Hvernig tryggjum við gæði stafrænna kennsluhátta?

Teitur Erlingsson hélt erindi fyrir hönd stúdenta.

Teitur Erlingsson hélt erindi fyrir hönd stúdenta.

Ráðgjafanefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla hélt málstofu þann 16. nóvember um hvernig hægt sé að tryggja gæði stafrænna kennsluhátta í Veröld - húsi Vigdísar. Teitur Erlingsson, varaformaður LÍS, hélt erindi um viðhorf stúdenta til stafrænna kennsluhátta. Teitur ræddi mikilvægi þess að stafræn kennsla sé ekki litin öðrum augum en venjuleg kennsla. Gæði kennslunnar verði að vera tryggð á sama hátt og um hana gildi sömu gæðastaðlar. Þá talaði hann einnig um mikilvægi hennar sem jafnréttistæki. Stafræn kennsla gerir stúdentum, sem ekki hafa tök á að sækja kennslustundir í persónu, kleift að mennta sig og taka þátt í tímum. Sérstakur gestur málstofunnar var Frank Rennie, prófessor við “Highlands and Islands” háskóla í Skotlandi. Skólinn er mjög framarlega á heimsvísu þegar kemur að stafrænum kennsluháttum og er Frank þar í fararbroddi. Frank kynnti fyrir gestum þær aðferðir sem hann beitir við kennslu og við að virkja nemendur í gegn um netið. Þar talaði hann sérstaklega um mikilvægi þess að gera námsefnið aðlaðandi og gagnvirkt. Einar Hreinsson, gæðastjóri Háskólans í Reykjavík (HR) fjallaði um þær aðferðir sem HR nýtir til þess að tryggja gæði stafrænnar kennslu og sýndi gestum kerfið sem notað er í HR. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslumiðstöðvar Háskólans á Akureyri (HA), sendi síðan erindi norðan frá Akureyri þar sem hún kynnti fyrirkomulag og helstu áskoranir og kosti við fjarnám í HA. Eftir það voru umræður um stafræna kennslu og mikilvægi hennar, þar sem fram kom mikil jákvæðni og vilji til innleiðingar og framfara.