Áherslur Samfylkingarinnar og svör við spurningum LÍS
-
Samfylkingin tekur undir umsögn LÍS um endurskoðun laga um Menntasjóð íslenskra námsmanna, eins og kemur fram í nefndaráliti fulltrúa Samfylkingarinnar í allsherjar- og menntamálanefnd. Samfylkingin tekur undir þau sjónarmið að hafa eigi 25% niðurfellingu á höfuðstól eftir hverja önn og 15% niðurfellingar við námslok. Jafnframt tekur Samfylkingin undir kröfu LÍS um að lækka vaxtaþak námslána, enda hætt við því að ávinningur af niðurfellingu hluta námslána við námslok þurrkist út séu vextir af námslánum lengi í vaxtaþaki. Þá áréttar Samfylkingin að námslánakerfið er eitt öflugasta jöfnunartólið í íslensku samfélagi. Fækkun lántakenda hjá Menntasjóðnum ber þess merki að hann gegni ekki lengur hlutverki sínu sem félagslegt jöfnunartæki og það ber að taka alvarlega.
-
Samfylkingin telur rétt að fjármögnun háskólastigsins á Íslandi sé í samræmi við fjármögnun háskólastigsins á öðrum Norðurlöndum. Því markmiði hefur ekki verið náð. Samfylkingin vill ná settu markmiði, til að auka samkeppnishæfni íslenskra háskóla, styrkja vísindastarf, nýsköpun og þekkingaröflun samfélaginu til hagsbóta.
-
Samfylkingin leggur áherslu á aðgengi allra til náms óháð félagslegum og efnahagslegum uppruna. Í núverandi húsnæðisvanda búa stúdentar af landsbyggðinni við verri kjör þar sem þau geta síður búið í foreldrahúsum á meðan námi stendur. Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að tryggja aðgengi jaðarsettra hópa að háskólanámi. Þannig vill Samfylkingin tryggja aðgengi nemenda með fötlun að háskólanámi með algilda hönnun að leiðarljósi og tryggja að nauðsynleg stoðþjónusta standi til boða. Jafnframt má nefna að hlutfall innflytjenda í háskólum landsins er töluvert lægra en hlutfall innflytjenda í íslensku samfélagi. Samfylkingin vill tvöfalda fæðingarstyrk námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar og hefur lagt fram frumvarp um nýtt fæðingarorlofskerfi. Þá leggur Samfylkingin áherslu á að áfram séu starfræktir öflugir háskólar á landsbyggðinni. Þá verður námslánakerfið að taka tillit til þessara hópa, og má ekki mismuna þeim eða leggja á þá stórauknar álögur.
-
Já. Kraftmiklir háskólar eru lykillinn að því að skapa samfélag jöfnuðar og þekkingar á Íslandi. Hátt menntunarstig þjóðarinnar stuðlar að aukinni framleiðni og bættum lífskjörum til lengri tíma. Rannsóknir í háskólum eru gangvirki nýsköpunar innan skólanna og utan. Aukinn niðurskurður á sviði grunnrannsókna er mikið áhyggjuefni og er síst til þess fallinn að laða erlenda nemendur að íslensku háskólasamfélagi. Samfylkingin leggur áherslu á að opinber fjárframlög á hvern háskólanema nái meðaltali norrænu ríkjanna þannig að fjármögnun háskóla standist alþjóðlegan samanburð. Við viljum að gerðar séu ríkar kröfur um framþróun í kennsluháttum og kennslumati íslenskra háskóla í takti við það sem best gerist í heiminum.
Heimsókn í kosningamiðstöð Samfylkingarinar
LÍS heimsótti kosningamiðstöð Samfylkingarinnar fyrir kosningar og kynnti fyrir þeim spurningar stúdenta. Ragna Sigurðardóttir, fyrrverandi forseti SHÍ og frambjóðandi Samfylkingarinnar tók á móti okkur og svaraði því á 30 sekúndum af hverju stúdentar ættu að treysta Samfylkingunni fyrir atkvæði sínu. Lísa Margrét forseti LÍS átti góðar samræður um málefni stúdenta við Rögnu og þingmennina Jóhann Pál og Dagbjörtu Hákonardóttur.