Sanngjörn framfærslulán

Miða skal við að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns og búsetu.
— Lög um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020

Eftir sem áður undirstrika stúdentar mikilvægi þess að framfærslulán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 2. gr. laganna. Ljóst er að lág framfærsla skerðir aðgengi að menntun og er ein helsta ástæða þess að íslenskir stúdentar vinna mikið með námi. Þar að auki býr fyrirkomulag frítekjumarksins til vítahring þar sem stúdentar neyðast til að vinna meira til geta framfleytt sér en við það skerðist námslánið svo þeir þurfa að vinna enn meira. Því krefst LÍS eftirfarandi breytinga á framfærslulánum Menntasjóðsins:

  • Stúdentar krefjast þess að ákvæði þess efnis að upphæðir námslána skuli endurskoðaðar til hækkunar árlega, m.t.t. verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytinga verði bætt við lög um Menntasjóð námsmanna. Í núgildandi lögum eru engin fyrirmæli um endurskoðun lánsupphæða með reglubundnum hætti og því ekkert sem skyldar stjórn Menntasjóðsins eða ráðherra til að bregðast við þegar efnahagsaðstæður breytast til hins verra.

  • Nauðsynlegt er að lögfest verði ákvæði sem tryggir að viðbótarlán vegna húsnæðis taki mið af þróun leiguverðs. Í skýrslu Stúdentaráðs Háskóla Íslands um stúdenta á húsnæðismarkaði kemur fram að á árunum 2017 til 2021 hafi vísitala leiguverðs hækkað um 41% á meðan viðbótarlán vegna húsnæðis hækkaði aðeins um 11%. Enn fremur varð engin hækkun á viðbótarláni vegna húsnæðis milli úthlutunarreglna 2021-22 og 2022-23. Ljóst er að til að tryggja stöðug kjör þarf viðbótarlán vegna húsnæðis að lágmarki að hækka um því sem nemur vísitölu leiguverðs milli ára.

  • Nauðsynlegt er að samspil frítekjumarksins og grunnframfærslunnar sé vandlega skoðað og fundin sé leið til að koma í veg fyrir að frítekjumarkið hamli því að stúdentar nái eðlilegri framfærslu. Þá ber að hafa í huga að námslán eru (að jafnaði) veitt fyrir 9 mánuðum ársins en stúdentar þurfa að afla tekna til að standa undir hinum mánuðunum. Því verður að ráðast í ítarlega greiningu á hækkun, afnámi, þrepaskiptingu sem og öðrum breytingum sem hægt er að gera á frítekjumarkinu. Í kjölfar greiningarinnar er nauðsynlegt að skoða hvort ástæða sé til að setja ákvæði um frítekjumarkið í lög um Menntasjóðinn en nú er útfærsla þess eingöngu í úthlutunarreglum. LÍS krefst þess að úfærsla frítekjumarksins verði ekki til þess að hamla stúdentum að ná eðlilegri framfærslu sem og að sjálfsaflatekjur stúdenta þær vikur sem eru utan annar sé undanskyldar frítekjumarki.

  • LÍS krefst þess að krafa um lágmarksnámsframvindu verði lækkuð í lögum. Samkvæmt 13. gr. laganna þarf lántaki að uppfylla kröfur um lágmarksnámsframvindu til þess að eiga rétt á námsláni. Í lögunum segir að kröfur um lágmarksnámsframvindu mega ekki vera meiri en 44 ECTS-einingar eða ígildi þeirra á ári, en að öðru leyti er það sett í hendur sjóðstjórnar að ákvarða hvað telst vera full námsframvinda og hvað telst vera lágmarksnámsframvinda. Í úthlutunarreglum 2022-2023 er gerð krafa um að ljúka þurfi 22 ECTS-einingum á önn til að eiga rétt á láni frá Menntasjóði námsmanna og fullt nám er skilgreint sem 30 ECTS-einingar á önn. Stúdentar á Íslandi þurfa því að vera í að minnsta kosti um 75% námi til þess að eiga yfir höfuð rétt á námslánum. Mörg námskeið eru fleiri en 8 ECTS-einingar og þarf því lítið út af að bregða til þess að stúdent missi allan rétt sinn á námslánum. Mikilvægt er að lækka kröfur um lágmarksnámsframvindu en 34% íslenskra stúdenta telja fjárhagsstöðu sína annað hvort alvarlega eða mjög alvarlega, til samanburðar er meðaltalið 26% í Evrópu. Að auki voru fjárhagserfiðleikar þriðja algengasta ástæða þess að íslenskir stúdentar gerðu hlé á námi sínu.

  • Þá krefst LÍS sérstaks undanþáguákvæðis á kröfum um lágmarksnámsframvindu sem lýtur að fötluðum nemendum. Fatlaðir nemendur þurfa í mörgum tilfellum að taka færri en 22 ECTS-einingar á önn og uppfylla því ekki kröfur um lágmarks námsframvindu og hafa þar að leiðandi ekki rétt á námslánum. Þeir geta margir hverjir ekki stundað fullt nám vegna fötlunar eða langvarandi veikinda og verða því fyrir mismunun. Menntun er mikilvæg fyrir alla, ekki síður fatlað fólk. Líkt og hefur áður komið fram í þessu skjali er það markmið laga um Menntasjóð námsmanna að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Því krefjast stúdentar að tekið verði tillit til stöðu fatlaðra nemenda og aðgengi þeirra að námslánum verði tryggt.

  • Hægt er að ganga mislangt í kröfum um lágmarksnámframvindu en benda má á að hjá hinum norska lánasjóði geta stúdentar fengið lán fyrir einingum óháð því hvort þeir standist námsmat. Þá skal taka fram að 25% niðurfelling á höfuðstól láns sem fjallað var um í umfjöllun um styrkjakerfið fæst þó einungis fyrir þær einingar sem eru þreyttar.

    Með þessu fyrirkomulagi mætti draga úr fjárhagsáhyggjum stúdenta og þar með stuðla að aukinni vellíðan. Sömuleiðis dregur þessi leið úr umsýslu kostnaði hjá Menntasjóði námsmanna. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 60/2020 kemur fram að umsýsla hjá Menntasjóðnum gæti aukist vegna innheimtu hjá þeim sem ekki ná tilskyldri námsframvindu og þurfa að greiða ofgreidd námslán til baka. Hægt væri að leysa þetta vandamál og draga úr umsýslukostnaði með því að fara sömu leið og í Noregi.

  • Samkvæmt úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna 2022-2023 er, að jafnaði, lánað fyrir níu mánuðum óháð lengd anna. Þetta fyrirkomulag gerir ekki ráð fyrir því að annir geta verið mislangar á milli námsleiða og getur þetta komið lántökum í erfiða stöðu. Tryggja þarf að námslán dugi nemendum á meðan námstíma stendur en stúdentar telja það best gert með því að lánað verði fyrir vikum en ekki einingum.

    Ekki þarf að sækja fyrirmyndir af slíku kerfi langt, en bæði norski og sænski lánasjóðurinn lána til dæmis eftir vikum. LÍS telur slíkt fyrirkomulag bæði heillvænlegra og sanngjarnara en núverandi fyrirkomulag og leggur til að slíkt fyrirkomulag verði fest í lögum um Menntasjóð námsmanna.

  • LÍS krefst þess að öryggisvinklar vegna breytinga á gengi verða lögfestir. Gengisbreytingar geta haft veruleg áhrif á framfærslulán stúdenta erlendis. Sveifla íslensku krónunnar má ekki verða til þess að afkomuöryggis stúdenta erlendis sé ógnað. LÍS tekur undir tillögu SÍNE þess efnis að stjórn Menntasjóðs námsmanna verði gert skylt að fjalla um á stjórnarfundi ef gengi krónunnar breytist meira en 5% stúdentum í óhag og grípa til viðeigandi aðgerða.

  • Í 3. gr. laga um Menntasjóðinn má finna heimild til viðbótarlána vegna kostnaðar við búsetu hjá efnalitlum foreldrum, maka, röskunar á stöðu og högum námsmanns, sjúkratryggingar og ferðakostnaðar. Þar sem einungis er um heimild að ræða er ekki skylda fyrir stjórn Menntasjóðsins að veita viðbótarlánin. LÍS krefst þess að sjóðnum verði skylt að veita þessi lán í þeim tilvikum sem þau eiga við.