UM OKKUR

Landssamtök íslenskra stúdenta

Hvað eru LÍS?

Landssamtök íslenskra stúdenta, eða LÍS, voru stofnuð 3. nóvember 2013 og eru samtök háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. LÍS eru regnhlífarsamtök og standa að þeim átta aðildarfélög sem eru í forsvari fyrir stúdenta við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Hólum, Háskóla Íslands og fyrir íslenska stúdenta sem stunda nám erlendis. LÍS eru því í forsvari fyrir rúmlega 20 þúsund íslenskra stúdenta.

Hlutverk samtakanna

Hlutverk samtakanna er að standa vörð um hagsmuni stúdenta hérlendis sem og hagsmuni íslenskra stúdenta á alþjóðavettvangi og um leið skapa samstarfsvettvang fyrir íslensk stúdentafélög. Samtökin skulu vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu hagsmunasamstarfi stúdenta og vinna að samræmingu gæðastarfs í íslenskum háskólum. Þau hafa umboð til samningagerðar, framkomu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum aðilum fyrir hönd íslenskra stúdenta.

Nánar um hlutverk samtakanna má nálgast í 2. gr. laga LÍS.

Uppbygging

Í fulltrúaráði samtakanna sitja tveir fulltrúar frá hverju aðildarfélagi en á landsþingi tilnefnir hvert aðildarfélag einn fulltrúa til setu í tvö ár. Fulltrúaráð er með hæsta ákvörðunarfald innan LÍS á milli landsþinga. Í framkvæmdastjórn sitja forseti, varaforseti, ritari, fjármálastjóri, alþjóðafulltrúi, gæðastjóri, markaðsstjóri og jafnréttisfulltrúi sem kosnir eru í embætti á landsþingi. Framkvæmdastjórn sækir umboð sitt til fulltrúaráðs.

Í umboði framkvæmdastjórnar starfa sex nefndir sem eru lagabreytinganefnd, fjármálanefnd, alþjóðanefnd, gæðanefnd, markaðsnefnd og jafnréttisnefnd. Öllum stúdentum er frjálst að sækja um í nefndirnar en auglýst er í þær að hausti ár hvert.

Landsþing LÍS fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna en það er haldið á hverju ári. Þar hittast öll aðildarfélög LÍS og kjósa um helstu málefni samtakanna. Einnig er unnin bæði innri og ytri stefnumótunarvinna í samstarfi við framkvæmdastjórn og nefndir LÍS.

Verkefni

Samtökin halda utan um verkefni af ýmsum toga en helst mætti nefna skipulagningu ýmissa málþinga og viðburða tengdum málefnum stúdenta, þátttöku stúdenta í gæðaúttektum á námi í háskólum landsins, alþjóðastarf íslenskra stúdenta og skipun fulltrúa stúdenta í ýmsar nefndir. Í gegnum þessi verkefni gegna LÍS einnig mikilvægu hlutverki þar sem samtökin vinna að því að stúdentar njóti jafnréttis og að raddir allra hópa innan háskólasamfélagsins heyrist.

LÍS eru aðildarfélag að European Students’ Union (ESU) sem eru regnhlífarsamtök fyrir landssamtök stúdenta í Evrópu. Þátttaka í starfi ESU krefst þess að fulltrúar sæki ráðstefnur og þing sem haldin eru í Evrópu.

LÍS taka þátt í samstarfi NOM sem er bandalag landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum.