Umsóknarfrestur fyrir haustönn 2022 er 15. október 2023
Umsóknarfrestur fyrir vorönn 2023 er 15. janúar 2024
Umsóknarfrestsur fyrir sumarönn 2023 er 15. júlí 2024
En hvernig virkar kerfið og hvað þarf að hafa í huga þegar sótt er um?
Menntasjóður námsmanna
Sækja um lán
Stúdentar sækja um námslán hjá Menntasjóði námsmanna undir “Mitt Lán” á heimasíðu Menntasjóðsins (http://www.menntasjodur.is/).
Á vefsíðu sjóðsins er einnig hægt að fylgjast með stöðu umsókna, skoða lánsáætlun og sjá gátlista yfir gögn sem þurfa að fylgja umsóknum. Mikilvægt er að sækja um námslán fyrir hvert námsár og þarf að velja allar annir sem námsmaður hyggst stunda nám á.
Ítarlegri upplýsingar um Menntasjóðinn má finna hér að neðan og á vefsíðu sjóðsins.
Hver er munurinn á Menntasjóð námsmanna og LÍN?
Styrkir vegna framfærslu barna
30% niðurfelling á höfuðstóli láns
Mánaðarlegur útborganir lána
Breytilegir vextir
Val á milli verðtryggðs og óverðtryggðs láns
Afborgun hefst eitt ár eftir námslok
Get ég valið milli LÍN og Menntasjóðsins?
Valið stendur til boða fyrir þá sem eru með opið skuldabréf frá LÍN, en námsmenn sem eru að taka lán í fyrsta skipti fara sjálfkrafa beint í Menntasjóðinn.
Ef þú ert að hefja námsferilinn þinn og ert að taka námslán í fyrsta skipti, þá er mikill kostur að fá 30% niðurfellingu á láninu sjáir þú fram á að ljúka náminu á þeim tíma sem það er skipulagt. Einnig getur það borgað sig að nýta styrki fyrir framfærslu barna eigir þú börn. Þó þarf að hafa í huga að vextir hjá Menntasjóðinum eru breytilegir á meðan þeir eru fastir hjá Lánasjóðinum.
En fyrir þá sem hafa tekið lán frá LÍN og standa frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort skal sameina skuldabréfin eða halda þeim aðskildum, er gott að hafa eftirfarandi í huga
+ Hverjir geta haldið áfram að taka lán frá LÍN?
Námsmenn sem voru á lánum á skólaárinu 2018-2019 eða seinna geta sótt um að halda áfram að fá lán samkvæmt eldri lögum.
Þetta gildir í 7 ár frá gildistöku laga um Menntasjóð svo framarlega sem samfella er í náminu - námsmenn mega þó taka taka sér ársleyfi.
Hér skiptir ekki máli hvort námsmaður skiptir um námsferil eða ekki. Á umsókn um námslán fyrir næsta námsár verður námsmönnum sem uppfylla þessi skilyrði gefinn kostur á að velja hvort kerfið þeir vilja.
+ Ertu með opið skuldabréf samkvæmt eldri lögum (frá LÍN)? Þá hefur þú þrjá kosti:
Að halda áfram að taka lán samkvæmt eldri lögum. Þá gilda sömu skilmálar og áður, engin niðurfelling, engir barnastyrkir, en hinsvegar lágir, fastir vextir.
Að loka skuldabréfinu frá LÍN og stofna nýtt frá Menntasjóðnum. Þú getur ekki fengið niðurfellingu á láninu sem þú fékkst frá LÍN, en átt rétt á niðurfellingu fyrir þann hluta námsins sem þú færð lánað fyrir frá Menntasjóðnum. Ef námsmaður ákveður að taka lán samkvæmt nýjum lögum leiðir það ekki til þess að myndist námslok á eldra lánið. Námslok verða áfram skilgreind með sama hætti þ.e. þegar námsmaður hættir að þiggja nám hjá sjóðnum.
Að sameina skuldabréfið frá LÍN við nýtt skuldabréf frá Menntasjóðnum. Það sama gildir hér um niðurfellingu, þú færð ekki niðurfellingu afturvirkt fyrir þann hluta námsins sem átti sér stað fyrir tilkomu Menntasjóðsins. Það sem þarf að hafa í huga er að með sameiningu skuldabréfana breytast föstu vextir lánsins frá LÍN í breytilega vexti Menntasjóðsins. Reikna má með að vaxtakjör hjá Lánasjóðsins verði nær alltaf lægri en hjá Menntasjóðnum. Afborganir munu einnig hefjast einu ári eftir námslok en ekki tveimur.
+ Hvernig virka afborganir ef einstaklingur er með tvö skuldabréf úr mismumandi kerfum, LÍN og Menntasjóðnum?
Ef námsmenn eru með lán samkvæmt eldri og nýju lögum geta þeir óskað eftir því að greiða fyrst af nýju lánunum ef endurgreiðslur beggja lána eru tekjutengdar (þ.e. endurgreiðslur nýja lánsins fari eftir 21. gr. laganna). Ef endurgreiðslur nýja lánsins eru í formi jafngreiðslna (samkvæmt 20. gr. laganna) þá þarf að greiða af báðum lánum samtímis.
+ Hvernig virkar niðurfelling á höfuðstól ef aðeins hluti námslána voru tekin með nýjum lánum?
Ef viðkomandi klárar nám innan þess svigrúms sem er gefið til þess að ljúka námi þá fær hann niðurfellingu á þeim hluta sem var tekinn samkvæmt nýju lögunum.
Til dæmis ætti einstaklingur sem tók lán samkvæmt eldri lögum fyrir fyrstu tvö árin af grunnnámi, en samkvæmt nýjum lögum á því þriðja, aðeins rétt á niðurfellingu lánsins frá þriðja árinu.
Styrkur fyrir framfærslu barna
Í Menntasjóðnum er framfærsla barna ekki lán heldur styrkur. Námsmaður þarf samt að taka lán fyrir sinni framfærslu til að fá styrk fyrir framfærslu barna.
+ Hver á rétt á styrk fyrir framfærslu barna?
Námsmaður á rétt á styrk til framfærslu barns undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði ef hann uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
- Uppfyllir lágmarks námsframvindukröfur
- barnið á lögheimili hjá lántaka eða lántaki er meðlagsskyldur með barninu
Fjárhæð styrks fyrir hvert barn á framfæri námsmanns má finna í úthlutunarreglum, sama fjárhæð gildir um styrk fyrir meðlagi.
30% niðurfelling á höfuðstól
Með tilkomu Menntasjóðsins býðst í fyrst skipti möguleiki á því að breyta námsláni í styrk við lok náms innan ákveðins tímaramma.
+ Hvaða skilyrðum þarf að uppfylla til að fá 30% niðurfellingu á láninu?
Ef námsmaður lýkur prófgráðu sinni á þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir á hann rétt á námsstyrk sem felur í sér 30% niðurfærslu á höfuðstól námslánaskuldarinnar og verðbótum frá og með þeim degi sem skuldabréfi er lokað. Ef nám er skipulagt sem þriggja ára nám á nemi rétt á niðurgreiðslunni ljúki hann námi á þremur árum. Þetta á samt bara við um nám sem er skipulagt sem fullt nám í tvær annir að lágmarki 60 ECTS. Til að veita námsstyrkinn er nauðsynlegt að skila inn staðfestum upplýsingum um hvenær nám hófst og hvenær því lauk.
+ Hvað ef ég næ ekki að klára á "réttum tíma"?
Lántakar hafa ákveðið svigrúm til seinkunar í námi án þess að réttur til námsstyrks skerðist á eftirfarandi hátt:
- Eitt ár umfram þann tíma sem skipulag iðn-, starfs- og aðfaranáms kveður á um.
- Eitt ár umfram þann tíma sem skipulag bakkalárs- og meistaranáms kveður á um.
- Sex mánuðir umfram þann tíma sem skipulag diplómanáms kveður á um.
- Tvö ár umfram þann tíma sem skipulag doktorsnáms kveður á um.
Áður en hægt er að veita námsmanni styrk þurfa að liggja fyrir staðfestar upplýsingar um hvenær nám hófst og hvenær því lauk með afriti af staðfestingu á lokaprófi. Námsmaður ber ábyrgð á því að sjóðnum berist slíkar upplýsingar. Að jafnaði er miðað við að staðfesting verði að hafa borist innan 6 mánaða frá námslokum.
Undanþágur frá námsframvindu teljast ekki til seinkunar í námi, þ.e., þú færð ár í viðbót ofan á þann tíma ef þú hefur fengið undanþágu vegna veikinda, barneigna eða annara aðstæðna sem má lesa nánar um í næsta lið
+ Undanþágur frá námsframvindu
Námsmenn geta sótt um aukið svigrúm í námi ef þeir geta ekki lokið lágmarksárangri á önn vegna veikinda gegn því að skila inn læknisvottorði.
Námsmaður á rétt á undanþágu við eftirfarandi aðstæður:
Veikindi
- Ef námsmaður veikist verulega á námstíma er heimilt að bæta allt að 6 einingum í misseraskólum og 4 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar þannig að einingarnar verði samtals 22 í misseraskólum og 15 í fjórðungaskólum eftir að viðbótareiningum hefur verið bætt við.
- Veikist námsmaður á seinnihluta annar eða í prófum er heimilt að bæta við allt að 22 ECTS-einingum í misseraskólum og 15 ECTS-einingum í fjórðungaskólum.
- Sé undanþága frá námsframvindu samþykkt eru lánseiningar hækkaðar upp í lágmarks námsframvindu en aldrei umfram það.
Barnsburður
- Foreldri á rétt á auknu svigrúmi í allt að 3 mánuði fyrir fæðingu vegna veikinda á meðgöngu ef hún hefur lokið fullnægjandi námsárangri á einu misseri síðustu tólf mánuði og sér fram á að geta haldið fullnægjandi námsárangri misserið eftir að hún þarf á undanþágunni að halda.
- Er þá heimilt að bæta allt að 16 ECTS-einingum í misseraskólum og 10 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar og lánsréttur þannig hækkaður upp í 22 ECTS-einingar á önninni.
- Námsmaður getur nýtt þetta svigrúm fram að 12 mánaða aldri barns en lánsréttur hjá sjóðnum eykst ekki.
Örorka
- Ef námsmaður getur ekki skilað lágmarksárangri vegna 75% örorku eða meira er heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum og 8 einingum í fjórðungaskólum við loknar einingar og lánsréttur þannig hækkaður upp í lágmarksárangur á önn.
Lesblinda og aðrir sértækir námsörðugleikar
- Geti námsmaður ekki lokið lágmarks námsframvindu vegna lesblindu eða annarra sértækra námsörðugleika er heimilt að veita undanþágu frá lágmarksárangri. Er þá heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum og 8 ECTS-einingum í fjórðungaskólum við námsárangur á önn og hækka þannig lánsrétt á önn upp í lágmarksárangur.
- Liggja þarf fyrir greining/vottorð um lesblindu eða sértæka námsörðugleika áður en undanþága er veitt auk upplýsinga um hvaða svigrúm skólinn veitir nemandanum.
Einingaskil við sérstakar aðstæður og námslok
- Námsmaður sem á einungis kost á að vera í 10 ECTS-eininga eða 20 ECTS-eininga kúrsum á tiltekinni önn getur fengið lán í samræmi við loknar einingar ef hann lýkur a.m.k 20 ECTS-einingum. Námsmaður þarf þó að vera skráður i 30 ECTS-einingar til loka annar.
- Námsmaður sem á ekki kost á að ljúka lágmarksárangri vegna skipulags náms eða mats á fyrra námi getur átt rétt á láni í hlutfalli við lokinn einingafjölda ef;
- Námsmanni stendur til boða að ljúka 15-21 ECTS-einingu á önn í misseraskóla eða 10-14 ECTS-einingum á önn í fjórðungaskóla
- og námsmaður lýkur öllum einingum á önninni sem honum standa til boða.
Mánaðar greiðslur
Menntasjóðurinn býður nú upp á mánaðarlegar útgreiðslur.LÍN greiðir út lán í lok annar, og hafa lántakar því þurft að brúa bilið fram að útborgun námslána, oft með bankalánum.
+ Hvernig virka mánaðarlegar útborganir lána?
Hægt er að velja að lán úr Menntasjóði námsmanna verði greitt út mánaðarlega, þó ekki strax í upphafi námsannar, heldur 1. okt, 1. feb og 1. júní. Í nýju kerfi er því möguleiki að sleppa því að taka bankalán í upphaf námsannar til þess að eiga fyrir útgjöldum fram að útborgun námsláns í lok annar.
Samkvæmt úthlutunarreglum 2020-2021 munu mánaðarlegar greiðslur hefjast
- október á haustönn (þá aftur 1. nóv, 1. des)
- febrúar á vorönn (og svo 1. mars, 1. apríl)
- júní á sumarönn
Það er einnig hægt að halda sér við fyrirkomulag LÍN, það er, að námslán séu greidd út í lok annar eftir að staðfesting á námsframvindu hefur borist lánasjóðnum.
+ Þarf ekki að skila námsárangri til að fá mánaðarlegar útborganir lána?
Nei, mánaðarlegar greiðslur berast námsmönnum áður en þeir skila inn námsárangri. Það er samt gerð krafa um að sýna fram á námsárangur í lok annar. Því er mikilvægt er að skoða og átta sig á hvað gerist við það að fá ofgreidd lán.
Frekari námsaðstoð er stöðvuð þar til meðferð á ofgreiddu láni er lokið.
Ef námsmaður hefur fengið mánaðarlegar greiðslur en uppfyllir svo ekki skilyrði sjóðsins um námsárangur, og uppfyllir ekki skilyrði um undanþágur, verður hann að endurgreiða lánið. Þá er samið um sérstakt sérstakt endurgreiðsluskuldabréf. Ef námsmaðurinn ætlar áfram að taka námslán er hægt að skuldajafna ofgreiðsluna, það er, að draga upphæðina sem hann skuldar frá láni næstu annar.
Breytilegir vextir
Vaxtafyrirkomulag námslana hafa tekið miklum breytingum frá LÍN með tilkomu Menntasjóðsins. Í stað fastra vaxta eru vextir námslana nú breytilegir.
+ Hvað eru breytilegir vextir?
Menntasjóðurinn býður upp á breytilega markaðsvexti. Vextir LÍN eru fastir, frá 1992 höfðu vextir af námslánum Lánasjóðsins verið fastir í 1% en vorið 2020 var tilkynnt að vextir yrðu lækkaðir í 0,4%.
Vextir lána úr Menntasjóðnum miðast við lægstu mögulegu vaxtakjör sem ríkissjóði býðst á hverjum tíma, að viðbættu 0,8% álagi sem standa á undir vanskilum sjóðsins. Í lögum Menntasjóðs er getið að verðtryggðir vextir fari þó aldrei yfir 4% og óverðtryggðir vextir fari aldrei yfir 9%.
Ef námsmaður er nú þegar að taka lán hjá Lánasjóðnum má hann halda áfram að taka lán samkvæmt skilmálum hans til næstu 7 ára.
Ekki er hægt að breyta skuldabréfi (láni) Lánasjóðsins í Menntasjóðsskuldabréf og fá 30% niðurfellingu af því láni. Eingöngu er hægt að hefja nýtt skuldabréf innan Menntasjóðsins til þess að fá 30% niðurfellingu.
Verðtryggt eða óverðtryggt lán
Nú gefst lántökum kostur á því að velja við námslok hvort lánið þeirra haldist verðtryggt, lán eru verðtryggð á námstíma, eða breyti láninu í óverðtryggt lán.
+ Hvort á ég að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán?
- Verðtryggt lán - meiri áhætta, bæði séns á hærri en möguleiki á lægri vöxtum
- Óverðtryggt lán - stöðugri vextir, en geta verið hærri vegna álags sem bankinn leggur ofaná
Verðtryggð lán eru bundinn verðbólgu. Á vefsíðu Seðlabankans er verðbólga skilgreind svona:
“Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er oftast mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs en sú vísitala mælir meðalverð vöru og þjónustu á markaði. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs og byggir það á reglubundnum könnunum á útgjöldum heimilanna í landinu.”
Ef verðbólgan yfir síðasta ár var 3%, þá kostar vara 103 krónur í dag sem kostaði 100 krónur fyrir ári síðan.
Verðtryggt lán tekur mið af verðbólgunni. Það þýðir að ef verðbólgan er 3% þá hækkar höfuðstóll lánsins þíns um 3% á ári. Á móti kemur að verðlagið á öllu hækkar um 3%, svo raunvirði lánsins helst í rauninni óbreytt. Með verðtryggðu láni ert þú sem lántaki að taka alla áhættu þegar kemur að verðbólguhorfum í landinu. Ef verðbólgan verður t.d. allt í einu 10%, þá hækkar lánið þitt um 10%.
Óverðtryggt lán breytist ekki með verðbólgu. Með óverðtryggði láni er það ekki lántakinn heldur bankinn sem tekur áhættu varðandi verðbólgu. Bankinn rukkar samt fyrir þessa áhættu, með auka prósentu sem byggir á spá um verðbólgu. Vextir á óverðtryggðum lánum eru almennt hærri en á verðtryggðum, en þeir eru stöðugri.
Tekjutenging eða fastar afborganir
Bæða LÍN og Menntasjóðurinn bjóða upp á tekjutengingu, þ.e. að afborganir ráðast af tekjum lántaka. Afborgunin skiptist þá í mánaðarlegar tekjutengdar afborganir og tvær fastar afborganir á ári. En Menntasjóðurinn býður nú upp á mánaðarlegar fastar afborganir, þ.e. að greiða alltaf sömu upphæð á mánuði, í stað tekjutegningar.
+ Tekjutenging? Hvað er það og á ég að fá mér svoleiðis?
Bæði Menntasjóðurinn og LÍN bjóða upp á tekjutengingu, þ.e. afborganir ráðast af tekjum lántaka. Tekjutengingin í Menntasjóðnum býðst aðeins þeim sem ljúka námi áður eða á því ári er 40 ára aldri.
Mánaðarleg tekjutengd afborgun er 0,3125% af tekjustofni lántaka, en tekjustofn eru heildarupphæð launa og tekna sem þú hefur fengið síðustu tvö ár. Svo hægt sé að reikna út tekjutengda afborgun hvers árs þarf Menntasjóðurinn að afla upplýsinga um tekjur lántaka frá ríkisskattstjóra.
Tekjutenging er hugsuð til þess að endurgreiðsla lánsins verði aldrei of mikil byrgði. Það getur samt tekið lengri tíma að borga niður lán með tekjutengingu, og þá hefur lánið lengri tíma til að safna vöxtum, og heildar upphæðin sem þú þarft að greiða verður á endanum hærri. Í stað tekjutengingar er einnig hægt að velja að greiða niður lánið með mánaðarlegum föstum afborgunum, sem má lesa um nánar í næsta lið.
+ Mánaðarlegar fastar afborganir? Hvað er það og á ég að fá mér svoleiðis?
Innan Menntasjóðsins geta lántakar valið hvort að þeir velji endurgreiða lán sitt sem jafngreiðslulán (þ.e. fastar mánaðarlegar afborganir) í stað þess að greiði af láni sínu tekjutengt. Ætla má að þeir lántakar sem greiði af lánum sínum sem jafngreiðslulán, greiði lán sín fyrr upp og því er heildarkostnaður lægri. Hins vegar gæti verið skynsamlegra að velja tekjutengingu og hafa afborganir tengdar tekjum lántaka. Það alltaf má greiða inn á höfuðstól lánsins ef lántakinn á efni á því að borga meira af láninu en gert var ráð fyrir með tekjutenginunni, og greiða þannig niður lánið á styttri tíma.
Afborgun
Afborgun láns frá Menntasjóðnum hefst fyrr en hjá LÍN, eitt ár eftir námslok í stað tveggja.
+ Hvenær byrja ég að borga af láninu og hvernig virkar afborgunin?
Afborgun lána hefst tveimur árum eftir námslok hjá Lánasjóðnum en einu ári eftir námslok hjá Menntasjóðnum. Í raun er kostur að byrja að greiða námslán niður fyrr, ef lántaki hefur tök á, þar sem lánið er þá ekki eins lengi að safna á sig vöxtum.
Afborganir skiptast í fastar afborganir og tekjutengdar afborganir.
Menntasjóður námsmanna býður nú upp á val um mánaðarlegar fastar afborganir, í stað þess að borga tvisvar á ári eins og hjá LÍN.
+ Ég er ekki tilbúinn að byrja að greiða niður lánið mitt. Get ég frestað því?
Hægt er að sækja um frestun á lokun skuldabréfs ef:
- Ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi, en sækir ekki lengur um námslán, getur viðkomandi sótt um frestun á lokun skuldabréfsins.
- Það má taka allt að eins árs námshlé og samt fresta lokun skuldabréfs, ef námsmaður uppfyllir kröfur um námsárangur eftir fyrstu önnina sem hann byrjar aftur í námi.
- Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs að hámarki í fjögur ár frá því að fyrsta aðstoð hjá sjóðnum var veitt. Til þess þarf námsmaður að leggja fram gögn sem sýna fram á að hann sé ennþá í námi og með lánshæfan árangur.
- Námsmaður í fullu lánshæfu námi, sem er byrjaður að greiða af eldri lánum, getur undir vissum kringumstæðum sótt um frest á afborgunum í allt að eitt ár í senn samkvæmt, grein 15.1 í úthlutunarreglunum.
Ekki er hægt að sækja um frestun á lokun skuldabréfs ef:
Námsmaður sem gerir hlé á námi í meira en eitt skólaár. Hefji viðkomandi aftur nám þarf að undirrita nýtt skuldabréf.
Sækja þarf um frestun á lokun skuldabréfs í síðasta lagi á fyrstu önn eftir árs námshlé.
+ Get ég frestað afborgunum?
Hægt er að sækja um frestun ef um er að ræða:
- Atvinnuleysi þar sem nemi er skráður á atvinnuleysisskrá og/eða í virkri atvinnuleit.
- Óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, sem fellur undir skilgreiningu um rétt til örorkulífeyris frá Tryggingastofnun.
- Þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lántaka.
- Umönnun barna eða maka sem hefur áhrif á möguleika umsækjanda til tekjuöflunar.
Nauðsynlegt er að sækja sérstaklega um undanþágu eigi síður en 60 dögum fyrir hvern gjalddaga.
Miðað er við að fjárhagserfiðleikar hafi varað í a.m.k fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar sem sótt er um undanþágu fyrir.
Skólaárið 2020 - 2021 er miðað við að ekki sé veittur frestur á afborgun ef árstekjur lántaka árið 2019 eru yfir kr. 4.470.000 og árstekjur hjóna/sambúðarfólks eru yfir kr. 8.940.000.
Ef lántaki er með börn undir 18 ára aldri á framfæri sínu þegar sótt er um undanþáguna bætast kr. 430,000 við viðmiðunartekjur lántaka við mat á undanþágu.