Bætt staða stúdenta - en verkefninu ekki lokið
Landssamtök íslenskra stúdenta - LÍS og BHM - Bandalag háskólamenntaðra fagna því að Alþingi skuli loksins hafa tekið ákveðin skref í að lagfæra alvarlega galla á íslenska námslánakerfinu með samþykkt laga nr. 253/2025. Landssamtök íslenskra stúdenta hafa um árabil kallað eftir þessum breytingum, og urðu satt að segja fyrir vonbrigðum í vor er leið, þegar málþóf um veiðigjöld kom í veg fyrir að þetta mikilvæga frumvarp yrði tekið til afgreiðslu. En nú er því fagnað að málið skuli vera í höfn, því breytingarnar munu bæta stöðu fjölda námsmanna og greiðenda námslána.
Minni greiðslubyrði og aukinn sveigjanleiki
Helstu breytingar eru þær að niðurfelling námslána verður nú 20% í lok hverrar annar og 10% við námslok, í stað 30% niðurfellingar við námslok. Niðurfelling í lok hverrar annar þýðir að stuðningur við námsmenn nær til breiðari hóps og ekki þarf lengur að krossa fingur og vona að ekkert komi fyrir á námstímanum, sem sett gæti áætlanir um námsframvindu í uppnám.
Breytingarnar skipta líka miklu fyrir þau sem eru bæði með LÍN-lánin svokölluðu (námslán fyrir árið 2020) og MSNM-lán (námslán eftir árið 2020), því nú verður hægt að sækja um að greiða af einu láni í einu, sem ekki hefur verið hægt til þessa. Þannig verður hægt að ljúka fyrst við að greiða nýja lánið (MSNM) og taka svo til við að greiða LÍN-lánið. Þetta mun létta greiðslubyrði þeirra sem tekið hafa lán úr báðum kerfum til muna.
Að lokum verður tíminn frá útskrift og þar til endurgreiðslur hefjast lengdur, úr einu ári í 18 mánuði. Það léttir fjárhagslegar byrðar nýútskrifaðra og gefur þeim aukið svigrúm meðan þau eru að fóta sig á vinnumarkaði.
Ofantaldar breytingar munu hafa virkilega jákvæð áhrif á líf námsmanna og ungs fólks sem stendur á mikilvægum tímamótum í lífi sínu. Þau eru að hefja feril sinn í því fagi sem þau hafa valið sér að ævistarfi og mörg eru á sama tíma að stofna fjölskyldu og koma sér upp þaki yfir höfuðið. Breytingarnar eru jafnframt í takt við þau markmið sem Landssamtök íslenskra stúdenta hafa barist fyrir svo árum skiptir; jafnara aðgengi að námi, fyrirsjáanleika og réttlátara námslánakerfi sem uppfyllir hlutverk sitt sem félagslegt jöfnunartæki.
Markaðsvæddur banki eða félagslegur jöfnunarsjóður?
Þrátt fyrir að lögin feli í sér breytingar til hins betra er mikilvægt að horfast í augu við að námslánakerfið versnaði í raun við breytinguna úr LÍN- í MSNM-kerfi. Þegar öllu er á botninn hvolft þá hafa lánin versnað frá einni kynslóð til annarrar. Þegar Menntasjóður námsmanna var stofnaður árið 2020 var dregið úr beinum stuðningi ríkisins við námsmenn og sjóðurinn færður nær því að starfa eftir markaðsforsendum. Nú, fimm árum síðar, sjáum við að það voru alvarleg mistök. Á sama tíma hefur fjárfesting í ungu fólki sem vill afla sér háskólamenntunar dregist saman, eins og ný skýrsla sem Hagfræðistofnun HÍ vann fyrir BHM leiðir í ljós.
Þó að nýsamþykktar breytingar á Menntasjóði feli vissulega í sér meiri fyrirsjáanleika um vaxtakjör er áfram lögð áhersla á að sjóðurinn standi undir skuldbindingum sínum. Þannig er enn gert ráð fyrir að námsmenn beri áhættuálag, sem ætlað er að standa undir kostnaði við vanskil í sjóðnum. Fram til ársins 2020 bar ríkissjóður þá ábyrgð, en með tilkomu Menntasjóðs námsmanna færðist áhættan frá samfélaginu og yfir á einstaklinginn. Þegar allt kemur til alls þá bera stúdentar dagsins í dag markaðsvexti af námslánum sínum og greiða þannig margfalt hærri vextien nokkurn tímann áður.
Það fer illa saman að reka sjóðinn eins og hann sé banki þegar lögin segja að hann eigi að vera félagslegur jöfnunarsjóður.
Horft til framtíðar
Þrátt fyrir jákvæðar breytingar þingsins á námslánakerfinu er ljóst að verkefninu er langt í frá lokið. Frekari endurskoðun laganna bíður og er áríðandi að henni verði hraðað. LÍS hafa átt í virku samtali við ráðuneyti háskólamála og hafa ástæðu til að treysta orðum ráðherra sem hefur sett málið í forgang. Það er því von okkar að nýtt frumvarp verði lagt fyrir þingið eigi síðar en næsta haust, þar sem tekið verður á grundvallaratriðum er varða sanngjörn vaxtakjör, fjárfestingu í ungu fólki og námslán sem uppfylla hlutverk sitt með því að tryggja jafnara aðgengi að háskólanámi.
LÍS og BHM líta svo á að nýju lögin séu áfangi en ekki endastöð. Í sameiningu höldum við áfram að vinna að því með stjórnvöldum að námslánakerfið verði í reynd það sem það á að vera: fjárfesting í ungu fólki, menntastigi og framtíðarlífsgæðum þjóðar. Því hver vill að námslánakerfið sé stúdentum fjötur um fót þegar lagt er af stað út í lífið og fyrstu sporin stigin inn á íslenskan vinnumarkað?
Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM
Breytingar til hins betra á íslenskum námslánum
Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem taka gildi 1. apríl 2026. Breytingarnar fela í sér jákvæð skref í átt að sanngjarnara og sveigjanlegra námslánakerfi sem nýtist breiðari hópi stúdenta og veitir meira svigrúm að námi loknu.
Niðurfelling sem nýtist fleirum
Í stað þess að fá 30% niðurfellingu í lok náms munu stúdentar fá 20% niðurfellingu í lok hverrar annar og 10% aukalega við námslok, að því gefnu að námi sé lokið á réttum tíma. Þessi breyting gerir kerfið sveigjanlegra og tryggir að fleiri stúdentar njóti góðs af niðurfellingunni.
Meira svigrúm eftir útskrift
Frá og með 1. apríl 2026 munu afborganir námslána hefjast 18 mánuðum eftir útskrift, í stað 12 mánaða líkt og áður. Þetta veitir nýútskrifuðum stúdentum meira svigrúm til að fóta sig á vinnumarkaði áður en afborganir námslána hefjast.
Einfalt greiðslufyrirkomulag
Þeir sem eru bæði með LÍN-lán og MSNM-lán geta framvegis sótt um að greiða af einu láni í einu, fyrst MSNM-lánið og síðan LÍN-lánið. Með þessu minnkar greiðslubyrði þeirra sem bera ábyrgð á lánum í báðum kerfum.
LÍS fagnar þessum breytingum og lítur á þær sem mikilvægt skref í þá átt að tryggja að námslánakerfið endurspegli betur raunveruleika stúdenta og fjölbreyttar aðstæður þeirra.
Ef spurningar vakna um breytingarnar eða framkvæmd þeirra er hægt að senda fyrirspurn á lis@studentar.is eða með fyrirspurnarforminu á studentar.is (neðst á forsíðu).
Ættu konur að fara í háskólanám?
Konur á Íslandi mennta sig meira en nokkru sinni fyrr, en fá samt minnst út úr menntun sinni.
Ávinningur af háskólanámi hefur aldrei verið minni, og það er sérstaklega áberandi hjá ungum konum.
Samkvæmt nýjustu gögnum BHM og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þéna háskólamenntaðar konur að jafnaði á við karla með stúdentspróf. Árið 2022 fengu konur að meðaltali 83 krónur fyrir hverjar 100 krónur sem karlar fengu. Launamunurinn byrjar snemma og eykst með aldrinum, úr 16% hjá ungu fólki í 26% þegar líður á starfsævina. Þetta hefur bein áhrif á lífsgæði, lífeyrisréttindi og efnahagslegt sjálfstæði kvenna.
Á sama tíma hefur ávinningur af háskólanámi dregist saman um nær 40% á síðustu fimmtán árum. Fyrir yngstu hópana, 25–34 ára, hefur hann minnkað úr 48% niður í 21%. Það þýðir að unga kynslóðin fær nú aðeins helming þess ávinnings sem foreldrar þeirra nutu á sínum tíma.
Þó hlutfallslegur ávinningur virðist hærri hjá konum (28%) en körlum (19%), er það blekking. Hann endurspeglar ekki raunverulegan launamun heldur lágar tekjur kvenna almennt. Háskólamenntaðar konur eru í raun með svipuð laun og karlar sem hafa aðeins lokið framhaldsskóla. Í stuttu máli: konur mennta sig mest, en virði menntunar þeirra er minnst.
Þær eru í miklum meirihluta háskólanema (58% á móti 31% körlum) og bera uppi störf sem halda samfélaginu gangandi – í heilbrigðisþjónustu, kennslu og umönnun – en fá samt sífellt minna greitt fyrir meiri ábyrgð og menntun.
Þróunin er ekki aðeins óréttlát, hún er hættuleg. Hún sendir skýr skilaboð til ungra kvenna: að fjárfesting í eigin menntun borgi sig síður en áður. Að samfélagið umbuni hvorki vinnu þeirra né þekkingu. Þegar konur eru í meirihluta í háskólum, í velferðarkerfinu og í opinbera geiranum lækkar ávinningurinn. Það er ekki vegna þess að menntun er minna virði, heldur vegna þess að samfélagið metur kvennastörf minna.
Til þess er Kvennaverkfall. Ekki vegna þess að við erum að krefjast sætis við borðið - við erum með sæti við borðið þökk sé skörungunum sem ruddu veginn fyrir fimmtíu árum síðan. Í ár förum við í kvennaverkfall því við krefjumst þess að vinnandi konur búi ekki við kynjaðan launamismun og að menntun þeirra sé ekki gjaldfelld. Við krefjumst þess að mikilvægi kvenna sem vinnandi samfélagsþegna sjáist hvað launakjör varðar, og að lykilgreinar sem nú einkennast af meirihluta kvenna séu ekki gjaldfelldar. Við krefjumst þess að konur þurfi ekki að veigra sér við háskólanámi fyrir dæmigerð kvennastörf því þær vita að launin þeirra muni ekki endurspegla ólaunaða starfnámið, álagið sem fylgdi láglaunastarfinu sem þær vinna til að eiga efni á námi sínu og jafnvel móðir, eða ábyrgðina sem fylgir sérfræðimenntun þeirra og starfi að námi loknu.
Við krefjumst þess að fólkið sem kennir börnunum okkar, unglingunum okkar og stúdentunum sem vilja verða sérfræðingar á sínu sviði fái vinnuframlag sitt, sérfræðiþekkingu og ábyrgð metna að verðleikum. Við krefjumst þess að fólkið sem hjúkrar sjúklingum og axlar ábyrgð langt umfram vinnuskyldu á deildum spítala fái sanngjörn laun fyrir það mikilvæga starf sem það vinnur í þágu velferðarsamfélags okkar. Þetta er langt frá því að vera tæmandi listi yfir lykilstörf sem sinnt er af miklum meirihluta af konum í samfélaginu okkar, en meginstefið er: Við krefjumst þess að svokallaðar kvennastéttir fái raunverulegt virði framlags síns metið. Ekki bara með fögrum þakkarorðum og loforðum heldur með beinhörðum peningum.
Höfundar eru Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og Íris Björk Ágústsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS
Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?
Lísa Margrét, forseti LÍS, flutti ávarp á málþingi sem fjórir íslenskir háskólar stóðu fyrir 14. október undir yfirskriftinni „Eru evrópskir háskólar í fararbroddi?“. Málþingið var haldið í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi og Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Á málþinginu var rætt um ávinning og áskoranir þátttöku íslenskra háskóla í evrópskum háskólanetum, áhrif þeirra á nemendur, starfsfólk og samfélagið, auk umræðu um framtíð slíks samstarfs.
Í ávarpi sínu lagði Lísa Margrét áherslu á að kjarninn í evrópskum háskólanetum séu samfélögin innan háskólanna - nemendur, kennarar og fræðafólk - en ekki stofnanirnar einar og sér. Hún benti á að þrátt fyrir fjölmörg tækifæri til náms og samstarfs innan Evrópu viti færri en fjórðungur íslenskra stúdenta af þeim möguleikum sem standa til boða.
Lísa Margrét ræddi einnig mikilvægi þess að tryggja einfalt og aðgengilegt ferli fyrir stúdenta, auk sveigjanlegra námsleiða og sjálfvirkrar viðurkenningar náms milli landa. Þá undirstrikaði hún að íslenskir háskólar þurfi að viðhalda virku samstarfi og samtali við stúdentahreyfinguna við þróun evrópskra háskólaneta og að rödd og reynsla stúdenta endurspeglist í þeirri vinnu.
LÍS fagnar virku alþjóðasamstarfi íslenskra háskóla sem stuðlar að aukinni tengingu milli fræðasamfélaga, eflir menntun og styrkir fjölbreytt og alþjóðlegt háskólasamfélag á Íslandi.
LÍS mótmælir fyrirhuguðum hækkunum á skrásetningargjöldum háskóla
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) harma ákvörðun stjórnvalda um að heimila opinberum háskólum að hækka skrásetningargjald úr 75.000 kr. í allt að 100.000 kr. Samtökin minna á að árið 2023 var gjaldið úrskurðað ólögmætt og enn er beðið niðurstöðu áfrýjunarnefndar í endurupptöku málsins.
„Þessi ákvörðun er ekki aðeins ósanngjörn heldur stríðir gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands,“ segir Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti LÍS, og vísar til 13. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þar sem kveðið er á um að æðri menntun skuli vera öllum aðgengileg og þróunin stefna að því að hún verði ókeypis.
Hækkun leysir ekki undirfjármögnun háskólanna
LÍS bendir á að hækkun skrásetningargjalda nægi ekki til að rétta af viðvarandi undirfjármögnun háskólakerfisins. Á sama tíma felur hækkunin í sér verulega aukningu útgjalda fyrir hinn almenna stúdent.
Samkvæmt nýjustu könnun Eurostudent glímir yfir 30% íslenskra háskólanema við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda. Fjárhagsáhyggjur stúdenta eru hvergi meiri á Norðurlöndunum. Þá hefur kaupmáttur ungs fólks staðið í stað í tvo áratugi og arðsemi háskólamenntunar aldrei verið minni, samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir BHM.
Stúdentar bera þegar þungar byrðar
„Það skýtur skökku við að draga úr hvata til náms með því að auka fjárhagsbyrðar stúdenta á þessum tíma,“ segir Lísa Margrét. Hún bendir á að 74% háskólanema á vinnumarkaði starfi með námi til að eiga efni á námi sínu og að meira en þriðjungur íslenskra stúdenta séu foreldrar í námi.
Krafa LÍS til stjórnvalda
Í ljósi nýútgefinnar skýrslu OECD krefjast LÍS þess að stjórnvöld bregðist við rót vandans með því að tryggja grunnfjármögnun háskólastigsins til jafns við meðaltal OECD-ríkja, í stað þess að velta kostnaði yfir á stúdenta sem þegar búa við efnahagslegt óöryggi og ófullnægjandi námslánakerfi.