Lokadagur landsþings
Kosningar til embætta, yfirlýsing vegna undirfjármögnunar háskólastigsins og fleira var til umræðu á síðasta degi landsþings, 8. mars. Þingið fór fram í hátíðasal Háskólans á Akureyri þennan síðasta dag og var mikil eftirvænting í þinggestum fyrir kosningum.
Dagskráin hófst á samantekt úr vinnustofum helgarinnar en því næst voru önnur mál tekin fyrir. Steinunn Alda Gunnarsdóttir og Sólveig María Árnadóttir, þingfulltrúar Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA), byrjuðu þann dagskrárlið á því að óska eftir stuðningi landsþings við yfirlýsingu SHA um undirfjármögnun Háskólans á Akureyri. Eftir smávægilegar breytingar á yfirlýsingunni samþykkti landsþing einróma að styðja yfirlýsingu SHA.
Í kjölfarið flutti Jóna Þórey Pétursdóttir, þingfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), annað mál er laut að yfirlýsingu um undirfjármögnun háskólakerfisins í heild sinni. Landsþing samþykkti einróma að leggja fram yfirlýsinguna.
Eftir önnur mál var komið að því að tilnefna fulltrúa í fulltrúaráði LÍS. Flest félögin þurftu að biðja um frest vegna þess en tekið skal fram að landsþing var haldið óvenjulega snemma þetta árið.
Eftir hádegishlé var komið að kosningum í embætti framkvæmdastjórnar. Frambjóðendur kynntu sig fyrir þinggestum hver á eftir öðrum og fengu fjöldann allan af spurningum. Fóru kosningar loks þannig að Jóhanna Ásgeirsdóttir, núverandi alþjóðafulltrúi LÍS, hlaut kjör í embætti forseta samtakanna, Sylvía Lind J. Birkiland hlaut kjör í embætti alþjóðafulltrúa LÍS, Derek T. Allen hlaut kjör sem jafnréttisfulltrúi samtakanna, Indía Bríet Böðvarsdóttir Terry hlaut kjör í embætti gæðastjóra LÍS, Guðbjartur Karl Reynisson, núverandi markaðsstjóri LÍS, hlaut kjör í embætti markaðsstjóra samtakanna og Kolbrún Lára Kjartansdóttir hlaut kjör í embætti ritara samtakanna. Embætti varaforseta er enn ómannað og munu LÍS óska eftir framboðum í það embætti fljótlega.
Í kjölfar kosninga var staðsetning næsta landsþings rædd. Tillaga var lögð fyrir þingið um að næsta landsþing yrði haldið á Bifröst en lagt til að landsþingsnefnd myndi skoða aðra kosti fyrir landsþing 2022. Sú tillaga var einróma samþykkt.
Að lokum kom framkvæmdastjórn upp á svið og veitti forseta LÍS, Sigrúnu Jónsdóttur, þakklætisvott fyrir vel unnin störf. Sigrún þakkaði þinggestum fyrir helgina og fyrir þá öflugu rödd sem þeir ljá stúdentum á landsvísu með sinni vinnu.