Styrkjakerfi að norskri fyrirmynd
Í 14. gr. laga um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um að ljúki lántaki námi á tilteknum tíma ávinnur hann sér námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námslánsins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um Menntasjóð námsmanna kemur fram að við val á aðferð við styrkveitingu hafi verið horft til norska lánasjóðsins. Stúdentar benda á að enn þurfi að gera töluverðar breytingar á lögum um Menntasjóðinn svo hið íslenska kerfi standist samanburð við hið norska. Stúdentar leggja áherslu á að við styrkveitingu sé horft sé til jafnréttissjónarmiða í víðum skilningi og krefjast eftirfarandi breytinga á styrkveitingum:
-
Stúdentar krefjast þess að veitt verði 25% niðurfelling af höfuðstól námslána í lok hverrar annar líkt og er gert í hinu norska lánasjóðskerfi. Þar er námsstyrkur veittur fyrir hverja þreytta einingu, óháð fjölda þeirra og lengd námstíma.
Í hinum norska lánasjóði er veitt framfærslulán fyrir allar einingar sem stúdent er skráður í óháð því hvort stúdentinn standist námskröfur (nánar er fjallað um það í umfjöllun um framfærslulán). Ljúki stúdent ekki tilteknu námkseiði, til dæmis vegna falls, fær hann ennþá lán en þó ekki 25% niðurfellingu á þeim einingum. Þó er hægt að vinna upp afsláttinn síðar með því að vinna einingarnar upp. Þessi útfærsla tekur þannig tillit til ólíkra aðstæðna stúdenta og dregur úr aðstöðumun þeirra sem ljúka ekki námi eða skipta um námsleið og er um leið hvati til þess að ljúka þeim einingum sem nemandi er skráður í.
LÍS telur mikilvægt að hvatakerfið letji ekki stúdenta til þess að skipta um námsleið. Í núverandi styrkjakerfi er ekki veittur neinn styrkur fyrir þau sem ekki ljúka því námi sem fengið er lán fyrir. Þetta getur leitt til þess að stúdentar veigri sér við því að skipta um námsleið skyldu þeir finna að áhugi þeirra og styrkleikar liggja á öðru sviði. Háskólamenntun er kostnaðarsöm fyrir hið opinbera og getur það orðið sóun, bæði á tíma og fjármagni, að einstaklingur ljúki námi sem hann mun ekki nýta. Því ætti Menntasjóðurinn að skapa hvata fyrir aukið svigrúm stúdenta til þess að finna sér nám við hæfi.
Stúdentar telja þetta fyrirkomulag auk þess betur til þess fallið að hvetja landsmenn til þess að sækja sér viðbótarþekkingu, í takt við auknar kröfur um símenntun.
Að lokum leggja stúdentar áherslu á að menntun hefur ávallt í för með sér samfélagslegan ábata, óháð því hvort sem henni lýkur með gráðu eða ekki.
-
Í hinum norska lánasjóði bætist við 15% niðurfelling af höfuðstól námslána við námslok til viðbótar við þau 25% sem eru felld niður í lok hverrar annar. Heildarstyrkurinn er þannig 40% af höfuðstól lánsins, samanborið við 30% á Íslandi. Stúdentar gera þá kröfu til íslenskra stjórnvalda að þau sýni sama metnað og norsk stjórnvöld í fjárfestingu í háskólamenntun og felli niður jafn hátt hlutfall af höfuðstól námslána.
-
Yfirburðir hins norska styrkjakerfis umfram hið íslenska eru ekki aðeins bundnir við hærra hlutfall styrks heldur uppfyllir það víðari jafnréttissjónarmið. Í Noregi er veitt 40% niðurfelling af höfuðstól láns við námslok óháð lengd námstíma. Slíkt fyrirkomulag tekur mun betur tillit til þeirra ólíku ástæðna sem geta leitt til þess að nemar ljúki ekki námi á tilsettum tíma. Hér skal tekið fram að engin ástæða er til að ætla að háskólanemar hafi ekki fullan vilja til þess að ljúka námi á áætluðum tíma enda er það tvímælalaust í hag stúdenta að fara sem fyrst á vinnumarkað.
-
Þá ber að hafa í huga að markmið núverandi styrkjakerfis er að skapa hvata fyrir stúdenta til þess að ljúka námi á tilsettum tíma. Í því ljósi leggur LÍS höfuðáherslu á að stjórnvöld skoði lengd námstíma háskólanema á Íslandi í víðara samhengi og taki tillit til þátta líkt og framfærslu námsfólks og hárrar atvinnuþátttöku stúdenta. Samkvæmt Eurostudent VII vinna 71% háskólanema á Íslandi með námi og er hlutfallið með því hæsta af þeim þjóðum sem taka þátt í könnuninni. Í sömu könnun kemur fram að 72% þeirra nema sem vinna með námi fullyrða að án vinnunar gætu þau ekki verið í námi. Niðurstöður könnunarinnar eru áfellisdómur á námslánakerfið og dregur fram þann vanda sem ófullnægjandi framfærsla skapar.
Við gerð hvatakerfis er því mikilvægt að unnin er greining á þeim ástæðum sem búa að baki löngum námstíma stúdenta hérlendis og vinna að lausnum út frá niðurstöðum hennar. Sömuleiðis þarf að greina hvaða hópi núverandi hvata- og styrkjakerfi gagnast og skoða í kjölfarið hvort markmið sjóðsins sem félagslegs jöfnunartóls verði betur uppfyllt með öðrum útfærslum.