Aukið svigrúm
Stúdentar telja að núverandi fyrirkomulag undanþága (2. mgr. 13. gr.) og aukins svigrúms til námsloka (4. mgr. 14. gr.) vegna frávika á námsframvindu hafi ekki þau jöfnunaráhrif sem ætluð voru við setningu laganna. Breyta þarf lögum og reglum sjóðsins til þess að tekið verði tillit til raunverulegra aðstæðna lántaka.
-
Í fyrsta lagi eru undanþágurnar sem nú eru til staðar of þröngar. Sú staða getur þrengt tímarammann til niðurfellingar (þ.e. námsstyrks) verulega og gert það að verkum að kröfur til stúdenta verða óraunhæfar. Núverandi löggjöf heimilar slíkar undanþágur og eru þær útfærðar í úthlutunarreglum. Stúdentar telja nauðsynlegt að skerpt sé á orðalagi í lögum um Menntasjóð námsmanna þannig að krafa sé gerð um að við ákvörðun á útfærslu á undanþágum sé tekið tillit til raunverulegra aðstæðna.
-
Í öðru lagi er nauðsynlegt að skerpa á lögunum til að endurspegla að ekki sé skilyrði að hafa hlotið undanþágu til þess að leyfilegur námstími framlengist um því sem henni nemur. Sjóðurinn hefur túlkað 4. mgr. 14. gr. svo þröngt að taki einstaklingur ekki lán á meðan aðstæður hans eru þannig að undanþága frá námsframvindukröfu yrði veitt, lengist svigrúm til seinkunar í námi ekki um því sem henni nemur. Þannig geta komið upp dæmi þar sem nemandi tekur að jafnaði námslán en ekki á þeim önnum sem námsárangur verður ekki nægilega mikill. Skortur á formlega veittri undanþágu getur þá haft í för með sér að svigrúm til seinkunar í námi er ekki nægilega mikið.
-
Eitt besta dæmið um vankanta núverandi svigrúms eru barneignir og fæðingarorlof. Hér er ekki átt við formlegar greiðslur frá fæðingarorlofssjóði heldur einfaldlega töku orlofs til að sinna nýfæddu barni, hvort sem slíku orlofi fylgja greiðslur eða ekki. Eins og kerfið er sett upp er engin leið fyrir foreldri í námi til að taka sér orlof til að hlúa að nýfæddu barni. Þar sem skólar eru almennt skipulagðir í önnum gæti foreldri, eftir fæðingarmánuð barns, neyðst til þess að taka tvær núll eininga annir í röð. Slíkur námsárangur er ekki lánshæfur svo ekki er hægt að fá veitta undanþágu vegna barneigna eins og framkvæmd sjóðsins hefur verið. Það leiðir af sér að nákvæmlega ekkert svigrúm verður eftir fyrir foreldra ungs barns til seinkunar í námi eftir að nám hefst að nýju. Ljóst er að við slíkt ástand verður ekki unað og meiri sveigjanleika er þörf.
Í tilviki foreldra geta enn fremur komið upp vandræði með veikindi barna, skortur á leikskólaplássum og aðrar aðstæður sem ekki veita undanþágu frá námsframvindukröfum sem gætu þá um leið útrýmt möguleika foreldra á að hljóta námsstyrk. Án efa má finna fleiri dæmi um aðstæður sem krefjast slíkrar fullnýtingar svigrúmsins og benda til óréttlætis í kerfinu.