Skólagjaldalán
Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og vinnumarkað að stúdentum gefist færi á að afla sér þekkingar erlendis. Til þess að sinna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður þarf Menntasjóðurinn að tryggja að þeim sem vilja stunda nám erlendis sé gefið færi á slíkri reynslu.
Skólagjaldalán sem sjóðurinn veitir eru hvorki endurskoðuð árlega né duga þau fyrir skólagjöldum yfir venjulegan námstíma. Þessu verður að breyta. Núverandi hámark lána vegna skólagjalda hér á landi er 3.900.000 kr. en erlendis er það 6.300.000 kr. (ef nám er skipulagt lengur en 5 ár bætast 1.900.000 kr. við hámarkið) en mýmörg dæmi eru um námsleiðir sem krefjast hærri skólagjalda yfir námstímann allan. Þar ber einna hæst læknisfræðinám utan norðurlandanna, líkt og Félag íslenskra námsmanna í Ungverjalandi (FÍLU) hafa ítrekað bent á. LÍS vísar til ítarlegri umfjöllunar Sambands íslenskra námsmanna erlendis um þessi mál.
-
Stúdentar krefjast þess að lögfest sé að skólagjaldalán séu miðuð við gengi þess mánaðar sem gjöldin eru greidd í stað fyrirfram ákveðins viðmiðunargengis, líkt og tíðkast hefur í úthlutunarreglum. Undangengnir mánuðir mikillar efnahagslegar óvissu hafa sýnt fram á mikilvægi þess að lánið rýrist ekki í þeirri mynt sem greiða á gjöldin með. Vissulega hafa einstaka lántakar af sömu orsökum fengið hærri skólagjaldalán en ella en höfuðáherslan verður að vera á að útrýma óvissunni, sem getur verið mjög mikil hvað gengisþróun krónu gagnvart hinum ýmsu gjaldmiðlum varðar.
-
Þar að auki skal benda á að fjöldi erlendra háskóla bjóða upp á staðgreiðsluafslátt ef skólagjöld alls skólaársins eru greidd á sama tíma. Það væri því hagkvæmara ef lánað væri fyrir skólagjöldum alls ársins fyrirfram, þar með stæðu bæði Menntasjóður og lántaki uppi með lægri skólagjaldalán.
-
Núverandi fyrirkomulag við ákvörðun heildarhámarks skólagjaldalána þarf einnig að bæta. Háskólanemi sem tekið hefur lán fyrir skólagjöldum á Íslandi á, m.v. núverandi framkvæmd, eingöngu rétt á því hlutfalli skólagjaldalána erlendis sem hann hefur ekki nýtt af innlenda hámarkinu. Erfitt er að sjá hvers vegna þykir þörf á að gera slíkan greinarmun á viðtökulandi skólagjaldanna. Framkvæmdin eykur óhóflega aðstöðumun þeirra stúdenta erlendis sem hafa áður stundað nám við íslenska háskóla sem eru með skólagjöld. LÍS krefst þess að við endurskoðun laganna verði komið í veg fyrir að sjóðstjórn geri slíkan greinarmun á hámarki skólagjaldaláns.