Opnunarávarp forseta LÍS á landsþingi 2020
Sigrún Jónsdóttir, forseti LÍS, flutti eftirfarandi ávarp á landsþingi LÍS 2020 sem haldið er 6. - 8. mars á Akureyri.
Kæru þingfulltrúar, framkvæmdastjórn, rektor og aðrir góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að standa hérna frammi fyrir ykkur í dag og opna sjöunda landsþing samtakanna. Ég vil byrja á að þakka ykkur innilega fyrir að hafa komið saman hér í dag. Það er ekki sjálfsagður hlutur að taka tíma frá námi, og oft og tíðum starfi og fjölskyldu, til þess að taka þátt í hagsmunagæslu stúdenta. Þeirri vinnu er að miklu leyti sinnt af einstaklingum í sjálfboðaliðastarfi en það er óeigingjarnt starf sem má ekki taka sem gefnu. Takk fyrir það.
Fyrrum forseti LÍS hefur áður líkt vexti samtakanna við æviskeið mannsins. Frá fæðingu þeirra 3. nóvember 2013 hafa þau vaxið hratt og dafnað. Við fjögurra ára aldur minntu þau strax á ungling sem lá mikið á að fullorðnast. Nú á sjötta aldursári hafa samtökin skotið rótum, keypt sér íbúð og eru komin langt á leið með draumanámið. Þau ætla að sigra heiminn, eitt skref í einu. Það mætti segja að lífið leiki við þau, enda eru þau ekki enn byrjuð að greiða niður af námslánum.
Fyrir ári síðan bjóst ég ekki við því að standa hér í dag en það hefur verið sannur heiður að hafa fengið að leiða samtökin síðastliðnu mánuði. LÍS hafa vaxið á ógnarhraða, í veldisfalli, og það hefur verið ævintýri að taka þátt í þeirri þróun.
Það ríkir alltaf mikil tilhlökkun fyrir landsþingi LÍS enda gefst hér tækifæri til þess að bæði líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár og höfum við tekist á við ýmsar áskoranir, sumar stærri en aðrar, og tekist vel til. Þó er enn mikil vinna fyrir höndum. Það hefur ýmislegt sprottið upp á starfsárinu sem við sem verðir hagsmuna stúdenta hér á landi verðum að vera á varðbergi fyrir. Frumvarp um Menntasjóð námsmanna hefur skiljanlega tekið mikið pláss í umræðunni og komum við til með að gera skil á því í hér um helgina en einnig hafa mikilvæg mál eins og höfnun umsækjenda í starfsnám í lögreglufræði og falin skólagjöld komið við sögu. Einnig er mikilvægt að nefna gerð menntastefnu og endurskoðun á fjárveitingu háskólanna sem eru risavaxin mál sem LÍS hafa lengi kallað eftir. Það er fagnaðarefni að vinna sé hafin að menntastefnu, þó að samráð við stúdenta og aðra aðila innan háskólakerfisins hefði mátt vera töluvert betra. Þessi mikilvægu mál munu áfram krefjast sterkrar sameinaðarar raddar stúdenta. Það er því mikilvægt að við nýtum þá rödd sem við höfum til þess að krefjast bættra kjara fyrir stúdenta og þar með skapa hagstæðra umhverfi fyrir stúdenta í námi í dag og framtíðar kynslóðir. Landsþing er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi og hefur ykkar þátttaka hér mótandi áhrif á samtökin og hvernig þau munu takast á við áskoranir framtíðarinnar. Það er einstaklega mikilvægt fyrir samtök sem eru í forsvari fyrir um 21 þúsund stúdenta að hafa sterka stefnu í velferðarmálum og hlakka ég til þeirra umræðna sem munu skapast yfir helgina. Skiptumst á skoðunum, rökræðum og lítum á umræðuefnin frá öllum mögulegum sjónarhornum, því þannig verðum við færari í okkar hagsmunagæslu.