31. gr. Lögmæti fundar

Framkvæmdastjórnarfundur telst lögmætur sé löglega til hans boðað og aukinn meirihluti til staðar. Við afgreiðslu mála fer hver meðlimur í framkvæmdastjórn með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti niðurstöðu atkvæðagreiðslu. Ef atkvæði falla að jöfnu skal atkvæði forseta gilda tvöfalt.

32. gr. Skiptafundur

Nýkjörin framkvæmdastjórn tekur formlega sæti í framkvæmdastjórn á skiptafundi. Skiptafundur fer að öðru leyti fram sbr. 15. gr.

33. gr. Afsögn eða brottvikning embættismanna

Afsögn embættismanna fer þannig fram að viðkomandi sendir skriflega tilkynningu til fulltrúaráðs. Afsögnin tekur gildi um leið og hún hefur verið afgreidd á næsta fundi ráðsins.

Gerist embættismaður, annar en forseti sbr. 36. gr., brotlegur við lög eða reglur samtakanna og eftir atvikum landslög, getur framkvæmdastjórn eða fulltrúaráð lýst yfir vantrausti á viðkomandi. Skal skrifleg tillaga þess efnis berast fulltrúaráði og hún tekin upp á næsta fundi ráðsins. Til þess að samþykkja vantrauststillögu þarf ¾ atkvæða fulltrúa í fulltrúaráði. Heimilt er að hafa vantrauststillögu nafnlausa ef eftir því er óskað.

Fulltrúaráð skal auglýsa í laus embætti eins fljótt og auðið er. Kosning fer fram á næsta fundi fulltrúaráðs.

34. gr. Afsögn eða brottvikning fulltrúa eða varafulltrúa

Afsögn fulltrúa eða varafulltrúa fer þannig fram að viðkomandi sendir skriflega tilkynningu til fulltrúaráðs og aðildarfélags síns. Afsögnin tekur gildi um leið og hún hefur verið afgreidd á næsta fundi ráðsins.

Mæti fulltrúi ekki eða varafulltrúi fyrir hans hönd á fulltrúaráðsfund, í persónu eða fjarfundabúnaði, tvisvar í röð skal sá hinn sami fá aðvörun frá forseta og aðildafélag látið vita um leið. Fulltrúanum skal gefið færi á að bregðast við aðvöruninni og er það mat fulltrúaráðs hverju sinni hvort viðbrögðin teljist fullnægjandi. Teljist viðbrögð fulltrúa ófullnægjandi getur fulltrúaráð tekið ákvörðun um að víkja honum úr fulltrúaráði með auknum meirihluta atkvæða. Varafulltrúi tekur sæti fulltrúans á meðan skipað er í stöðuna að nýju.

Gerist fulltrúi í framkvæmdastjórn brotlegur við lög eða reglur samtakanna og eftir atvikum landslög, getur framkvæmdastjórn lýst yfir vantrausti á viðkomandi. Skal skrifleg tillaga þess efnis berast forseta og hún tekin upp á næsta fundi ráðsins. Til þess að samþykkja vantrauststillögu þarf 3/4 atkvæða fulltrúaráðs. Heimilt er að hafa vantrauststillögu nafnlausa ef eftir því er óskað.

Fulltrúaráð skal óska eftir því við aðildarfélag að það tilnefni nýjan fulltrúa eða varafulltrúa eins fljótt og auðið er.

35. gr. Vantraust gagnvart forseta

Fulltrúar í fulltrúaráði geta lagt fram vantrauststillögu gagnvart forseta. Skal tillagan borin upp á fundi fulltrúaráðs, sem boðaður skal af varaforseta innan tíu daga frá því að fulltrúar óska eftir að leggja fram vantrauststillögu. Vantrauststillaga telst samþykkt náist 3/4 atkvæða fulltrúa í fulltrúaráði.

Ef vantraust á forseta samtakanna er samþykkt skal staða hans auglýst og boðað til aukalandsþings, sbr. 55. gr. sem haldið skal eigi síðar en 30 dögum eftir samþykkt vantrausts. Þar skal kjör á nýjum forseta fara fram. Séu minna en 30 dagar í boðað landsþing skal nýr forseti kosinn þar með hefðbundnum hætti, sbr. 21. gr. Varaforseti skal gegna embætti forseta fram að aukalandsþingi eða eftir atvikum landsþingi.

 V.kafli. Nefndir og önnur hlutverk

36. gr. Nefndir LÍS

Í umboði framkvæmdastórnar skulu starfa sex fastanefndir: lagabreytinganefnd, fjármálanefnd, alþjóðanefnd, gæðanefnd, markaðsnefnd og jafnréttisnefnd. Framkvæmdastjórn auglýsir eftir nefndarmeðlimum innan aðildarfélaga LÍS, í samráði við fulltrúaráð, í seinasta lagi 30. ágúst. Hver nefnd skal funda að jafnaði mánaðarlega  yfir skipunartíma hennar.

Í umboði fulltrúaráðs skal starfa ein fastanefnd; landsþingsnefnd. Í henni skulu sitja forseti, fjáröflunarstjóri, markaðsstjóri og framkvæmdarstjóri. Þá er hverju aðildarfélagi heimilt að skipa einn fulltrúa í nefndina sem forseti óskar eftir á fundi fulltrúaráðs.

Fulltrúaráð skal vera upplýst um störf nefndarinnar og ákvarðanir bornar undir það. Nefndin skal starfa frá fyrsta september og fram yfir landsþing. Staðsetning næsta landsþings skal ákvörðuð á landsþingi ár hvert.

Fulltrúaráði er einnig heimilt að setja á fót aðrar undirnefndir.

37. gr. Trúnaðarfulltrúi

Í upphafi hvers starfsárs skal fulltrúaráð skipa tvo trúnaðarfulltrúa af tveimur kynjum úr framkvæmdastjórn og/eða fulltrúaráði. Trúnaðarfulltrúar skulu vera til staðar á landsþingi, nýársþingi, sumarþingi, haustþingi og á öðrum tilfallandi vettvangi. Forfallist trúnaðarfulltrúi skal fulltrúaráð skipa trúnaðarfulltrúa í hans stað.

Trúnaðarfulltrúar hafa það hlutverk að skera úr um hvort lög og/eða reglur LÍS hafa verið brotnar. Þeir taka við erindum frá aðilum innan og utan samtakanna en taka ekki upp mál að eigin frumkvæði. Trúnaðarfulltrúar mæla ekki fyrir um viðurlög við brotum en taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða. Ef niðurstaða trúnaðarfulltrúa bendir til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga og reglna LÍS skulu trúnaðarfulltrúar vísa málinu til fulltrúaráðs LÍS sem grípur til viðeigandi ráðstafanna samkvæmt lögum þessum.

Ef um er að ræða ágreining eða brot á lagareglum sem falla ekki undir lög og reglur LÍS vísar trúnaðarfulltrúi málinu til viðeigandi aðila.

Trúnaðarfulltrúar skulu skrifa undir trúnaðar- og þagnarskylduyfirlýsingu þegar þeir taka við störfum.

Trúnaðarfulltrúi skal gæta þess í hvívetna að sinna starfi sínu af heilindum og kostgæfni.

38. gr. Framkvæmdastjóri

Fulltrúaráði er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri og hafa yfirumsjón með fjármálum samtakanna. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á því að greiða þau gjöld er samtökunum ber að greiða og innheimta kröfur. Framkvæmdastjóri skal sjá um gerð fjárhagsáætlunar og hefur prókúru fyrir reikningum samtakanna.  Framkvæmdastjóri hefur rétt til setu, málfrelsi og tillögurétt á öllum fundum fulltrúaráðs og framkvæmdastjórnar en ekki atkvæðisrétt. Starfs- og launakjör framkvæmdastjóra eru ákveðin af fulltrúaráði.

VI. kafli Landsþing LÍS

39. gr. Um landsþing

Landsþing hefur æðsta vald í öllum málum LÍS.

Landsþing er skipulagt af landsþingsnefnd.

Á landsþingi skal taka fyrir og kjósa um öll þau mál er þurfa þykir og aðildarfélögin og samtökin varða. Mál þau og tillögur sem aðildarfélög óska að tekin verði fyrir á þinginu skal senda á fulltrúaráð eigi síðar en 14 dögum fyrir landsþing og skal fulltrúaráð tryggja að mál þau og tillögur fari fyrir þingið.

Landsþing skal haldið að vori og skal boðað af fulltrúaráði LÍS með minnst átta vikna fyrirvara. Samhliða boðun landsþings skal einnig auglýst eftir framboðum til framkvæmdastjórnar sbr. 18. gr.

Landsþing er lögmætt ef til þess hefur verið boðað í samræmi við lög þessi og ef meirihluti aðildarfélaga er skráð á þingið og mætir. Þá verða virk atkvæði á þinginu, sbr. 4. gr., að vera að lágmarki helmingur af heildarfjölda þingfulltrúa samkvæmt lögum þessum, sbr. 44. gr.

Aðildarfélag telst skráð á landsþing staðfesti það mætingu á landsþing við fulltrúaráð LÍS minnst tveimur vikum fyrir upphafsdag þingsins.

40. gr. Þingsköp

Fundarstjóri og ritari landsþings skulu tilnefndir af fulltrúaráði og kosnir af landsþingi. Forseti LÍS stýrir kjöri á fundarstjóra og ritara. Fundarstjóri og ritari hafa ekki atkvæðarétt á landsþingi og mega ekki vera sitjandi þingsfulltrúar. Fundarstjóri skal ganga úr skugga um að landsþingsfundur sé lögmætur, sbr. 44. gr., þegar landsþing er sett og þegar fundur kemur saman eftir fundarhlé.

41. gr. Réttindi þingfulltrúa á landsþingi

Þingfulltrúar hafa atkvæðisrétt, rétt til að taka til máls og tillögurétt á landsþingi.

42. gr. Fjöldi og skipting þingfulltrúa

Fjölda og skiptingu þingfulltrúa skal endurskoða á hverju ári samkvæmt reikniformúlu sem byggð er á Webster/Sainte-Lague aðferðinni.

Heildarfjöldi nemenda eða félagsmanna frá árinu á undan skal berast varaforseta 30 dögum fyrir landsþing. 

Greinargerð með 42. gr.: Notast er við jöfnuna: heildarfjöldi nemenda/4n+1 (n = fjöldi þingfulltrúa) og þar af leiðandi talnaröðina 1, 5, 9, 13, 17 o.s.frv. Heildarfjöldi þingfulltrúa er 39. Lágmarksfjöldi þingfulltrúa hvers aðildarfélags skal vera tveir og ekkert aðildarfélag skal hafa fleiri þingfulltrúa en því sem nemur 1/3 af heildarfjölda þingfulltrúa.

43. gr. Réttindi og fjöldi nefndarmeðlima á landsþingi

Nefndarmeðlimir hafa málfrelsi og tillögurétt á landsþingi. Fjöldi nefndarmeðlima skal ákveðinn ár hvert af fulltrúaráði.

44. gr. Lögmæti fundar á landsþingi

Fundarritari skal í upphafi landsþings skrásetja fjölda virkra atkvæða á landsþingi. Í kjölfarið skal fundarstjóri tilkynna viðstöddum skrásettan fjölda. Fundur á landsþingi telst lögmætur sé meirihluti virkra atkvæða landsþings til staðar þegar fundarstjóri setur fund, bæði í upphafi dags og eftir að hlé hefur verið gert á fundi.

45. gr. Dagskrá landsþings

Á landsþingi skulu eftirfarandi mál vera tekin fyrir eða lögð fram:

1. Þingsetning og ræða forseta.

2. Kosning fundarstjóra og þingritara. Kosning fulltrúa í kjörstjórn LÍS sé þess þörf sökum forfalla.

3. Fundargerð síðasta landsþings borin upp til samþykktar.

4. Trúnaðarfulltrúar kynntir eða skipaðir sé þess þörf sökum forfalla.

5. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

6. Reikningar samtakanna bornir upp til samþykktar.

7. Lagabreytingar.

8. Endurskoðun á stefnum samtakanna.

9. Afgreiðsla aðildarumsókna og aðild áheyrnarfélaga.

10. Verk- og fjárhagsáætlun næsta starfsárs lögð fyrir.

11. Mál sem aðildarfélög, fulltrúar þeirra eða framkvæmdastjórn LÍS óska eftir að taka fyrir.

12. Tilnefning nýrra fulltrúa í fulltrúaráðs.

13. Kosningar í embætti framkvæmdastjórnar.

14. Stefnumótun samtakanna.

15. Önnur mál.

Fundargögn skulu berast þingfulltrúum í síðasta lagi 30 dögum fyrir landsþing að ársskýrslu og ársreikningi undanskildum sbr. 58. gr.

46. gr. Kjörstjórn LÍS

Fulltrúaráð skal skipa þriggja manna kjörstjórn LÍS fyrir 1. febrúar ár hvert sem starfar í heilt ár. Skal aðildarfélögum gefinn kostur á að tilnefna einn stúdent. Berist fleiri en þrjár tilnefningar skal valið úr þeim af handahófi.

Skulu framboð til framkvæmdastjórnar berast kjörstjórn og skal hún ganga úr skugga um að frambjóðendur séu kjörgengir. Meðlimir í kjörstjórn eru ekki kjörgengir.

47. gr. Kosningar á landsþingi

Hver þingfulltrúi hefur eitt atkvæði.

Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála og kjöri nema annað sé tekið fram í lögum þessum.

Sjái þingfulltrúi sér ekki fært að mæta á fund á landsþingi getur sá hinn sami, veitt öðrum þingfulltrúa í sama aðildarfélagi umboð fyrir atkvæði sínu. Geti þingfulltrúi ekki veitt umboð sitt sjálfur hefur aðildarfélag hans heimild til þess að veita öðrum þingfulltrúa sama aðildarfélags umboð fyrir hans hönd. Umboðsmaður skal upplýsa landsþingið um umboðið.

Komist enginn þingfulltrúi tiltekins aðildarfélags hefur aðildarfélagið heimild til þess að gefa öðru aðildarfélagi umboð fyrir atkvæðum sínum.

Til þess að veita þingfulltrúum annars aðildarfélags umboð fyrir atkvæðum sínum verður stjórn aðildarfélagsins að senda undirritað umboð rafrænt á fulltrúaráð.

Kosið er með handauppréttingu. Þó er hægt að óska eftir leynilegri kosningu og er þá kosið með atkvæðaseðlum. Þegar kosið er með leynilegri kosningu skal kjörstjórn hafa umsjón með talningu atkvæða.

48. gr. Framboð til framkvæmdastjórnar

Kjörgengi til embætta framkvæmdastjórnar hafa stúdentar sem eru, eða hafa verið síðustu tvö árin, meðlimir í aðildarfélögum LÍS, fulltrúaráði, framkvæmdastjórn eða nefndum LÍS.

Framboð skulu berast á formlegt netfang kjörstjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir landsþing. Kjörstjórn skal birta framboð sem borist hafa innan sólarhrings eftir að framboðsfrestur hefur runnið út. Hafi engin framboð borist þegar framboðsfrestur er runninn út skal óskað eftir framboðum í upphafi landsþings. Skulu framboð berast kjörstjórn í síðasta lagi fyrir lið 14, sbr. 45. gr.

Hljóti frambjóðandi ekki kjör er honum heimilt að bjóða sig fram í annað embætti sem ekki bárust framboð í.

49. gr. Kosning framkvæmdastjórnar

Hvert aðildarfélag hefur eitt atkvæði í kosningu til embætta framkvæmdastjórnar og skal hún fara fram með leynilegri kosningu. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum um kjör. Séu atkvæði jöfn meðal þeirra frambjóðenda er hlutu flest atkvæði skal kosið að nýju á milli þeirra. Í seinni umferð hefur hvert aðildarfélag eitt atkvæði. Ef ekki gengur enn að fá meirihluta skal þriðja umferð fara fram þar sem kosið skal milli þeirra sem jafnir voru í umferðinni á undan og skulu allir þingfulltrúar hafa atkvæði. Sé niðurstaða enn ekki komin er fjórða úrræði að varpa hlutkesti.

Hver frambjóðandi hefur rétt á að tilnefna einn aðila sem fylgist með störfum kjörstjórnar við kjör.

50. gr. Fulltrúi í fulltrúaráði kosinn í framkvæmdastjórn

Sé fulltrúi aðildarfélags, sem á ár eftir af skipunartíma sínum í fulltrúaráði, kosinn í framkvæmdastjórn skal það aðildarfélag tilnefna tvo fulltrúa sína í fulltrúaráð á landsþingi sbr. 11. gr. Annar fulltrúinn tekur þá sæti í tvö ár og hinn tekur sæti í eitt ár.

51. gr. Framkvæmdastjórn ekki fullskipuð

Ef framkvæmdarstjórn er ekki fullskipuð á landsþingi skal forseti LÍS auglýsa eftir framboðum í laus embætti framkvæmdarstjórnar eigi síðar en mánuði fyrir skiptafund. Á skiptafundi skal nýkjörið fulltrúaráð kjósa í laus embætti framkvæmdarstjórnar sbr. 15. gr. Sé framkvæmdastjórn ekki fullskipuð eftir skiptafund skal fulltrúaráð auglýsa í laus embætti að nýju.

52. gr. Yfirlýsingar og ályktanir

Taka skal fyrir ályktanir og yfirlýsingar undir lið 11 sbr. 45. gr. og skulu berast eigi síðar en fyrir þann lið.

53. gr. Lagabreytingar

Lögum samtakanna má aðeins breyta á landsþingi. Lagabreytingartillögur skulu berast til varaforseta eigi síðar en 14 dögum fyrir landsþing.

Lagabreytingartillögur sem framkvæmdastjórn ber upp á landsþingi skulu samþykktar áður á fundi framkvæmdastjórnar og kynntar fyrir fulltrúaráði. Lagabreytingartillögur skulu berast aðildarfélögum eigi síðar en 30 dögum fyrir landsþing.

Til þess að samþykkja lagabreytingartillögu þarf meirihluta virkra atkvæða. Eftir að tekin hefur verið afstaða til allra lagabreytingartillagna skulu lögin borin upp til samþykktar í heild sinni. Ný lög teljast samþykkt með meirihluta virkra atkvæða landsþings.

54. gr. Dreifing samþykktra lagabreytinga

Samþykktum lagabreytingum skal, ásamt uppfærðri útgáfu af lögum samtakanna, vera dreift rafrænt til aðildarfélaga innan sjö daga frá slitum landsþings.

55. gr. Sérstakar undanþágur

Vilji landsþing gera undanþágu á einstökum ákvæðum í lögum þessum þarf einróma samþykki allra viðstaddra þingfulltrúa á landsþingi. Undanþágan gildir einungis á því landsþingi sem hún er samþykkt.

56. gr. Aukalandsþing

Aukalandsþing skal fulltrúaráð kalla saman þegar að minnsta kosti 2/3 fulltrúa í fulltrúaráði krefst þess. Aukalandsþing hefur sama vald og landsþing og um það gilda sömu reglur að öðru leyti. Þó telst boðun til aukalandsþings vera fullnægjandi sé boðað til þess með þriggja vikna fyrirvara.

VII. kafli: Vinnuþing

57. gr. Um vinnuþing

Tilgangur vinnuþings er að efla samvinnu og skapa vettvang fyrir umræðu og samstarf þeirra sem starfa fyrir LÍS. Vinnuþing skulu embættismenn framkvæmdastjórnar og nefndarmeðlimir sitja. Fulltrúaráði og/eða varafulltrúum þeirra er heimilt að sitja þing.

58. gr. Boðun vinnuþings

Vinnuþing skal boðað með 30 daga fyrirvara.

VIII. kafli: Fjármál

59. gr. Ársreikningur og endurskoðun

Reikningsár samtakanna skal hefjast 1. janúar ár hvert og tekur enda á síðasta degi desembermánaðar.

Fjármálastjóri skal semja ársreikning fyrir hvert reikningsár sem samþykktur skal af endurskoðanda og síðan borinn er undir landsþing ár hvert til samþykktar. Ársreikningur skal berast aðildarfélögum í síðasta lagi 14 dögum fyrir landsþing.

60. gr. Fjármögnun samtakanna og fjárhagsáætlun

Fjáröflunarstjóri og -nefnd bera ábyrgð á fjármögnun samtakanna. Reikningar skulu ávallt vera aðgengilegir öllum félagsmönnum aðildarfélaga LÍS. Fulltrúaráð skal leita annarra leiða til fjármögnunar umfram árgjöld. Allt umframfjármagn sem kann að safnast yfir starfsárið skal renna beint til næsta starfsárs.

Fjáröflunar- og framkvæmdastjóri vinna fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár og leggja fyrir landsþing til samþykktar.

61. gr. Árgjald

Með inngöngu í LÍS skuldbinda aðildarfélög sig til þess að greiða árgjald til samtakanna. Aðildarfélög samtakanna skulu greiða heildarárgjöld sem nema 1.100.000 íslenskra króna. Skiptist upphæðin á milli aðildarfélaga með eftirfarandi hætti:

Upphæðinni skal deilt með heildarfjölda þingfulltrúa á landsþingi samtakanna það sama ár. Greiðir þá hvert aðildarfélag upphæð í samræmi við fjölda þingfulltrúa sem það á rétt á samkvæmt 42. gr þessara laga.

Upphæð heildarárgjalda skal breytast á árs fresti og vera í samhengi við vísitölu neysluverðs með vísitölu janúarmánaðar 2019 sem grunnvísitölu (462,0). Senda skal út reikning til innheimtu 1. október hvers árs og miða við vísitölu september mánaðar sama árs. Breyting á heildarárgjöldum milli ára má þó aldrei verða meiri en 4%. 

Breytingartillögur á heildarárgjöldum þurfa að minnsta kosti ¾ virkra atkvæða á landsþingi ef tillagan er lögð fram af aðildarfélagi samtakanna en aðeins ½ sé hún lögð fram af framkvæmdastjórn.

Beiðni um undanþágu frá greiðslu árgjalda skal tekin fyrir af fulltrúaráði og er háð samþykki þess.

62.gr. Tilnefning skoðunarmanns reikninga

Þrátt fyrir 58. gr. um ársreikning og endurskoðun er fulltrúaráði heimilt að kjósa skoðunarmann reikninga sem skal samþykkja ársreikning samtakanna í stað löggilts endurskoðanda.

Skal framkvæmdastjóri leitast eftir tilboðum frá löggiltum endurskoðendum og bera upp til samþykktar í fulltrúaráði. Hafni fulltrúaráð tilboðunum skal framkvæmdastjóri tilnefna skoðunarmann reikninga og bera upp til samþykktar í fulltrúaráði. Kjósa skal endurskoðanda eða skoðunarmann reikninga fyrir lok reikningsárs samtakanna sbr. 50. gr.

63. gr. Undirritun tilkynningar um prókúruskipti

Forseta og framkvæmdastjóra er heimilt að rita undir tilkynningu um prókúruskipti sé það samþykkt á fundi fulltrúaráðs.

IX. kafli. Ýmis Ákvæði

64. gr. Verklagsreglur

Um störf samtakanna gilda verklagsreglur sem samþykktar skulu á fulltrúaráðsfundi. Fulltrúaráði og  framkvæmdastjórn er heimilt að leggja til breytingar á verklagsreglunum, skal þá kosið um breytingarnar á fulltrúaráðsfundi.

65. gr. Slit samtakanna

Komi fram tillaga um að samtökunum skuli slitið skal um slíka tillögu fara með sama hætti og tillögur til lagabreytinga samkvæmt lögum þessum sbr. 52. gr. að því undanskildu að þörf er á ¾ hluta virkra atkvæða. Við slit samtakanna ganga eignir samtakanna til aðildarfélaga í hlutfalli við heildargreiðslur hvers félags til LÍS frá inngöngu þess.

66. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.


Lög þessi voru samþykkt á landsþingi LÍS 2015, 27.03.2015.

Breytingar voru gerðar á lögunum á landsþingi LÍS 2016, 19.03.2016. Breytingarnar tóku þá þegar gildi utan ákvæða varðandi kjör á gæðastjóra og alþjóðaforseta sbr. 18. gr. sem taka gildi 31. desember 2016.

Breytingar voru gerðar á lögunum á landsþingi LÍS 2017, 18.03.2017. Breytingarnar tóku þá þegar gildi.

Breytingar voru gerðar á lögunum á landsþingi LÍS 2018, 24.03.2018. Breytingarnar tóku þá þegar gildi.

Breytingar voru gerðar á lögunum á landsþingi LÍS 2019, 29.03.2019. Breytingarnar tóku þá þegar gildi.