Setjum endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna í forgang
Ímyndum okkur stúdent sem er í háskólanámi, vinnur hlutastarf samhliða námi, á barn eða tvö og reynir að ná endum saman. Námslánið dugar ekki til framfærslu því stúdentinn býr í leiguhúsnæði og því nauðsynlegt að afla aukinna tekna. Afleiðingin er aukið álag og minni tími til að sinna náminu. Markmiðið um að ljúka náminu á tilsettum tíma fjarlægist. Vonin um námsstyrk verður að engu og 9% vextirnir á námslánunum hlaðast upp. Stúdentinn klárar loks námið og heldur verulega skuldsettur út á vinnumarkað. Tilhlökkunin við hefja starfsferil í draumastarfinu litast af fjárhagsáhyggjum því árlega fara meira en heil mánaðarlaun í að greiða niður námslánin. Mörg þekkjum við vankanta gamla LÍN-kerfisins, en nýja MSNM-kerfið er enn verra.
Þetta er ekki jaðardæmi, heldur raunveruleiki íslenskra háskólanema. Opinbera námslánakerfinu er ætlað að jafna tækifæri til náms og vera fjárfesting í framtíðarþekkingu þjóðarinnar. Það er hins vegar ekki raunin því ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna vinna gegn þessum markmiðum. Þó gagnlegar breytingar hafi verið gerðar á lögunum á síðasta haustþingi er brýnt að stíga skrefið til fulls og ljúka vinnunni við heildarendurskoðun þeirra.
Kerfi sem á að vera fjárfesting, en er orðið byrði
Í lögum um Menntasjóð námsmanna frá 2020 er sjóðurinn skilgreindur sem félagslegur jöfnunarsjóður. Hugmyndin er einföld og markmiðið göfugt; allir sem hafa getu til þurfa að eiga þess kost að stunda háskólanám óháð efnahag. En í reynd er kerfið orðið þannig að of margir stúdentar upplifa það ekki sem stuðning, heldur sem hindrun.
Þegar lán duga ekki til framfærslu neyðast stúdentar til að vinna meira. Þegar þeir vinna meira hafa þeir minni tíma og orku til að stunda námið. Námstíminn lengist og niðurfelling í lok náms (sem á að vera hvati til að klára námið fyrr) gengur ekki eftir. Námslánafyrirkomulagið verður því ekki hvati til að klára nám á réttum tíma, heldur vítahringur. Þess vegna hafa LÍS og BHM ráðist í rannsókn á afleiðingum námslánakerfisins frá 2020 og munu kunngjöra niðurstöður á vormánuðum. Ljóst er að sú vinna mun nýtast við endurbætur á kerfinu.
Samanburður við Evrópu og mikilvægi sveigjanleika
Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir ákveðinni hugmynd um „hefðbundinn“ stúdent: Ungur, barnlaus, heilsuhraustur, í fullu námi, með sveigjanlegan tíma og litla aðra ábyrgð en að stunda námið. En raunveruleiki íslenskra stúdenta er allt annar. Skoðum samanburð við stúdenta í Evrópu; þriðjungur íslenskra stúdenta eru foreldrar í námi, sem er hæsta hlutfall í Evrópu, þeir vinna mest allra, taka lengri námshlé og meðalaldur þeirra er sá hæsti í Evrópu.
Félagslegur jöfnunarsjóður þarf að taka mið af þessum staðreyndum og koma til móts við þær. Besta leiðin til þess er aukinn sveigjanleiki í kerfinu. Nú þurfa stúdentar að vera í að minnsta kosti 75% námi til að uppfylla skilyrði fyrir námslánum. Það þarf lítið út af að bregða (veikindi, álag vegna vinnu, veikindi barns) til að fólk missi réttinn til náms. Því bitna ósveigjanlegar reglur kerfisins misjafnlega á fólki. Sumir hópar þurfa meiri sveigjanleika en aðrir, t.d. foreldrar í námi, fólk með fötlun og stúdentar með aðrar sértækar þarfir. Stuðningur við stúdenta í þeirri stöðu gæti falist í undanþágum frá stífum kröfum um námsframvindu, auknu aðgengi fatlaðs fólks að námslánum og úrræðum sem taka mið af raunverulegum aðstæðum.
Hvað þarf að breytast?
Ef námslánakerfið á að vera raunveruleg fjárfesting í framtíðarþekkingu þjóðarinnar, þarf það að uppfylla hlutverk sitt sem jöfnunartæki. Til að svo megi verða hafa BHM og LÍS lagt áherslu á tilteknar breytingar á lagaumhverfinu, sem mikilvægt er að verði skoðaðar á vettvangi stjórnvalda.
Draga úr skuldabyrði
Lægra vaxtastig en nú er, verðtryggð námslán bera allt að 4% vexti, óverðtryggð allt að 9%.
Afnám 0,8% vaxtaálags fyrir lántakendur vegna vanskilakostnaðar.
Auka raunverulegan stuðning
Hærra hlutfall námsstyrkja.
Betri stuðning við foreldra í námi.
Auka sveigjanleika og sanngirni
Lán fyrir skráðum einingum með skilyrðum.
Rýmri reglur um námsframvindu og lánshæfi fólks í a.m.k. 50% námi.
Framfærsla sem fylgir verðlagsbreytingum og húsnæðiskostnaði.
Fjárfestum í framtíðinni
Til þess að hvetja fólk til að sækja sér menntun og komast fyrr út í atvinnulífið með eftirsóknarverða fagþekkingu þarf að vera til staðar stuðningur sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum stúdenta. LÍS og BHM eru tilbúin til samstarfs við stjórnvöld um lagfæringar á námslánakerfinu og hafa þegar lagt fram tillögur með það að markmiði að fullbúið frumvarp verði lagt fyrir Alþingi í upphafi haustþings 2026. Við höfum ríka ástæðu til að ætla að þetta sé í samræmi við vilja ráðherra háskólamála. Framtíðarlífsgæði þjóðarinnar eru undir.
Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir forseti LÍS (Landssamtaka íslenskra stúdenta) og Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM.
Annáll alþjóðafulltrúa 2025
Alþjóðamál eru mikilvægur hluti af starfsemi LÍS og sækir alþjóðafulltrúi LÍS hina ýmsu fundi og ráðstefnur á ári hverju. LÍS eiga aðild að þremur alþjóðlegum samstarfsvettvöngum, en þeir eru European Students’ Union (ESU), Nordisk Ordförande Møte (NOM) og The North Atlantic Island Student Cooperation (NAIS). ESU eru regnhlífarsamtök evrópskra stúdentahreyfinga og samanstanda af 44 aðildarfélögum frá 40 Evrópulöndum. NOM er samráðsvettvangur fyrir stúdentafélög á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjum en þennan samráðsvettvang stúdenta á Norðurlöndunum má rekja allt til ársins 1946, en árið 2006 bættust Eystrasaltsríkin við þennan vettvang og í dag er NOM í forsvari fyrir rúmlega milljón stúdenta. NAIS er samráðsvettvangur eyríkja í Norður-Atlantshafi og eru aðildarfélög þess AVALAK (Samtök grænlenskra stúdenta í Danmörku), ILI ILI (Landssamtök stúdenta á Grænlandi), LÍS og MFS (Samtök færeyskra stúdenta). Fyrsti fundur NAIS var haldinn árið 2019 og er markmið þessa vettvangs að styrkja háskólamenntun á norðurslóðum.
Fulltrúar LÍS sóttu eftirfarandi fundi og ráðstefnur árið 2025:
ESC 49 - Galway
Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi LÍS, sótti 49. European Student Convention sem haldin var í Galway í febrúar og voru gestgjafar og skipuleggjendur AMLÉ (Landssamtök írskra stúdenta). Þema ráðstefnunnar var „Gæði í háskólanámi“. ESC er hluti af starfi ESU og því sækja flest aðildarfélög þess þessar ráðstefnur. Haldnir eru fyrirlestrar, tengslamyndunarviðburðir, og einkennast ráðstefnurnar af fjölbreyttri fræðslu og umræðum en einnig á sér stað undirbúningsvinna fyrir stjórnarfundi ESU sem haldnir eru að vori og hausti.
NOM85 - Tórshavn
86. NOM-fundurinn var haldinn í Tórshavn í Færeyjum og voru skipuleggjendur og gestgjafar MFS (Félag færeyskra stúdenta), en fulltrúi LÍS var Þóra Margrét alþjóðafulltrúi. Fulltrúar stúdentafélaga frá Norður- og Eystrasaltsríkjum komu saman og ræddu hin ýmsu mál. Þema þessa NOM fundar var „Áhrif heilaflótta (e. brain drain) á smærri samfélög og afskekktar byggðir“ og „Áhrif Erasmus+ á alþjóðlegt samstarf innan háskólastigs“. Bæði þessi málefni eru mikilvæg fyrir færeyska stúdenta, en stúdentar við Háskólann í Færeyjum hafa ekki aðgang að Erasmus+. Þetta hefur víðtæk áhrif á möguleika þeirra til skiptináms. Heilaflótti er einnig mikilvægt málefni fyrir Færeyjar, sérstaklega í ljósi þess að mikið af ungu fólki fer erlendis í nám, stærstur hluti þeirra til Danmerkur eða annarra Norðurlanda, og um 40% snúa ekki til baka að námi loknu. Hvert félag hélt kynningu um heilaflótta í samhengi við heimaland sitt og einnig var vinnustofa haldin um málefnið.
Kynning LÍS fjallaði um heilaflótta frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar vegna skerts aðgengis að æðri menntun á landsbyggðinni, en einnig um mikilvægi háskólastofnana utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig fjallaði fulltrúi LÍS um hve mikilvægt aðgengi að fjarnámi væri fyrir fólk í minni byggðarlögum. Hópurinn heimsótti Mennta- og barnamálaráðuneytið þar sem færeyska menntunarkerfið var kynnt. Einnig var farið í hús borgarstjórnar og rætt við Elsu Berg, bæjarstjóra Færeyja, og hélt hún kynningu um hvernig tekist hefði að byggja Tórshavn upp sem háskólabæ.
BM89 - Banja Luka
Þann 12. - 18. maí héldu fulltrúar LÍS á 89. stjórnarfund ESU. Fulltrúar LÍS voru Lilja Margrét, gæðastjóri, Lísa Margrét, forseti, og Þóra Margrét, alþjóðafulltrúi. Stjórnarfundir ESU, eða BM (Board Meeting), eru haldnir tvisvar sinnum á ári og fer þar fram ýmis konar vinna. Þar móta aðildarfélög starf og stefnu ESU, vinnuáætlun ársins, leggja fram og samþykkja ályktanir og samþykkja yfirlýsingar, ásamt öðrum málefnum. Á stjórnarfundum sem haldnir eru að vori er svo einnig kosið í nýja framkvæmdarstjórn, en hún samanstendur af forseta, tveimur varaforsetum og 7 aðilum sem einnig sitja í framkvæmdastjórn.
Stjórnarfundurinn var að þessu sinni haldinn í Banja Luka í Bosníu & Hersegóvínu. Sjálfur stjórnarfundurinn stendur yfir í þrjá daga, en tveir dagar fyrir fundinn eru nýttir í ýmsa fyrirlestra og málstofur ásamt pallborðsumræðum. Einnig er farið yfir gögn fyrir fundinn sjálfan. Á stjórnarfundinum sjálfum var kosið í nýja framkvæmdastjórn. Einnig voru samþykktar yfirlýsingar ESU. Þær voru Yfirlýsing um starfsmenntun og starfsþjálfun, Yfirlýsing um réttindi og þátttöku fatlaðra nemenda, Yfirlýsing vegna bylgju nemendamótmæla í Evrópu og Yfirlýsing um innleiðingu Evrópska einingakerfisins (ECTS). Hægt er að lesa yfirlýsingarnar inn á vefsíðu ESU: BM89 Resolutions and Statements - European Students' Union. Einnig voru samþykktar hinar ýmsu ályktanir sem aðildarfélög lögðu fram. Að auki var verkáætlun fyrir komandi starfsárs ákveðin.
ESC50 - Barcelos
Lísa Margrét, forseti LÍS, sótti 50. ráðstefnu ESC sem haldin var í Barcelos, Portúgal. Gestgjafar og skipuleggjendur voru FAIRe (Landssamtök stúdenta í Portúgal). Þemað var „Nemendur móta framtíð Evrópu: Barátta fyrir eflingu Erasmus+ í langtíma fjárhagsáætlun ESB (e. Multiannual Financial Framework/MFF) 2028–2034“. ESU leggur mikla áherslu á Erasmus+ í sinni vinnu og hagsmunabaráttu, enda er aðgengi að Erasmus+ hornsteinn hreyfanleika stúdenta og hefur milljónum stúdenta verið kleift að stunda nám, starfsþjálfun, sjálfboðaliðastörf og vinnu erlendis. Þar sem stúdentar eru stærstu hagaðilar að Erasmus+ leggur ESU mikið upp úr því að rödd þeirra og skoðanir fái að heyrast þegar móta á framtíð Erasmus+.
NOM87 - Osló
87. NOM fundurinn fór fram í Osló í október og var Lilja Margrét gæðastjóri fulltrúi LÍS á fundinum. NSO (Landssamtök stúdenta í Noregi) voru gestgjafar og skipuleggjendur. Þemað að þessu sinni var „Háskólamenntun sem félagsleg sjálfbærni í Evrópu á tímum viðbúnaðar vegna neyðarástands“. Þemað var valið með það til hliðsjónar hvernig pólitískt umhverfi hefur verið að þróast, og er þetta málefni sérstaklega mikilvægt fyrir Eystrasaltsríkin. Á NOM fundinum sjálfum var samþykkt sameiginleg ályktun sem var byggð á þema helgarinnar og einnig voru samþykktar tvær ályktanir frá LÍS. Þær eru „Aðkoma nemenda að sameiningum háskólastofnanna“ og “Landssamtök íslenskra stúdenta mótmæla fyrirhugaðri hækkun skrásetningargjalda í háskólum“. Lesa má þær á studentar.is undir Upplýsingar og réttindagæsla → Stefnur, yfirlýsingar og umsagnir.
NAIS6 - Tórshavn
6. fundur NAIS samstarfsins var haldinn í Tórshavn í Færeyjum í október og voru skipuleggjendur MFS (Samtök færeyskra stúdenta). Gestir voru AVALAK (Samtök grænlenskra stúdenta í Danmörku), ILI ILI (Landssamtök stúdenta á Grænlandi) og LÍS. Þema fundarins var „Tækifæri til náms á eyjum Norður-Atlantshafs“. Vel var við hæfi að halda þennan 6. NAIS fund í Færeyjum þar sem þar er eitt minnsta háskólaumhverfi í Evrópu, en í Færeyjum er einn háskóli og nokkur þúsund nemendur.
Yfir helgina var meðal annars haldin kynning á ESU og NOM, en aðeins MFS og LÍS eru aðildarfélög að þessum vettvöngum. Haldin var kynning á nýju háskólagörðunum sem á að byggja í Tórshavn. Að lokum voru skipulagðar vinnustofur um NAIS samstarfið og áherslur þess, og hvert félag hélt kynningu sem innihélt meðal annars upplýsingar um sitt stúdentafélag, háskólamenntun í heimalandinu, helstu tækifæri og hindranir í háskólamenntun í heimalandinu og raunveruleiki nemenda út á landsbyggðinni og afskekktum byggðarlögum.
BM90 - Vín
90. Stjórnarfundur ESU var haldin í Vín í desember og voru fulltrúarnir Lísa Margrét, forseti LÍS, og Abdullah Arif, meðlimur alþjóðanefndar. Skipuleggjendur og gestgjafar voru ÖH (Landssamtök stúdenta í Austurríki). Á fundinum var samþykkt uppfærð gæðastefna ESU, yfirlýsing um menntun til virkrar borgaraþátttöku, yfirlýsing um örnámskeið (e. Blended intensive program) og fjölmargar yfirlýsingar frá aðildarfélögum.
LÍS lagði fram þrjár ályktanir sem báðar voru samþykktar einróma; ályktun um aðkomu nemenda að sameiningu háskólastofnana, en lesa má hana á vefsíðu ESU: Resolution on Student Participation in Higher Education Institution Mergers - European Students' Union.
Einnig lagði LÍS fram ályktun um verndun réttinda nemenda utan EES ásamt öðrum stúdentafélögum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, en ályktunina má lesa hér: Resolution on protecting non-EU/EEA international students’ rights in Northern Europe - European Students' Union. Að lokum lagði LÍS, ásamt öðrum stúdentafélögum, fram ályktun um aðgengi palestínskra nemenda að námi, en ályktunina má lesa í heild sinni hér: Easing visa-based access to studies abroad for Palestinian students - European Students' Union. Fulltúar LÍS eru ánægðir með framvindu stjórnarfundarins, en fundirnir eru mikilvægur liður í starfi ESU og til tengslamyndunar við aðrar stúdentahreyfingar.
Hver á nektarmynd af þér?
Árið 2021 urðu ákveðin tímamót þegar Alþingi samþykkti samhljóða frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og stafrænt kynferðisofbeldi var gert refsivert hér á landi. En þó tímabær væri hefur löggjöfin síðan þá ekki getað haldið í við hraða tækninnar.
Internetið hefur opnað á óendanlegar leiðir til tengsla, tjáningar og efnisdreifingar, og á sama tíma orðið frjósamur jarðvegur fyrir kynbundið ofbeldi. Með tilkomu gervigreindar og djúpfölsunar (e. deepfake) hefur stafrænt ofbeldi stökkbreyst úr því að felast í hefndarklámi og dreifingu á efni án leyfis og tekið á sig nýja mynd. Í dag getur fólk dreift myndum sem voru aldrei til - sem nú er hægt að búa til.
Samkvæmt UN Women skortir 1,8 milljarða kvenna og stúlkna lagalega vernd gegn stafrænu áreiti og öðrum tegundum af tæknitengdu ofbeldi. Þess vegna hafa félagasamtök og hagsmunaöfl tekið höndum saman og efnt til 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi með áherslu á stafrænt kynferðisofbeldi.
Gervigreind og djúpfölsun hefur gert gerendum kleift að beita nýjum aðferðum; gerast stafrænir eltihrellar, áreita og beita hótunum um nauðgun, ofbeldi og morð á samfélagsmiðlum og falsa kynferðislegt myndefni. Ungar stúlkur og konur eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynferðislegri misnotkun og einelti á netinu. Við vitum að afleiðingar stafræns ofbeldis eru margvíslegar og alvarlegar, og að það getur leitt til líkamlegs ofbeldis, brotthvarfs úr námi og sjálfsvíga. Þrátt fyrir þetta veldur skortur á samræmdri gagnasöfnun því að umfang vandans er í raun vanmetið, en þau gögn sem liggja fyrir nægja til að sýna að það er gríðarlegt.
Þessi þróun snertir háskólasamfélagið beint. Stúdentar eru á tímamótum í lífi sínu: í óðaönn við að leggja grunninn að starfsferli, lífi og framtíð. Stafrænt áreiti og ofbeldi getur haft varanlegar afleiðingar á námsframvindu, starfsframa og andlega heilsu ungra kvenna, sem eru meirihluti háskólanema. Það er okkar allra að bregðast við þessum vanda en háskólasamfélagið gegnir lykilhlutverki í því að ná utan um þennan glænýja veruleika, sem þróast á ógnarhraða, og bregðast við. Istanbúlsamningurinn, fyrsti heildræni samningurinn um baráttuna gegn ofbeldi í garð kvenna, kveður skýrt á um forvarnir, vernd og samræmda stefnumótun. Þessar skyldur hvíla ekki aðeins á ríkjum, heldur einnig á stofnunum og þar á meðal háskólum.
Ábyrgðin er sameiginleg. Það er stjórnvalda að tryggja skýran lagaramma, virkt eftirlit, rannsóknir og fjármögnun. Háskóla að innleiða skýrt verklag, aðgengileg tilkynningakerfi, fræðslu og gagnaöflun. Stúdentafélaga að vera virkir þátttakendur í forvörnum, vitundarvakningu, stuðningi og stefnumótun.
Stafrænt kynbundið ofbeldi er ekki nýr vandi, heldur margfölduð útgáfa af viðvarandi vanda á nýjum vettvangi. Við brugðumst ekki nógu hratt við þegar internetið og samfélagsmiðlar komu fyrst til sögunnar, og við megum ekki endurtaka sömu mistök núna. Því er áríðandi að gera framleiðslu djúpfalsaðra nektarmynda ólöglega alveg eins og afritun og dreifingu þeirra - því tæknin hleypur hratt, og við verðum að hlaupa hraðar.
Höfundar eru forseti og jafnréttisfulltrúi Landssamtaka íslenskra stúdenta. Greinin er skrifuð í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember. Áhersla alþjóðlega átaksins í ár er á stafrænt ofbeldi undir yfirskriftinni „Ending Digital Violence Against All Women and Girls“.
Hefjumst handa við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna
Þrátt fyrir nýlegar umbætur á Menntasjóði námsmanna er ljóst að íslenska námslánakerfið nær enn ekki markmiði sínu um að fjárfesta í framtíð þjóðarinnar. Enn er íslenskum háskólanemum gert að greiða markaðsvexti af lánum sínum, sem hefur í för með sér afar þunga greiðslubyrði. Nokkuð sem samræmist illa því hlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður, sem ætlað er að tryggja íslenskum stúdentum jöfn tækifæri til háskólamenntunar. Þó að ákveðnar lagfæringar hafi verið gerðar á lögum um sjóðinn er verkefninu ekki lokið. Heildarendurskoðun laganna stendur fyrir dyrum og mikilvægt er að hefja hana án frekari tafa. LÍS og BHM eru tilbúin í þá vinnu.
Afnemum vaxtaálagið
Við stofnun Menntasjóðs námsmanna var tekin sú umdeilda ákvörðun að færa áhættuna af vanskilum frá ríkinu yfir á lántakendur. Þeir bera nú ekki aðeins markaðsvexti, sem eru margfalt hærri en í hinu gamla LÍN-kerfi, heldur greiða einnig fyrir þau lán sem fara í vanskil. Það er gert með vaxtaálagi, sem hefur verið haldið föstu í hæstu hæðum (0,8% aukavextir) frá því nýja kerfið var innleitt. Þetta er eitt af því sem gerir MSNM-kerfið mun ósanngjarnara en eldra kerfi og eitt af því sem stjórnvöld verða að sýna vilja til að leiðrétta. Með því aðafnema vaxtaálagiðer hægt að tryggja að áhætta vegna vanskila bitni ekki á stúdentum.
Burt með 35 ára múrinn
Það er vert að skoða ákvæði laganna um þröskuldinn sem takmarkar möguleika til tekjutengingar endurgreiðslu lánanna. Aldurstakmark tekjutengingar endurgreiðslna mismunar þeim sem ljúka námi síðar á lífsleiðinni. Sem stendur er eingöngu möguleiki fyrir lántakendur að sækja um tekjutengdar afborganir ef þeir eru undir 35 ára aldri. Þetta fer ekki saman við þá staðreynd að meðalaldur íslenskra stúdenta er hærri en almennt gerist í Evrópu.
Sama gildir um skort á sveigjanleika gagnvart foreldrum í námi. Núverandi reglur gera ekki ráð fyrir töku fæðingarorlofs eða tímabundnu hléi til að sinna ungum börnum, sem getur leitt til þess að foreldrar missi lánshæfi eða námsstyrk. Þetta er óviðunandi og þarf að leiðrétta með hagsmuni foreldra í námi og barna þeirra að leiðarljósi.
Stuðningur í formi sveigjanleika
Til að tryggja jafnt aðgengi til náms og raunverulegan stuðning við stúdenta kalla LÍS og BHM eftir námslánakerfi sem tekur mið af fjölbreyttum aðstæðum íslenskra stúdenta. Námsstyrkur við útskrift á að vera hvati til þess að klára háskólanám á réttum tíma, en án svigrúms er það einfaldlega refsing fyrir þau sem standa hallari fæti efnahagslega og foreldra í námi.
Að lokum krefjumst við þess að fyrirkomulagið um lán fyrir loknum einingum sé endurskoðað. Ef stúdentar ná ekki að klára lágmarkseiningafjölda, sem er í dag 22 ECTS, ber þeim að endurgreiða strax lán annarinnar - þó að um sé að ræða lán með markaðsvöxtum. Hægt væri að taka norska styrkjakerfið til fyrirmyndar, en þar fá stúdentar lánað fyrir skráðum einingum. Ef lágmarksnámsárangri er ekki náð fær viðkomandi samt lánið en missir rétt á námsstyrk þá önnina, í stað þess að vera refsað með reikningi upp á hálfa milljón.
Fjárfesting í fólki
Námslánakerfið á að vera fjárfesting í framtíð þjóðarinnar. Til þess að svo megi verða þarf að breyta nokkrum mikilvægum atriðum; létta endurgreiðslubyrði með lægra vaxtastigi, afnema vaxtaálagið, auka sveigjanleika og tryggja að kerfið geti brugðist við óvæntum atburðum í lífi stúdenta meðan á námstíma stendur. Eins er mikilvægt að auka hlut námsstyrkja í kerfinu og endurskoða aldurstengdar hindranir. Þetta myndi tryggja að sjóðurinn standi undir félagslegu hlutverki sínu og opni fólki leið að háskólamenntun án þess að það þurfi að leggja lífsafkomu sína að veði.
Með þetta að leiðarljósi eru LÍS og BHM til í vinnuna við frekari endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.
Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM.
LÍS rannsakar áhrif nýja námslánakerfisins í samstarfi við BHM
Gunnar Alexander Ólafsson, formaður Lífeyris- og lánanefndar BHM, og Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS
Lífeyris- og lánanefnd BHM og Landssamtök íslenskra stúdenta hafa gert með sér verksamning um samstarf við greiningu á áhrifum lagabreytinga sem tóku gildi árið 2020 með lögum um Menntasjóð námsmanna.
Markmið verkefnisins er að aflta traustra gagna og nákvæmari upplýsinga um stöðu og kjör námsmanna, auk þess að leggja mat á áhrif nýja námslánakerfisins á fjárhagsstöðu, námsframvindu og aðgengi stúdenta að vinnumarkaði.
Greiningin mun meðal annars fjalla um:
áhrif 30% niðurfellingar út frá félagslegum og efnahagslegum aðstæðum,
áhrif kynbundins launamunar, fjölskylduábyrgðar og brotakennds starfsferils á endurgreiðslu námslána,
stöðu þeirra sem ekki teljast lánshæfir eða uppfylla skilyrði fyrir undanþágum,
og samanburð við stöðu og réttindi stúdenta á Norðurlöndum og í Evrópu.
Ráðinn verður sérfræðingur til að vinna hagfræðilega greiningu og skýrslu um niðurstöðurnar. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við BHM og LÍS og byggir á fyrirliggjandi gögnum, meðal annars frá Menntasjóði námsmanna, Hagstofu Íslands, skattyfirvöldum og sameiginlegum könnunum BHM og LÍS á lífskjörum stúdenta. Niðurstöður verða kynntar á opnum fundi á vegum BHM og LÍS vorið 2026.