Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Hefjumst handa við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna

Þrátt fyrir nýlegar umbætur á Menntasjóði námsmanna er ljóst að íslenska námslánakerfið nær enn ekki markmiði sínu um að fjárfesta í framtíð þjóðarinnar. Enn er íslenskum háskólanemum gert að greiða markaðsvexti af lánum sínum, sem hefur í för með sér afar þunga greiðslubyrði. Nokkuð sem samræmist illa því hlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður, sem ætlað er að tryggja íslenskum stúdentum jöfn tækifæri til háskólamenntunar. Þó að ákveðnar lagfæringar hafi verið gerðar á lögum um sjóðinn er verkefninu ekki lokið. Heildarendurskoðun laganna stendur fyrir dyrum og mikilvægt er að hefja hana án frekari tafa. LÍS og BHM eru tilbúin í þá vinnu.

Afnemum vaxtaálagið

Við stofnun Menntasjóðs námsmanna var tekin sú umdeilda ákvörðun að færa áhættuna af vanskilum frá ríkinu yfir á lántakendur. Þeir bera nú ekki aðeins markaðsvexti, sem eru margfalt hærri en í hinu gamla LÍN-kerfi, heldur greiða einnig fyrir þau lán sem fara í vanskil. Það er gert með vaxtaálagi, sem hefur verið haldið föstu í hæstu hæðum (0,8% aukavextir) frá því nýja kerfið var innleitt. Þetta er eitt af því sem gerir MSNM-kerfið mun ósanngjarnara en eldra kerfi og eitt af því sem stjórnvöld verða að sýna vilja til að leiðrétta. Með því aðafnema vaxtaálagiðer hægt að tryggja að áhætta vegna vanskila bitni ekki á stúdentum.

Burt með 35 ára múrinn

Það er vert að skoða ákvæði laganna um þröskuldinn sem takmarkar möguleika til tekjutengingar endurgreiðslu lánanna. Aldurstakmark tekjutengingar endurgreiðslna mismunar þeim sem ljúka námi síðar á lífsleiðinni. Sem stendur er eingöngu möguleiki fyrir lántakendur að sækja um tekjutengdar afborganir ef þeir eru undir 35 ára aldri. Þetta fer ekki saman við þá staðreynd að meðalaldur íslenskra stúdenta er hærri en almennt gerist í Evrópu.

Sama gildir um skort á sveigjanleika gagnvart foreldrum í námi. Núverandi reglur gera ekki ráð fyrir töku fæðingarorlofs eða tímabundnu hléi til að sinna ungum börnum, sem getur leitt til þess að foreldrar missi lánshæfi eða námsstyrk. Þetta er óviðunandi og þarf að leiðrétta með hagsmuni foreldra í námi og barna þeirra að leiðarljósi.

Stuðningur í formi sveigjanleika

Til að tryggja jafnt aðgengi til náms og raunverulegan stuðning við stúdenta kalla LÍS og BHM eftir námslánakerfi sem tekur mið af fjölbreyttum aðstæðum íslenskra stúdenta. Námsstyrkur við útskrift á að vera hvati til þess að klára háskólanám á réttum tíma, en án svigrúms er það einfaldlega refsing fyrir þau sem standa hallari fæti efnahagslega og foreldra í námi.

Að lokum krefjumst við þess að fyrirkomulagið um lán fyrir loknum einingum sé endurskoðað. Ef stúdentar ná ekki að klára lágmarkseiningafjölda, sem er í dag 22 ECTS, ber þeim að endurgreiða strax lán annarinnar - þó að um sé að ræða lán með markaðsvöxtum. Hægt væri að taka norska styrkjakerfið til fyrirmyndar, en þar fá stúdentar lánað fyrir skráðum einingum. Ef lágmarksnámsárangri er ekki náð fær viðkomandi samt lánið en missir rétt á námsstyrk þá önnina, í stað þess að vera refsað með reikningi upp á hálfa milljón.

Fjárfesting í fólki

Námslánakerfið á að vera fjárfesting í framtíð þjóðarinnar. Til þess að svo megi verða þarf að breyta nokkrum mikilvægum atriðum; létta endurgreiðslubyrði með lægra vaxtastigi, afnema vaxtaálagið, auka sveigjanleika og tryggja að kerfið geti brugðist við óvæntum atburðum í lífi stúdenta meðan á námstíma stendur. Eins er mikilvægt að auka hlut námsstyrkja í kerfinu og endurskoða aldurstengdar hindranir. Þetta myndi tryggja að sjóðurinn standi undir félagslegu hlutverki sínu og opni fólki leið að háskólamenntun án þess að það þurfi að leggja lífsafkomu sína að veði.

Með þetta að leiðarljósi eru LÍS og BHM til í vinnuna við frekari endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM.

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 14. nóvember 2025.

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

LÍS rannsakar áhrif nýja námslánakerfisins í samstarfi við BHM

Gunnar Alexander Ólafsson, formaður Lífeyris- og lánanefndar BHM, og Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS

Lífeyris- og lánanefnd BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta hafa gert með sér verksamning um samstarf við greiningu á áhrifum lagabreytinga sem tóku gildi árið 2020 með lögum um Menntasjóð námsmanna.

Markmið verkefnisins er að aflta traustra gagna og nákvæmari upplýsinga um stöðu og kjör námsmanna, auk þess að leggja mat á áhrif nýja námslánakerfisins á fjárhagsstöðu, námsframvindu og aðgengi stúdenta að vinnumarkaði.

Greiningin mun meðal annars fjalla um:

  • áhrif 30% niðurfellingar út frá félagslegum og efnahagslegum aðstæðum,

  • áhrif kynbundins launamunar, fjölskylduábyrgðar og brotakennds starfsferils á endurgreiðslu námslána,

  • stöðu þeirra sem ekki teljast lánshæfir eða uppfylla skilyrði fyrir undanþágum,

  • og samanburð við stöðu og réttindi stúdenta á Norðurlöndum og í Evrópu.

Ráðinn verður sérfræðingur til að vinna hagfræðilega greiningu og skýrslu um niðurstöðurnar. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við BHM og LÍS og byggir á fyrirliggjandi gögnum, meðal annars frá Menntasjóði námsmanna, Hagstofu Íslands, skattyfirvöldum og sameiginlegum könnunum BHM og LÍS á lífskjörum stúdenta. Niðurstöður verða kynntar á opnum fundi á vegum BHM og LÍS vorið 2026.

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Bætt staða stúdenta - en verkefninu ekki lokið

Landssamtök íslenskra stúdenta - LÍS og BHM - Bandalag háskólamenntaðra fagna því að Alþingi skuli loksins hafa tekið ákveðin skref í að lagfæra alvarlega galla á íslenska námslánakerfinu með samþykkt laga nr. 253/2025. Landssamtök íslenskra stúdenta hafa um árabil kallað eftir þessum breytingum, og urðu satt að segja fyrir vonbrigðum í vor er leið, þegar málþóf um veiðigjöld kom í veg fyrir að þetta mikilvæga frumvarp yrði tekið til afgreiðslu. En nú er því fagnað að málið skuli vera í höfn, því breytingarnar munu bæta stöðu fjölda námsmanna og greiðenda námslána.

Minni greiðslubyrði og aukinn sveigjanleiki

Helstu breytingar eru þær að niðurfelling námslána verður nú 20% í lok hverrar annar og 10% við námslok, í stað 30% niðurfellingar við námslok. Niðurfelling í lok hverrar annar þýðir að stuðningur við námsmenn nær til breiðari hóps og ekki þarf lengur að krossa fingur og vona að ekkert komi fyrir á námstímanum, sem sett gæti áætlanir um námsframvindu í uppnám.

Breytingarnar skipta líka miklu fyrir þau sem eru bæði með LÍN-lánin svokölluðu (námslán fyrir árið 2020) og MSNM-lán (námslán eftir árið 2020), því nú verður hægt að sækja um að greiða af einu láni í einu, sem ekki hefur verið hægt til þessa. Þannig verður hægt að ljúka fyrst við að greiða nýja lánið (MSNM) og taka svo til við að greiða LÍN-lánið. Þetta mun létta greiðslubyrði þeirra sem tekið hafa lán úr báðum kerfum til muna.

Að lokum verður tíminn frá útskrift og þar til endurgreiðslur hefjast lengdur, úr einu ári í 18 mánuði. Það léttir fjárhagslegar byrðar nýútskrifaðra og gefur þeim aukið svigrúm meðan þau eru að fóta sig á vinnumarkaði.

Ofantaldar breytingar munu hafa virkilega jákvæð áhrif á líf námsmanna og ungs fólks sem stendur á mikilvægum tímamótum í lífi sínu. Þau eru að hefja feril sinn í því fagi sem þau hafa valið sér að ævistarfi og mörg eru á sama tíma að stofna fjölskyldu og koma sér upp þaki yfir höfuðið. Breytingarnar eru jafnframt í takt við þau markmið sem Landssamtök íslenskra stúdenta hafa barist fyrir svo árum skiptir; jafnara aðgengi að námi, fyrirsjáanleika og réttlátara námslánakerfi sem uppfyllir hlutverk sitt sem félagslegt jöfnunartæki.

Markaðsvæddur banki eða félagslegur jöfnunarsjóður?

Þrátt fyrir að lögin feli í sér breytingar til hins betra er mikilvægt að horfast í augu við að námslánakerfið versnaði í raun við breytinguna úr LÍN- í MSNM-kerfi. Þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa lánin versnað frá einni kynslóð til annarrar. Þegar Menntasjóður námsmanna var stofnaður árið 2020 var dregið úr beinum stuðningi ríkisins við námsmenn og sjóðurinn færður nær því að starfa eftir markaðsforsendum. Nú, fimm árum síðar, sjáum við að það voru alvarleg mistök. Á sama tíma hefur fjárfesting í ungu fólki sem vill afla sér háskólamenntunar dregist saman, eins og ný skýrsla sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir BHM leiðir í ljós.

Þó að nýsamþykktar breytingar á Menntasjóði feli vissulega í sér meiri fyrirsjáanleika um vaxtakjör er áfram lögð áhersla á að sjóðurinn standi undir skuldbindingum sínum. Þannig er enn gert ráð fyrir að námsmenn beri áhættuálag, sem ætlað er að standa undir kostnaði við vanskil í sjóðnum. Fram til ársins 2020 bar ríkissjóður þá ábyrgð, en með tilkomu Menntasjóðs námsmanna færðist áhættan frá samfélaginu og yfir á einstaklinginn. Þegar allt kemur til alls þá bera stúdentar dagsins í dag markaðsvexti af námslánum sínum og greiða þannig margfalt hærri vextien nokkurn tímann áður.

Það fer illa saman að reka sjóðinn eins og hann sé banki þegar lögin segja að hann eigi að vera félagslegur jöfnunarsjóður.

Horft til framtíðar

Þrátt fyrir jákvæðar breytingar þingsins á námslánakerfinu er ljóst að verkefninu er langt í frá lokið. Frekari endurskoðun laganna bíður og er áríðandi að henni verði hraðað. LÍS hafa átt í virku samtali við ráðuneyti háskólamála og hafa ástæðu til að treysta orðum ráðherra sem hefur sett málið í forgang. Það er því von okkar að nýtt frumvarp verði lagt fyrir þingið eigi síðar en næsta haust, þar sem tekið verður á grundvallaratriðum er varða sanngjörn vaxtakjör, fjárfestingu í ungu fólki og námslán sem uppfylla hlutverk sitt með því að tryggja jafnara aðgengi að háskólanámi.

LÍS og BHM líta svo á að nýju lögin séu áfangi en ekki endastöð. Í sameiningu höldum við áfram að vinna að því með stjórnvöldum að námslánakerfið verði í reynd það sem það á að vera: fjárfesting í ungu fólki, menntastigi og framtíðarlífsgæðum þjóðar. Því hver vill að námslánakerfið sé stúdentum fjötur um fót þegar lagt er af stað út í lífið og fyrstu sporin stigin inn á íslenskan vinnumarkað?

Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 4. nóvember 2025

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Breytingar til hins betra á íslenskum námslánum

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem taka gildi 1. apríl 2026. Breytingarnar fela í sér jákvæð skref í átt að sanngjarnara og sveigjanlegra námslánakerfi sem nýtist breiðari hópi stúdenta og veitir meira svigrúm að námi loknu.

Niðurfelling sem nýtist fleirum

Í stað þess að fá 30% niðurfellingu í lok náms munu stúdentar fá 20% niðurfellingu í lok hverrar annar og 10% aukalega við námslok, að því gefnu að námi sé lokið á réttum tíma. Þessi breyting gerir kerfið sveigjanlegra og tryggir að fleiri stúdentar njóti góðs af niðurfellingunni.

Meira svigrúm eftir útskrift

Frá og með 1. apríl 2026 munu afborganir námslána hefjast 18 mánuðum eftir útskrift, í stað 12 mánaða líkt og áður. Þetta veitir nýútskrifuðum stúdentum meira svigrúm til að fóta sig á vinnumarkaði áður en afborganir námslána hefjast.

Einfalt greiðslufyrirkomulag

Þeir sem eru bæði með LÍN-lán og MSNM-lán geta framvegis sótt um að greiða af einu láni í einu, fyrst MSNM-lánið og síðan LÍN-lánið. Með þessu minnkar greiðslubyrði þeirra sem bera ábyrgð á lánum í báðum kerfum.

LÍS fagnar þessum breytingum og lítur á þær sem mikilvægt skref í þá átt að tryggja að námslánakerfið endurspegli betur raunveruleika stúdenta og fjölbreyttar aðstæður þeirra.

Ef spurningar vakna um breytingarnar eða framkvæmd þeirra er hægt að senda fyrirspurn á lis@studentar.is eða með fyrirspurnarforminu á studentar.is (neðst á forsíðu).

Read More
Framkvæmdastjóri LÍS . Framkvæmdastjóri LÍS .

Ættu konur að fara í háskólanám?

Konur á Íslandi mennta sig meira en nokkru sinni fyrr, en fá samt minnst út úr menntun sinni.

Ávinningur af háskólanámi hefur aldrei verið minni, og það er sérstaklega áberandi hjá ungum konum.

Samkvæmt nýjustu gögnum BHM og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þéna háskólamenntaðar konur að jafnaði á við karla með stúdentspróf. Árið 2022 fengu konur að meðaltali 83 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem karlar fengu. Launamunurinn byrjar snemma og eykst með aldrinum, úr 16% hjá ungu fólki í 26% þegar líður á starfsævina. Þetta hefur bein áhrif á lífsgæði, lífeyrisréttindi og efnahagslegt sjálfstæði kvenna.

Á sama tíma hefur ávinningur af háskólanámi dregist saman um nær 40% á síðustu fimmtán árum. Fyrir yngstu hópana, 25–34 ára, hefur hann minnkað úr 48% niður í 21%. Það þýðir að unga kynslóðin fær nú aðeins helming þess ávinnings sem foreldrar þeirra nutu á sínum tíma.

Þó hlutfallslegur ávinningur virðist hærri hjá konum (28%) en körlum (19%), er það blekking. Hann endurspeglar ekki raunverulegan launamun heldur lágar tekjur kvenna almennt. Háskólamenntaðar konur eru í raun með svipuð laun og karlar sem hafa aðeins lokið framhaldsskóla. Í stuttu máli: konur mennta sig mest, en virði menntunar þeirra er minnst.

Þær eru í miklum meirihluta háskólanema (58% á móti 31% körlum) og bera uppi störf sem halda samfélaginu gangandi – í heilbrigðisþjónustu, kennslu og umönnun – en fá samt sífellt minna greitt fyrir meiri ábyrgð og menntun.

Þróunin er ekki aðeins óréttlát, hún er hættuleg. Hún sendir skýr skilaboð til ungra kvenna: að fjárfesting í eigin menntun borgi sig síður en áður. Að samfélagið umbuni hvorki vinnu þeirra né þekkingu. Þegar konur eru í meirihluta í háskólum, í velferðarkerfinu og í opinbera geiranum lækkar ávinningurinn. Það er ekki vegna þess að menntun er minna virði, heldur vegna þess að samfélagið metur kvennastörf minna.

Til þess er Kvennaverkfall. Ekki vegna þess að við erum að krefjast sætis við borðið - við erum með sæti við borðið þökk sé skörungunum sem ruddu veginn fyrir fimmtíu árum síðan. Í ár förum við í kvennaverkfall því við krefjumst þess að vinnandi konur búi ekki við kynjaðan launamismun og að menntun þeirra sé ekki gjaldfelld. Við krefjumst þess að mikilvægi kvenna sem vinnandi samfélagsþegna sjáist hvað launakjör varðar, og að lykilgreinar sem nú einkennast af meirihluta kvenna séu ekki gjaldfelldar. Við krefjumst þess að konur þurfi ekki að veigra sér við háskólanámi fyrir dæmigerð kvennastörf því þær vita að launin þeirra muni ekki endurspegla ólaunaða starfnámið, álagið sem fylgdi láglaunastarfinu sem þær vinna til að eiga efni á námi sínu og jafnvel móðir, eða ábyrgðina sem fylgir sérfræðimenntun þeirra og starfi að námi loknu.

Við krefjumst þess að fólkið sem kennir börnunum okkar, unglingunum okkar og stúdentunum sem vilja verða sérfræðingar á sínu sviði fái vinnuframlag sitt, sérfræðiþekkingu og ábyrgð metna að verðleikum. Við krefjumst þess að fólkið sem hjúkrar sjúklingum og axlar ábyrgð langt umfram vinnuskyldu á deildum spítala fái sanngjörn laun fyrir það mikilvæga starf sem það vinnur í þágu velferðarsamfélags okkar. Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir lykilstörf sem sinnt er af miklum meirihluta af konum í samfélaginu okkar, en meginstefið er: Við krefjumst þess að svokallaðar kvennastéttir fái raunverulegt virði framlags síns metið. Ekki bara með fögrum þakkarorðum og loforðum heldur með beinhörðum peningum.

Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Íris Björk Ágústsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 24. október 2025

Read More