Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins

Stúdentar fjölmenntu á árlegt Landsþing LÍS í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri síðastliðna helgi, en vel yfir 50 þingfulltrúar frá öllum háskólum landsins og fulltrúar stúdenta í námi erlendis auk annarra góðra gesta sóttu þingið. Á líðandi starfsári hafa orðið miklar breytingar á háskólaumhverfinu, og á þinginu héldu LÍS pallborðsumræður með Loga Einarssyni háskólaráðherra, Maríu Rut Kristinsdóttur þingmanni Viðreisnar og stofnanda LÍS sem einnig var fundarstjóri þingsins, Silju Báru R. Ómarsdóttur nýkjörnum rektor Háskóla Íslands og Páli Winkel nýjum framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna. Yfirskrift þingsins í ár var Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins og ræddu þingfulltrúar og nýir valdhafar mikilvægi þess að tryggja aðkomu stúdenta að málefnum háskólasamfélagsins.

Frá vinstri: Páll Winkel, framkvæmdastjóri Menntasjóðs, Silja Bára R. Ómarsdóttir nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS.

Stefnumótunarvinna Landsþings

Á þinginu var gæðastefna yfirfarin í kjölfar nýrrar rammaáætlunar um gæði í íslenskum háskólum. Auk þess voru teknar fyrir lagabreytingar, störf framkvæmdastjórnar á árinu, drög að ársskýrslu og verkáætlun 2025 - 2026 kynnt. Á þinginu var yfirlýsing vegna mögulegrar sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst samþykkt einróma, auk ályktunar um gæði og aukið aðgengi að fjarnámi og ályktunar um aðkomu stúdenta að heildarendurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna. Þingfulltrúar sóttu skapandi vinnustofur og áttu málefnalegar og stefnumótandi umræður um málefni er varða stúdenta á landsvísu og í námi erlendis. 

Skapandi vinnustofa skipulögð af Lilju Margréti Óskarsdóttur, gæðastjóra LÍS.
Frá vinstri: Halldór Kjartan Þorsteinsson, hagsmunafulltrúi NFHB, Steinunn Thalia J. Claessen forseti SLHÍ og nýkjörinn varaforseti LÍS og Ástþór Ingi Runólfsson nefndarfulltrúi SFHR.

Framkvæmdastjórn 2025 - 2026

Á þinginu var kosið í framkvæmdastjórn samtakanna fyrir starfsárið 2025 - 2026. Hún tekur við þann 1. júní næstkomandi en þangað til starfar núverandi framkvæmdastjórn. Lísa Margrét Gunnarsdóttir hlaut endurkjör sem forseti, Steinunn Thalia J. Claessen var kjörin varaforseti, Þóra Margrét Karlsdóttir var kjörin alþjóðafulltrúi, Íris Björk Ágústsdóttir hlaut kjör sem jafnréttisfulltrúi og Lilja Margrét Óskarsdóttir var kjörin gæðastjóri.

Þakkir

Framkvæmdastjórn LÍS þakkar nýjum valdhöfum kærlega fyrir að leggja áherslu á öflugt samráð við stúdenta og þakkar Loga Einarssyni háskólaráðherra, Maríu Rut Kristinsdóttur þingmanni, Páli Winkel framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna og Silju Báru R. Ómarsdóttur nýkjörnum rektor HÍ kærlega fyrir erindi sín. María Rut Kristinsdóttir og Isabel Alejandra Díaz voru fundarstjórar þingsins og Embla Líf Hallsdóttir þingritari og fá þær einnig sérstakar þakkir fyrir frábæra fundarstjórn og -ritun. Þakkir fær einnig Hrafn Ingason, sérfræðingur Maskínu sem hélt erindi um Eurostudent 9 könnunina sem nú er að fara í loftið, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor LBHÍ sem ávarpaði þingið, Eva Símonardóttir fyrir yfirumsjón með streymi og tæknimálum, Rósa Björk Jónsdóttir fyrir aðstoð við undirbúning, Stúdentafélag Landbúnaðarháskóla Íslands og Nemendafélag Háskólans á Bifröst fyrir ómetanlega aðstoð við uppsetningu og annað tilfallandi á meðan þinginu stóð og allt starfsfólk Landbúnaðarháskólans fyrir að taka vel á móti þingfulltrúum. Síðast en ekki síst eiga allir þingfulltrúar þakkir skilið fyrir málefnalegar umræður og þverpólitíska samstöðu! 

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Streymi á Landsþing LÍS

Í dag og um helgina halda Landssamtök íslenskra stúdenta Landsþing sitt í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þingið er stærsti samráðsvettvangur íslenskra stúdenta og æðsta ákvörðunarvald samtakanna, þar sem 39 þingfulltrúar, fulltrúaráð, framkvæmdastjórn og aðrir gestir koma saman til að móta stefnu og framtíðarsýn stúdentahreyfingarinnar. Yfirskrift þingsins er: Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins.

Tenglar á streymi frá Landsþinginu eru hér:

Föstudagur
Pallborðsumræður
Laugardagur
Sunnudagur

Á þinginu blæs LÍS því til pallborðsumræðna með Loga Einarssyni, nýjum ráðherra háskólamála, Maríu Rut Kristinsdóttur, nýkjörinni þingkonu Viðreisnar og stofnanda LÍS, Silju Báru R. Ómarsdóttur nýkjörnum rektor Háskóla Íslands og Páli Winkel nýjum framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna.

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Dagskrá og yfirskrift Landsþings 2025

Landsþing LÍS á Hvanneyri 2025

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) fer fram dagana 3.–6. apríl 2025 á Hvanneyri. Þingið er stærsti samráðsvettvangur íslenskra stúdenta og æðsta ákvörðunarvald samtakanna, þar sem 39 þingfulltrúar, fulltrúaráð, framkvæmdastjórn og aðrir gestir koma saman til að móta stefnu og framtíðarsýn stúdentahreyfingarinnar.

Þema þingsins í ár er „Þátttaka stúdenta í mótun háskólasamfélagsins“ og verður lögð áhersla á samtal, samráð og stefnumótun um þau málefni sem brenna á háskólanemum. Dagskrá þingsins er fjölbreytt, þar sem boðið verður upp á vinnustofur, pallborðsumræður, erindi, stefnumótun, kosningar og félagslega viðburði.

Meðal gesta í ár verða Logi Einarsson, ráðherra háskólamála, María Rut Einarsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Páll Winkel nýr framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna. Þau munu taka höndum saman í pallborðsumræðum á föstudaginn, sem verður stýrt af Lísu Margréti Gunnarsdóttur, forseta LÍS.

Erlingur Sigvaldason og Natan Kolbeinsson úr hlaðvarpinu Á Öðrum bjór

Þeir Natan Kolbeinsson og Erlingur Sigvaldason úr hlaðvarpinu á Öðrum bjór verða svo með okkur alla helgina og taka viðtöl við fundargesti og þingfulltrúa.

Fundarhald hefst formlega föstudaginn 4. apríl í Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ), en þátttakendur hittast fyrst á Bifröst síðdegis daginn áður til undirbúnings og hópeflis. Gist verður í stúdentaíbúðum á Bifröst og LÍS sér um allan mat og ferðir á milli fundarstaðar og gistingar.

Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+. Aðgengi er tryggt fyrir alla og LÍS stendur straum af auknum aðgengisþörfum þátttakenda.

Við hlökkum til samverunnar og öflugrar þátttöku á Landsþingi LÍS 2025!

Dagskrá Landsþings LÍS á Hvanneyri 2025

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

AÐGERÐIR NÚNA: Vinnustofur um loftslagsaktivisma

Taktu þátt í tveimur vinnustofum um samspil hagsmunabaráttu stúdenta og loftslagsaktivisma á Íslandi og í Danmörku. Á vinnustofunum fá stúdentar tækifæri til þess að þróa hugmyndir sínar, búa til verkefni og hrinda þeim í framkvæmd. Þátttakendur munu öðlast nýja færni, stækka tengslanet sitt og kynnast stúdentum frá Íslandi og Danmörku.

Vinnustofurnar verða haldnar 23. - 25. maí í Kaupmannahöfn og 26. - 28. september í Reykjavík. Flugmiðar, gisting og matur eru greidd af LÍS og DSF. 

Áhugasöm eru beðin um að veita stutta útskýringu á af hverju þau hafa áhuga á að taka þátt í vinnustofunum, fyrri reynslu eða þekkingu á stúdenta- og loftslagsmálum og hvaða námi viðkomandi er í. Umsóknarfrestur er til og með 28. mars, umsóknir skulu berast í gegnum umsóknarformið hér.

Ekki er gerð krafa um reynslu eða þekkingu á stúdenta- og loftslagsaktivisma, einungis áhuga á að læra og deila reynslu með öðrum stúdentum. Nokkrir þátttakendur verða valdir til þess að taka þátt í báðum vinnustofunum en einungis hluti íslenskra þátttakenda fer til Kaupmannahafnar. Þátttakendur skuldbinda sig til þess að taka þátt í netfundi eftir vinnustofurnar og að deila reynslu sinni af vinnustofunum með öðrum.

Verkefnið er skipulagt af Landssamtökum íslenskra stúdenta og Danske Studerendes Fællesråd (Landssamtökum stúdenta í Danmörku).


//

Are you interested in climate and student activism?

Then you are invited to participate in two workshops around the interconnection between climate activism and student activism in Iceland and Denmark. The workshops are for students to develop ideas, convert them into projects and learn how to turn those projects into a reality. The participants will gain new skills and a large network among students in Iceland and Denmark.

The workshops will be held on May 23th - 25th in Copenhagen and on September 26th - 28th in Reykjavik. Travel, accommodation and meals will be covered by the organisers.

Applicants are asked to send their motivation, previous experience with climate and/or student activism and which education they are enrolled in. Apply through the application form here. The deadline is 28th of March.

It is not a requirement that you have previous experience with climate and student activism, but you need to have an interest in learning and sharing experiences with other students. Selected participants will have to commit to participate in both workshops as well as a follow up online meeting to share tools and inspiration achieved during the workshops. 

The workshops are organised by The National Union of Icelandic Students (Landssamtök íslenskra stúdenta) and The National Union of Students in Denmark (Danske Studerendes Fællesråd).

Read More
Landssamtök íslenskra stúdenta Landssamtök íslenskra stúdenta

Viðtal við forseta LÍS í kvöldfréttum Stöðvar 2

Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna er nú að finna í samráðsgátt stjórnvalda, og forseti LÍS ræddi frumvarpið og vankanta námslánakerfisins í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 6. mars síðastliðinn.

Í viðtalinu ræddu Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, meðal annars þá staðreynd að þrjátíu milljarðar hafa safnast upp í Menntasjóðnum á meðan stúdentar standa frammi fyrir 9% vöxtum á óverðtryggðum lánum auk vaxtaálags. Einnig var fyrirhugað frumvarp ráðherra rætt og kröfur stúdenta, en fyrir helgi birtu LÍS umsögn um frumvarpsdrögin. Lesa má umfjöllun Vísis í heild sinni hér.

Read More