Sanngjarnar endurgreiðslur
LÍS krefst breytinga á eftirfarandi lagagreinum sem snúa að endurgreiðslum á námslánum:
-
Afnema þarf aldursmark á tekjutengingu afborgana sem fram kemur í 1. mgr. 21. gr. laganna. Í þessu er fólgin mismunun gagnvart þeim sem ljúka námi síðar á lífsleiðinni. Yfirlýst markmið sjóðsins er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti. Ljóst er að ákvæðið takmarkar aðgengi að námi og grefur undan þeim félagslegu sjónarmiðum sem sjóðurinn byggir á.
Vakin hefur verið sérstök athygli á kynjaáhrifum tekjutengdra afborgana en í umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna kom fram að konur voru 69% háskólanema á aldursbilinu 31 til 40 ára árið 2017. Af þessu má vera ljóst að ákvæðið felur ekki aðeins í sér mismunun á grundvelli aldurs heldur einnig á grundvelli kyns. Til stóð að staða kvenna yrði könnuð við heildarendurskoðun laganna á sínum tíma. Við vinnslu á kröfum stúdenta var þó greiningu hvergi að finna. Ætla má hún hafi aldrei verið framkvæmd. LÍS kallar eftir því að slík könnun verði gerð samhliða yfirvofandi endurskoðun og einnig að staða annarra hópa sem ætla má að muni finna fyrir hækkaðri greiðslubyrði verði könnuð.
Þess má einnig geta að samkvæmt nýjustu launarannsókn Hagstofu Íslands var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 10,2% körlum í hag árið 2021. Þá voru konur með 25,5% lægri atvinnutekjur en karlar árið 2019. Það gefur augaleið að þetta verður til þess að ýta enn frekar undir þá mismunun sem ákvæðið felur í sér.
Í þessu samhengi er einnig vert að nefna að það liggur ekki alltaf ljóst fyrir hvenær nemandi kemur til með að ljúka námi sínu. Ef að nemandi lýkur námi á því námsári sem viðkomandi nær 35 ára aldri þá breytist lán viðkomandi sjálfkrafa í jafngreiðslulán. Þetta getur haft í för með sér mikla óvissu hvað varðar kjör og endurgreiðslubyrði námslána. LÍS krefst þess að lögunum verði breytt á þann veg að tekjutengdar afborganir standi öllum lántökum til boða óháð aldri.
-
Samkvæmt 20. gr. laga um Menntasjóð námsmanna skulu námslán almennt vera að fullu greidd á því ári sem lántaki nær 65 ára aldri. Í sömu grein kemur fram að hafi þau ekki verið að fullu greidd á því ári sem lántaki nær 66 ára aldri hefur sjóðstjórn heimild til að gjaldfella lánin. Ljóst er að það er ekki hátt hlutfall lántaka sem er ennþá að greiða af námslánum sínum á þessum aldri og líkur eru á að stór hluti þessa hóps hafi þurft á frestun á afborgunum að halda vegna aðstæðna sinna. Með öðrum orðum eru líkur á að stór hluti þess hóps sem heimildin nær til hafi ekki fjárhagslegt svigrúm til að standa straum af gjaldfellingu eftirstöðva lána sinna.
Í lögunum er heimildin auk þess mjög opin sem er varhugavert í ljósi þess um hve íþyngjandi aðgerð er að ræða. LÍS setur spurningamerki við það hvort að heimildin sé í samræmi við þau jafnréttissjónarmið sem sjóðurinn byggir á og krefst þess að hún verði afnumin úr lögum um Menntasjóð námsmanna.
-
Samkvæmt 20. gr. laga um Menntasjóð námsmanna hefur sjóðstjórn heimild til að afskrifa höfuðstól lántaka við sérstakar aðstæður. Ef lántaki hefur ekki greitt upp lán sitt á því ári sem hann nær 65 ára aldri og á í erfiðleikum með greiðslur af heilsufarsástæðum, sökum fjárhagsörðugleika eða af öðrum sambærilegum ástæðum hefur sjóðstjórn heimild til að afskrifa höfuðstól lánsins að hluta eða öllu leyti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
LÍS leggur til að heimild sjóðstjórnar til afskrifta verði víkkuð þannig að hún nái ekki aðeins til lántaka 66 ára og eldri. Stjórn sjóðsins ætti til að mynda að hafa heimild til að afskrifa lán, að hluta eða öllu leyti, vegna alvarlegra og varanlegra veikinda og varanlegrar örorku óháð aldri lántaka.
Þar að auki vill LÍS nýta þetta tækifæri til að benda á að samkvæmt lögum skal kveðið nánar á um framkvæmd og skilyrði afskrifta í úthlutunarreglum en í gildandi úthlutunarreglum er ekki að finna neinar nánari útfærslur á afskriftum lána frá sjóðnum.
-
Samkvæmt 19. gr. laga um Menntajsóð námsmanna skulu endurgreiðslur námslána hefjast einu ári eftir námslok. LÍS telur nauðsynlegt að lántökum sé gefið meira svigrúm fyrstu árin eftir námslok og leggur til að lántakar hafi val um hvenær á fyrstu tveimur árunum eftir námslok þeir hefji endurgreiðslur. Um námslán á vegum LÍN gildir að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok. Um námslán frá Menntasjóði námsmanna gildir hins vegar að endurgreiðslur hefjist einu ári eftir námslok. Ljóst er að fyrstu árin eftir námslok geta reynst fjárhagslega erfið, það getur tekið tíma að brúa bilið á milli náms og vinnu og koma undir sig fótunum að námi loknu. Þessi breyting hefur óhjákvæmilega í för með sér þyngri greiðslubyrði fyrir nýútskrifaða lántaka.
Samkvæmt heimasíðu norska lánasjóðsins geta lántakar frestað endurgreiðslum námslána 36 sinnum eða í allt að þrjú ár og ekki þarf að uppfylla nein sérstök skilyrði til að geta frestað greiðslum. Aukinn sveigjanleiki í anda norska kerfisins myndi auka fjárhagslegt öryggi þeirra sem sækja sér nám á námslánum og þar með auka aðgengi að námi. Þessi valkostur kann sérstaklega að vera fýsilegur fyrir þau sem gátu ekki klárað nám á réttum tíma af einhverjum ástæðum, hlutu ekki niðurfellingu og sitja því uppi með hærra lán en gert var ráð fyrir við upphaf náms.
-
LÍS krefst þess að fyrirkomulag um ábyrgðir og ábyrgðarmenn verði felld á brott. Samkvæmt 11. gr. laga um Menntasjóð námsmanna geta þau sem ekki teljast tryggir lántakar lagt fram ábyrgðir sem Menntasjóðurinn telur viðunandi. Geta ábyrgðir meðal annars verið fasteignaveð, ábyrgðaryfirlýsing fjármálastofnunar eða yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð og er það hlutverk sjóðstjórnar að ákveða hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja.
Ljóst er að ábyrgðarkerfið hamlar getu þeirra eignaminni til þess að stunda háskólanám og telja stúdentar að 11. grein laganna vinni gegn hlutverki Menntasjóðsins sem félagslegur jöfnunarsjóður. Háskólanám er eitt helsta afl til félagslegs hreyfanleika og ættu stjórnvöld því að greiða leið þeirra eignaminni að háskólanámi í stað þess að skapa þeim hindranir.