Fyrsti dagur landsþings viðburðaríkur

Landsþing LÍS hófst á Akureyri í gær, 6. mars, með á fimmta tug þinggesta. Þema þingsins er velferð og verður því sérstaklega hugað að velferðarmálum stúdenta á þinginu. Fyrsti dagurinn var virkilega viðburðaríkur.

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Dagurinn hófst á ávarpi frá Sigrúnu Jónsdóttur, forseta Landssamtaka íslenskra stúdenta, sem fór yfir öran vöxt samtakanna og líkti þeim við barni sem hefði vaxið hratt á síðastliðnum sex árum. Frá fæðingu þeirra 3. nóvember 2013 hafa þau vaxið hratt og dafnað. Við fjögurra ára aldur minntu þau strax á ungling sem lá mikið á að fullorðnast. Nú á sjötta aldursári hafa samtökin skotið rótum, keypt sér íbúð og eru komin langt á leið með draumanámið. Hún þakkaði þingfulltrúum sérstaklega fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma og fyrir það að standa í metnaðarfullri hagsmunagæslu fyrir stúdenta.

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, tók svo við keflinu og ávarpaði þingið. Eyjólfur, sem sjálfur tók þátt í stúdentabaráttu á sínum námsárum, þakkaði fyrir það hve hagsmunabarátta stúdenta væri orðin öflug og fyrir það að sameinuð rödd stúdenta væri til. Rektor minnti landsþingsgesti á að hvert og eitt okkar bæri ábyrgð á eigin velferð, mikilvægt væri að stýra álagi og fara ekki á harðahlaupum í gegnum lífið. Hann benti einnig á að aðgengi að menntun væri velferðarmál.

Að loknu ávarpi rektors var farið yfir ýmis praktísk atriði. Aldís Mjöll Geirsdóttir og Elísabet Ásmundsdóttir voru kjörnar ritarar landsþings og Nanna Elísa Jakobsdóttir var kjörin fundarstjóri þingsins en bæði Aldís og Nanna eru fyrrum formenn LÍS. Anastasía Jónsdóttir, jafnréttisfulltrúi LÍS, og Styrmir Níelsson, þingfulltrúi NLBHÍ, voru í kjölfarið kosin sem trúnaðarfulltrúar þingsins. 

Sigrún tók svo við keflinu aftur og kynnti ársskýrslu LÍS sem greinir frá öllu því metnaðarfulla starfi sem samtökin hafa sinnt á starfsárinu. Sigrún tók sérstaklega fram mikla ánægju með verkefnið Student Refugees. 

Að því loknu kynnti Theodóra Listalín Þrastardóttir, framkvæmdastjóri LÍS, ársreikning samtakanna. 

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Ragnhildur Þrastardóttir, varaforseti LÍS, kynnti þá innri stefnu LÍS sem sköpuð var frá grunni í haust. Hún snýr að innra starfi LÍS og miðar að því að gera samtökin sterkari inn á við. Stefnan er byggð á hugmyndum frá aðildarfélögum LÍS og grunngildum sem fulltrúaráð kaus um, gildunum lýðræði, gagnsæi, jafnrétti og samstaða. Tvær breytingartillögur bárust á innri stefnuna, báðar frá Stúdentaráði Háskóla Íslands. Þær sneru að orðalagi í innri stefnunni og var önnur þeirra samþykkt en hin felld. Innri stefna var loks samþykkt einróma í heild sinni.

Næst eftir á voru vinnustofur um Menntastefnu til ársins 2030. Stefnan er nú inni á samráðsgátt stjórnvalda og miðuðust vinnustofurnar að því að finna út hvað stúdentar vildu sjá í stefnunni. Þær hugmyndir sem fram komu í vinnustofunum verða nýttar til þess að skapa umsögn LÍS um menntastefnu. 

Að því loknu fjölluðu Ásta Rún Valgerðardóttir og Katrín Sverrisdóttir, sálfræðingar hjá náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands um andlega heilsu stúdenta og það hvaða úrræði standi stúdentum til boða í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn var virkilega áhugaverður og spunnust umræður um það hvort hægt væri að bjóða upp á sambærilega þjónustu í háskólum á landsvísu.

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Mynd eftir Egil Bjarna Friðjónsson

Fam Karine Heer Aas, fulltrúi velferðar- og jafnréttismála hjá Landssamtökum norskra stúdenta, fjallaði svo um námslán og það hvernig slík lán geti tryggt jafnt aðgengi að námi. Erindið vakti upp ýmsar spurningar og voru þingfulltrúar áhugasamir um norska lánasjóðskerfið en nú er frumvarp um Menntasjóð námsmanna í ferli hjá stjórnvöldum. Sé frumvarpið samþykkt færist íslenskt námslánakerfi nær því norska.  

Lánasjóðsmál voru til umræðu í vinnustofum sem farið var í eftir erindi Fam og sömuleiðis opnar umræður um 30. grein frumvarps um Menntasjóð námsmanna en ef frumvarpið er samþykkt á Alþingi í þeirri mynd sem það er í dag þá myndi það liggja í hlut LÍS að tilnefna þrjá fulltrúa í stjórn sjóðsins. Tillaga um skipun starfshóps vegna þess var samþykkt af þingfulltrúum.

Í lok dagsins var ráðist í breytingar á lögum LÍS. Framkvæmdastjórn lagði fram um tuttugu breytingatillögur og aðildarfélögin tæplega tíu tillögur. Lögin voru loks borin upp í heild sinni og voru einróma samþykkt.

Landsþing LÍS er styrkt af Erasmus+ sem verkefni í flokknum Fundir ungs fólks og ráðamanna.

Previous
Previous

Velferð í brennidepli

Next
Next

Opnunarávarp forseta LÍS á landsþingi 2020