Ábyrgð háskólastofnanna í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 // The responsibility of Higher Education Institutions in light of the COVID-19 pandemic
Augljóst er að háskólasamfélagið verður fyrir miklum áhrifum vegna útbreiðslu COVID-19 og nýtilkynnts samkomubanns. LÍS leggja áherslu á að háskólar leiti allra mögulegra lausna til þess halda uppi starfi með fjarkennslu.
Ábyrgð háskólastofnanna í ljósi heimsfaraldurs COVID-19 // The responsibility of Higher Education Institutions in light of the COVID-19 pandemic
— English below —
Augljóst er að háskólasamfélagið verður fyrir miklum áhrifum vegna útbreiðslu COVID-19 og nýtilkynnts samkomubanns. LÍS leggja áherslu á að háskólar leiti allra mögulegra lausna til þess halda uppi starfi með fjarkennslu. Um er að ræða fordæmalaust ástand og ættu allir háskólar að leggja kapp í að það komi ekki niður á námsfamvindu stúdenta. LÍS biðla einnig til allra að fylgja fyrirmælum heilbrigðisyfirvarda og sýna samstöðu.
It has become clear that the higher education community will be greatly affected by the spread of COVID-19 and the recently announced ban on assemblies. LÍS emphasize that universities seek every possible solution to continue studies with distance learning. This situation is unprecedented and all universities should make an effort to minimize the impact on students’ progress. LÍS also urge everyone to abide by instructions from health authorities and to show solidarity.
Lokadagur landsþings
Kosningar til embætta, yfirlýsing vegna undirfjármögnunar háskólastigsins og fleira var til umræðu á síðasta degi landsþings, 8. mars. Þingið fór fram í hátíðasal Háskólans á Akureyri þennan síðasta dag og var mikil eftirvænting í þinggestum fyrir kosningum…
Kosningar til embætta, yfirlýsing vegna undirfjármögnunar háskólastigsins og fleira var til umræðu á síðasta degi landsþings, 8. mars. Þingið fór fram í hátíðasal Háskólans á Akureyri þennan síðasta dag og var mikil eftirvænting í þinggestum fyrir kosningum.
Dagskráin hófst á samantekt úr vinnustofum helgarinnar en því næst voru önnur mál tekin fyrir. Steinunn Alda Gunnarsdóttir og Sólveig María Árnadóttir, þingfulltrúar Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA), byrjuðu þann dagskrárlið á því að óska eftir stuðningi landsþings við yfirlýsingu SHA um undirfjármögnun Háskólans á Akureyri. Eftir smávægilegar breytingar á yfirlýsingunni samþykkti landsþing einróma að styðja yfirlýsingu SHA.
Í kjölfarið flutti Jóna Þórey Pétursdóttir, þingfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), annað mál er laut að yfirlýsingu um undirfjármögnun háskólakerfisins í heild sinni. Landsþing samþykkti einróma að leggja fram yfirlýsinguna.
Eftir önnur mál var komið að því að tilnefna fulltrúa í fulltrúaráði LÍS. Flest félögin þurftu að biðja um frest vegna þess en tekið skal fram að landsþing var haldið óvenjulega snemma þetta árið.
Eftir hádegishlé var komið að kosningum í embætti framkvæmdastjórnar. Frambjóðendur kynntu sig fyrir þinggestum hver á eftir öðrum og fengu fjöldann allan af spurningum. Fóru kosningar loks þannig að Jóhanna Ásgeirsdóttir, núverandi alþjóðafulltrúi LÍS, hlaut kjör í embætti forseta samtakanna, Sylvía Lind J. Birkiland hlaut kjör í embætti alþjóðafulltrúa LÍS, Derek T. Allen hlaut kjör sem jafnréttisfulltrúi samtakanna, Indía Bríet Böðvarsdóttir Terry hlaut kjör í embætti gæðastjóra LÍS, Guðbjartur Karl Reynisson, núverandi markaðsstjóri LÍS, hlaut kjör í embætti markaðsstjóra samtakanna og Kolbrún Lára Kjartansdóttir hlaut kjör í embætti ritara samtakanna. Embætti varaforseta er enn ómannað og munu LÍS óska eftir framboðum í það embætti fljótlega.
Í kjölfar kosninga var staðsetning næsta landsþings rædd. Tillaga var lögð fyrir þingið um að næsta landsþing yrði haldið á Bifröst en lagt til að landsþingsnefnd myndi skoða aðra kosti fyrir landsþing 2022. Sú tillaga var einróma samþykkt.
Að lokum kom framkvæmdastjórn upp á svið og veitti forseta LÍS, Sigrúnu Jónsdóttur, þakklætisvott fyrir vel unnin störf. Sigrún þakkaði þinggestum fyrir helgina og fyrir þá öflugu rödd sem þeir ljá stúdentum á landsvísu með sinni vinnu.
Velferð í brennidepli
Annar dagur landsþings LÍS var fullur af umræðum og fræðslu um hagsmunamál stúdenta, þá sérstaklega velferðarmál. Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, hóf dagskrána á því að kynna sjálfbærnistefnu LÍS sem Sigrún hefur unnið að ásamt sjálfbærninefnd og fleiri aðilum. Í stefnunni er að finna kröfur LÍS til æðri menntastofnana, stjórnvalda og fyrirtækja hvað varðar sjálfbærni í umhverfismálum…
Annar dagur landsþings LÍS var fullur af umræðum og fræðslu um hagsmunamál stúdenta, þá sérstaklega velferðarmál. Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, hóf dagskrána á því að kynna sjálfbærnistefnu LÍS sem Sigrún hefur unnið að ásamt sjálfbærninefnd og fleiri aðilum. Í stefnunni er að finna kröfur LÍS til æðri menntastofnana, stjórnvalda og fyrirtækja hvað varðar sjálfbærni í umhverfismálum. Eftir nokkrar breytingar af hálfu aðildarfélaganna var stefnan samþykkt einróma og fögnuðu aðildarfélögin því að fá stefnu sem þau gætu nýtt sér til þess að þrýsta á sína skóla í umhverfismálum.
Eftir hádegismat var fjallað um húsnæðismál en Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hélt erindi þar sem hún fjallaði meðal annars um frumvarp sem nú er í ferli hjá Alþingi sem miðar að bættri réttarstöðu og auknu öryggi leigjenda.
Í kjölfarið tók Jóhannes Baldur Guðmundsson við keflinu og fjallaði um Félagsstofnun stúdenta Akureyri, FÉSTA. Jóhannes sagði þinggestum helst frá stúdentagörðum sem stofnunin sér um á Akureyri og fjallaði um mikilvægi þess að vera með öruggt húsnæði í háskólanámi. Jóhannes sagði frá þeim áskorunum sem FÉSTA stendur frammi fyrir vegna takmarkaðrar aðsóknar í stúdentagarða á Akureyri og ræddi mögulegar úrlausnir við þingfulltrúa.
Því næst flutti Fam Karine Heer Aas, fulltrúi velferðar- og jafnréttismála hjá Landssamtökum norskra stúdenta, erindi um velferðarkerfi stúdenta í Noregi. Fam tjáði þinggestum að henni þætti norska kerfið eitt það besta i heimi og líflegar spurningar spunnust upp á meðal þinggesta sem voru áhugasamir um svo sterkt velferðarkerfi.
Erindi Fam var þingfulltrúum svo innblástur í vinnustofum um velferðarmál. Þar var markmiðið að móta stefnu LÍS um velferðarmál og komu þingfulltrúar fjöldanum öllum af áhugaverðum punktum á framfæri í því samhengi.
Loks voru verk- og fjárhagsáætlanir samtakanna kynntar og samþykktar einróma.
Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+ sem verkefni í flokknum fundir ungs fólks og ráðamanna. Styrkurinn er stúdentum gífurlega mikilvægur enda landsþing æðsta vald LÍS sem tekur stefnumótandi ákvarðanir í hagsmunabaráttu stúdenta.
Fyrsti dagur landsþings viðburðaríkur
Landsþing LÍS hófst á Akureyri í gær, 6. mars, með á fimmta tug þinggesta. Þema þingsins er velferð og verður því sérstaklega hugað að velferðarmálum stúdenta á þinginu. Fyrsti dagurinn var virkilega viðburðaríkur.
Landsþing LÍS hófst á Akureyri í gær, 6. mars, með á fimmta tug þinggesta. Þema þingsins er velferð og verður því sérstaklega hugað að velferðarmálum stúdenta á þinginu. Fyrsti dagurinn var virkilega viðburðaríkur.
Dagurinn hófst á ávarpi frá Sigrúnu Jónsdóttur, forseta Landssamtaka íslenskra stúdenta, sem fór yfir öran vöxt samtakanna og líkti þeim við barni sem hefði vaxið hratt á síðastliðnum sex árum. Frá fæðingu þeirra 3. nóvember 2013 hafa þau vaxið hratt og dafnað. Við fjögurra ára aldur minntu þau strax á ungling sem lá mikið á að fullorðnast. Nú á sjötta aldursári hafa samtökin skotið rótum, keypt sér íbúð og eru komin langt á leið með draumanámið. Hún þakkaði þingfulltrúum sérstaklega fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma og fyrir það að standa í metnaðarfullri hagsmunagæslu fyrir stúdenta.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tók svo við keflinu og ávarpaði þingið. Eyjólfur, sem sjálfur tók þátt í stúdentabaráttu á sínum námsárum, þakkaði fyrir það hve hagsmunabarátta stúdenta væri orðin öflug og fyrir það að sameinuð rödd stúdenta væri til. Rektor minnti landsþingsgesti á að hvert og eitt okkar bæri ábyrgð á eigin velferð, mikilvægt væri að stýra álagi og fara ekki á harðahlaupum í gegnum lífið. Hann benti einnig á að aðgengi að menntun væri velferðarmál.
Að loknu ávarpi rektors var farið yfir ýmis praktísk atriði. Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elísabet Ásmundsdóttir voru kjörnar ritarar landsþings og Nanna Elísa Jakobsdóttir var kjörin fundarstjóri þingsins en bæði Aldís og Nanna eru fyrrum formenn LÍS. Anastasía Jónsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, og Styrmir Níelsson, þingfulltrúi NLBHÍ, voru í kjölfarið kosin sem trúnaðarfulltrúar þingsins.
Sigrún tók svo við keflinu aftur og kynnti ársskýrslu LÍS sem greinir frá öllu því metnaðarfulla starfi sem samtökin hafa sinnt á starfsárinu. Sigrún tók sérstaklega fram mikla ánægju með verkefnið Student Refugees.
Að því loknu kynnti Theodóra Listalín Þrastardóttir, framkvæmdastjóri LÍS, ársreikning samtakanna.
Ragnhildur Þrastardóttir, varaforseti LÍS, kynnti þá innri stefnu LÍS sem sköpuð var frá grunni í haust. Hún snýr að innra starfi LÍS og miðar að því að gera samtökin sterkari inn á við. Stefnan er byggð á hugmyndum frá aðildarfélögum LÍS og grunngildum sem fulltrúaráð kaus um, gildunum lýðræði, gagnsæi, jafnrétti og samstaða. Tvær breytingartillögur bárust á innri stefnuna, báðar frá Stúdentaráði Háskóla Íslands. Þær sneru að orðalagi í innri stefnunni og var önnur þeirra samþykkt en hin felld. Innri stefna var loks samþykkt einróma í heild sinni.
Næst eftir á voru vinnustofur um Menntastefnu til ársins 2030. Stefnan er nú inni á samráðsgátt stjórnvalda og miðuðust vinnustofurnar að því að finna út hvað stúdentar vildu sjá í stefnunni. Þær hugmyndir sem fram komu í vinnustofunum verða nýttar til þess að skapa umsögn LÍS um menntastefnu.
Að því loknu fjölluðu Ásta Rún Valgerðardóttir og Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingar hjá náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands um andlega heilsu stúdenta og það hvaða úrræði standi stúdentum til boða í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn var virkilega áhugaverður og spunnust umræður um það hvort hægt væri að bjóða upp á sambærilega þjónustu í háskólum á landsvísu.
Fam Karine Heer Aas, fulltrúi velferðar- og jafnréttismála hjá Landssamtökum norskra stúdenta, fjallaði svo um námslán og það hvernig slík lán geti tryggt jafnt aðgengi að námi. Erindið vakti upp ýmsar spurningar og voru þingfulltrúar áhugasamir um norska lánasjóðskerfið en nú er frumvarp um Menntasjóð námsmanna í ferli hjá stjórnvöldum. Sé frumvarpið samþykkt færist íslenskt námslánakerfi nær því norska.
Lánasjóðsmál voru til umræðu í vinnustofum sem farið var í eftir erindi Fam og sömuleiðis opnar umræður um 30. grein frumvarps um Menntasjóð námsmanna en ef frumvarpið er samþykkt á Alþingi í þeirri mynd sem það er í dag þá myndi það liggja í hlut LÍS að tilnefna þrjá fulltrúa í stjórn sjóðsins. Tillaga um skipun starfshóps vegna þess var samþykkt af þingfulltrúum.
Í lok dagsins var ráðist í breytingar á lögum LÍS. Framkvæmdastjórn lagði fram um tuttugu breytingatillögur og aðildarfélögin tæplega tíu tillögur. Lögin voru loks borin upp í heild sinni og voru einróma samþykkt.
Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+ sem verkefni í flokknum Fundir ungs fólks og ráðamanna.
Opnunarávarp forseta LÍS á landsþingi 2020
Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, flutti eftirfarandi ávarp á landsþingi LÍS 2020 sem haldið er 6. - 8. mars á Akureyri.
…
Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, flutti eftirfarandi ávarp á landsþingi LÍS 2020 sem haldið er 6. - 8. mars á Akureyri.
Kæru þingfulltrúar, framkvæmdastjórn, rektor og aðrir góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að standa hérna frammi fyrir ykkur í dag og opna sjöunda landsþing samtakanna. Ég vil byrja á að þakka ykkur innilega fyrir að hafa komið saman hér í dag. Það er ekki sjálfsagður hlutur að taka tíma frá námi, og oft og tíðum starfi og fjölskyldu, til þess að taka þátt í hagsmunagæslu stúdenta. Þeirri vinnu er að miklu leyti sinnt af einstaklingum í sjálfboðaliðastarfi en það er óeigingjarnt starf sem má ekki taka sem gefnu. Takk fyrir það.
Fyrrum forseti LÍS hefur áður líkt vexti samtakanna við æviskeið mannsins. Frá fæðingu þeirra 3. nóvember 2013 hafa þau vaxið hratt og dafnað. Við fjögurra ára aldur minntu þau strax á ungling sem lá mikið á að fullorðnast. Nú á sjötta aldursári hafa samtökin skotið rótum, keypt sér íbúð og eru komin langt á leið með draumanámið. Þau ætla að sigra heiminn, eitt skref í einu. Það mætti segja að lífið leiki við þau, enda eru þau ekki enn byrjuð að greiða niður af námslánum.
Fyrir ári síðan bjóst ég ekki við því að standa hér í dag en það hefur verið sannur heiður að hafa fengið að leiða samtökin síðastliðnu mánuði. LÍS hafa vaxið á ógnarhraða, í veldisfalli, og það hefur verið ævintýri að taka þátt í þeirri þróun.
Það ríkir alltaf mikil tilhlökkun fyrir landsþingi LÍS enda gefst hér tækifæri til þess að bæði líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár og höfum við tekist á við ýmsar áskoranir, sumar stærri en aðrar, og tekist vel til. Þó er enn mikil vinna fyrir höndum. Það hefur ýmislegt sprottið upp á starfsárinu sem við sem verðir hagsmuna stúdenta hér á landi verðum að vera á varðbergi fyrir. Frumvarp um Menntasjóð námsmanna hefur skiljanlega tekið mikið pláss í umræðunni og komum við til með að gera skil á því í hér um helgina en einnig hafa mikilvæg mál eins og höfnun umsækjenda í starfsnám í lögreglufræði og falin skólagjöld komið við sögu. Einnig er mikilvægt að nefna gerð menntastefnu og endurskoðun á fjárveitingu háskólanna sem eru risavaxin mál sem LÍS hafa lengi kallað eftir. Það er fagnaðarefni að vinna sé hafin að menntastefnu, þó að samráð við stúdenta og aðra aðila innan háskólakerfisins hefði mátt vera töluvert betra. Þessi mikilvægu mál munu áfram krefjast sterkrar sameinaðarar raddar stúdenta. Það er því mikilvægt að við nýtum þá rödd sem við höfum til þess að krefjast bættra kjara fyrir stúdenta og þar með skapa hagstæðra umhverfi fyrir stúdenta í námi í dag og framtíðar kynslóðir. Landsþing er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi og hefur ykkar þátttaka hér mótandi áhrif á samtökin og hvernig þau munu takast á við áskoranir framtíðarinnar. Það er einstaklega mikilvægt fyrir samtök sem eru í forsvari fyrir um 21 þúsund stúdenta að hafa sterka stefnu í velferðarmálum og hlakka ég til þeirra umræðna sem munu skapast yfir helgina. Skiptumst á skoðunum, rökræðum og lítum á umræðuefnin frá öllum mögulegum sjónarhornum, því þannig verðum við færari í okkar hagsmunagæslu.