AÐILDARFÉLÖG

Aðildarfélög Landssamtaka íslenskra stúdenta

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri er félag allra innritaðra stúdenta við Háskólann á Akureyri. Félagið er fyrst og fremst hagsmunafélag stúdenta, bakland og sameiningartákn undirfélaga þess og þeirra aðila sem sinna trúnaðarstörfum á vegum félagsins. Það hefur yfirumsjón með atburðum á sviði skemmtana-, íþrótta- og fjölskyldumála og stendur á bakvið aðildarfélög sín til þess að sinna þessum málaflokkum innan sinna sviða og deilda. Félagið stendur vörð um hagsmuni heildarinnar, stuðlar að bættri heilsu og líðan stúdenta og vinnur náið með starfsfólki skólans að hagsmunamálum, kynningarmálum og öðru því sem snertir stúdenta, beint eða óbeint.

Nemendafélag Háskólans á Bifröst

Nemendafélag Háskólans á Bifröst (NFHB) er hagsmunafélag allra nemenda á Bifröst. Félagið vinnur náið með öðrum aðildar- og hagsmunafélögum og starfsmönnum skólans að bættum hag nemenda og annarra íbúa samfélagsins. Hagsmunafulltrúi, fulltrúi nýnema og fulltrúi fjarnema starfa innan nemendafélagsins auk hefðbundinna embætta. Félagið stendur fyrir fjölmörgum viðburðum í félagslífi nemenda með dyggri aðstoð skemmtinefndar sem starfar þar undir.  

Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands

Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands er hagsmunafélag nemenda sem stunda nám við skólann. Félagið stendur einnig fyrir fjölbreyttu félagslífi og skipuleggur ýmsa viðburði og uppákomur fyrir nemendur á Hvanneyri.

Stúdentaráð Listaháskóla Íslands

Stúdentaráð Listaháskóla Íslands er skipað formönnum nemendafélaganna. En í hverri deild er starfandi nemendafélag sem hefur það hlutverk að sinna málum sem varða hagsmunamál nemenda. Nemendafélögin tilnefna fulltrúa í deildaráðin og sjálfsmatsnefndir deilda.

Stúdentaráð tilnefnir fulltrúa nemenda í fagráð Listaháskólans, gæðanefnd, jafnréttisnefnd, kennslunefnd, rannsóknanefnd, umhverfisnefnd, úrskurðarnefnd um réttindamál nemenda og í nefndir vegna sjálfsmats og úttektastarfs hverju sinni. 

Samband íslenskra námsmanna erlendis

Samband íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, var stofnað þann 13. ágúst 1961. Æ síðan hefur félagið starfað að víðtækri hagsmunagæslu fyrir íslenska námsmenn á erlendri grund.

Í stjórn félagsins sitja sjálfboðaliðar sem sjálfir hafa stundað nám erlendis. SÍNE skipar einn fulltrúa í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og rekur upplýsingasíðu um nám erlendis, www.farabara.is. SÍNE starfrækir einnig skrifstofu sem er opin alla virka daga fyrir hádegi.

Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík

Stúdentafélagið (SFHR) er hagsmunafélag stúdenta við Háskólann í Reykjavík. Félaginu ber að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna sem og að auka einingu meðal nemenda skólans. Allir nemendur Háskólans í Reykjavík eru meðlimir í SFHR og eru félagsgjöld engin.

Stjórn SFHR er skipuð fimm aðilum sem sitja eitt skólaár í senn og fara kosningar fram á vorönn. Starfsemi félagsins gengur að miklu leyti út á að veita skólanum aðhald hvað varðar gæði kennslunnar og aðstöðu nemenda til náms. Félagið er því í góðu sambandi við stjórnendur skólans og er oft kallað eftir áliti stjórnar SFHR varðandi úrlausn ýmissa mála.

Stúdentafélag Hólaskóla

Hólanemar – Stúdentafélag Hólaskóla er félag nemenda við Háskólann á Hólum.

Stúdentaráð Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands er skipað 27 stúdentum við Háskóla Íslands. Verkefni ráðsins eru mörg og fjölbreytt, allt frá því að berjast fyrir hagsmunum stúdenta, og svo að halda skemmtilega viðburði eins og til dæmis Októberfest. Á skrifstofu Stúdentaráðs starfar einnig hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs sem getur liðsinnt nemendum sem telja að brotið hafi verið á rétti þeirra. Stúdentaráð var stofnað árið 1920 og hefur náð miklum árangri við að bæta kjör stúdenta.