Áherslur Miðflokksins og svör við spurningum LÍS
-
Miðflokkurinn telur mikilvægt að tryggja öllum jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag. Miðflokkurinn hefur stutt ýmsar hvetjandi aðgerðir og þannig hefur flokkurinn t.d. talað fyrir því að heilbrigðisstarfsmenn njóti þess í lækkun námslána kjósi þeir að vinna úti á landi. Kjör og fyrirkomulag námslána hljóta að vera til sífelldrar endurskoðunar með það að markmiði að auðvelda sem flestum að komast í það nám sem hugur þeirra stendur til.
-
Miðflokkurinn styður allar aðgerðir sem stuðla að jafnrétti til náms, óháð búsetu, kyni eða efnahag eins og áður sagði.
-
Miðflokkurinn vill styrkja þær skóla- og menntastofnanir sem eru á landsbyggðinni enda mikilvægt að fólk hafi aðgang að menntun á sem flestum stigum óháð búsetu. Einnig er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum.
-
Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskum námsmönnum standi til boða að sækja nám hér á landi sem er samkeppnishæft við það sem best gerist erlendis. Auðvitað hefur smæð landsins áhrif á það að ekki er alltaf unnt að sinna öllum fræðigreinum eins og best er á kosið. Það eru þó margar námsbrautir og fög sem Ísland hefur mikið fram að færa og mikilvægt að standa vörð um þær greinar. Nú þegar sækja erlendir nemendur okkur heim á sviði jarðvísinda og sjávarútvegs og þar hefur íslenska menntakerfið mikið fram að færa. Sjálfsagt er að styðja við það og þær greinar sem standa sterkum stoðum í íslensku þekkingarumhverfi.
Heimsókn í kosningamiðstöð Miðflokksins
LÍS heimsótti kosningamiðstöð Miðflokksins fyrir kosningar og kynnti fyrir þeim spurningar stúdenta. Sigríður Á Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra og frambjóðandi Miðflokksins tók á móti okkur og svaraði því á 30 sekúndum af hverju stúdentar ættu að treysta Miðflokknum fyrir atkvæði sínu. Lísa Margrét forseti LÍS átti líka góðar samræður við Sigríði um áherslur Miðflokksins í málefnum stúdenta.