Landsþing LÍS ályktar um nýjar úthlutunarreglur LÍN
Landssamtök íslenskra stúdenta senda frá sér ályktun um nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna - LÍN fyrir skólaárið 2019-2020. Ályktun þessi var samþykkt einróma á landsþingi LÍS í dag þar sem tæplega 60 stúdentafulltrúar frá öllum háskólum á Íslandi sem og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis komu saman. Landsþing LÍS fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna.
Í janúar síðastliðnum vöktu stúdentar athygli á kröfum sínum í herferð undir yfirskriftinni „Stúdentar mega ekki hafa það betra – stúdentar þurfa líka að lifa af laununum sínum“ þar sem lögð var megináhersla á hækkun grunnframfærslu og frítekjumarks við endurskoðun á úthlutunarreglum LÍN. Jafnframt hafa stúdentar ítrekað sett kröfur sínar fram og komið þeim áleiðis til stjórnvalda.
Í ályktuninni kemur meðal annars eftirfarandi fram:
Stúdentar fagna því að frítekjumarkið sé hækkað í 1.330.000 kr. úr 930.000 kr. Ljóst er að hækkun frítekjumarks í nýjum úthlutunarreglum er eðlileg og löngu tímabær.
Skerðingarhlutfall sem leggst á lán er tekjur lántakenda fara yfir frítekjumark var hækkað í 45% árið 2014. Það var gert svo hægt væri að hækka frítekjumarkið þrátt fyrir niðurskurðarkröfu sem þá lá á sjóðnum. Sú aðgerð átti að vera tímabundin til að bregðast við þáverandi ástandi og því með öllu óásættanlegt að fimm árum síðar sé ekki enn búið að lækka skerðingarhlutfallið aftur niður í 35%.
Alvarleg athugasemd er sett við það að framfærslan standi í stað í nýjum úthlutunarreglum og enn fremur að hún taki ekki mið af verðlagsbreytingum. Það er í raun ígildi lækkunar þar sem óbreytt krónutala á framfærslu felur í sér lækkun á kaupmætti. Stúdentar fara fram á það að endurskoðun á grunnframfærslu eigi sér stað með sérstöku tilliti til húsnæðisgrunns þar sem gert er ráð fyrir að allir lánþegar sæki og fái hámarkshúsnæðisbætur.
Vonbrigði eru að ekki hafi verið samþykkt að stúdentar í námi erlendis fái lánað fyrir ferðalögum fram og til baka einu sinni á hverju ári. Í núverandi reglum fá stúdentar erlendis aðeins lán fyrir einni ferð út og annarri ferð heim meðan á öllum námsferlinum stendur. Það setur stúdenta sem hafa ekki færi á að vinna í því landi sem þau stunda nám, í erfiða stöðu enda þurfa þeir þá að fljúga til Íslands í þeim tilgangi.
Stúdentar ítreka gerðar kröfur um að lækka lágmarksframvindukröfur LÍN úr 22 einingum í 18 einingar á önn, líkt og áður var. Jafnframt að lánshæfum einingum fjölgi úr 480 einingum í 600 einingar þar sem mikilvægt er að stúdentar njóti svigrúms til að stunda fjölbreytt nám.
Tilefni er til þess að árétta að munur er á annars vegar úthlutunarreglum og hins vegar lögum um LÍN sem eru í endurskoðun. Verði hugmyndir mennta- og menningarmálaráðherra um nýtt lánasjóðskerfi að veruleika, meðal annars um niðurfellingu á hluta lána að loknu námi, standa úthlutunarreglur þó óbreyttar þannig að kjör stúdenta á meðan námi stendur breytast ekki með nýju lánasjóðskerfi.
Ályktunina í heild sinni má nálgast hér.