Áherslur Flokks Fólksins og svör við spurningum LÍS

  • Það er mikilvægt að taka námslánakerfið til gagngerrar endurskoðunar og aðlaga það við styrkjakerfið sem þekkist á Norðurlöndunum. Núverandi kerfi er ómanneskjulegt í alla staði hvort sem litið er til skerðinga eða námsárangurs. Ósveigjanleiki kerfisins og viðmót minnir helst á forhertustu smálánafyrirtækin sem voru við líði fyrir nokkrum árum, eins og Formaður VR hefur bent á eftir reynslu við að aðstoða félagsfólk sitt sem lent hefur í greiðsluvanda eða vanskilum við kerfið.

    Það kemur því ekki á óvart að foreldrar ráðleggja börnum sínum að taka aldrei námslán ef nokkur kostur er. Það þarf að afnema frítekjumark, afnema verðtryggingu og stórauka sveigjanleika varðandi endurgreiðslur og vanskil. Einnig taka tillit til mismunandi stöðu fólks og veita viðbótarlán/stuðning til þeirra sem eru í viðkvæmari fjárhagslegri stöðu sökum búsetu, uppruna eða efnahags.

  • Skoða ætti leiðir til að efla háskólana og þá verður að líta fyrst og fremst til gæða námsins, en ekki hvað það kostar mikið að tryggja þau gæði. Það er EKKI í stefnu Flokks fólksins að skerða fjárveitingar til háskólans en vel kæmi til greina að auka þær. Skoða þarf leiðir til að fjölga í þeim deildum sem eru með stífar kvaðir á fjölda.

  • Grundvallaratriðið í þessu er að aðgangur að háskólamenntun sé óháður uppruna, efnahag og búsetu. Það skiptir öllu máli að nálgast viðfangsefnið á þeim grunni. Þó það hljómi klisjukennt að tala með slíkum hætti þá eru nokkrar grundvallarstefnur sem liggja þar að baki. Húsnæðismálin og afkomutrygging bera þar hæst. Flokkur fólksins er með metnaðarfyllstu stefnuna í húsnæðismálum allra flokka, þar ber að nefna stórfellda uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði til kaups og leigu á viðráðanlegu verði. Og heildarendurskoðun á námslánakerfinu í þá átt að styrkja og styðja í stað þess að refsa og ýta undir brottfall með fjárhagslegum klifjum. Tryggja þarf betra aðgengi fyrir fatlað fólk í því samhengi og einnig félagslegt og menningarlegt aðgengi

  • Öflugt háskólastarf og rannsóknir vísindafólks eru ein helsta forsenda lífskjarabóta hér á landi, eins og í öllum löndum. Vísindamenn hafa það starf að finna út úr því hvernig hægt er að nýta bæði vinnuafl og fjármagn betur á öllum sviðum mannlífsins. Hvernig má ná betri árangri í ákvarðanatöku, hvernig má stuðla betur að andlegu og líkamlegu heilbrigði fólks og hvernig er hægt að létta fólki störfin með tæknibreytingum, þetta eru bara örfá dæmi. Ísland er ekki stórt land, þótt framlag þess til vísindanna sé ótrúlega myndarlegt.

    Einnig blasir við að þau sem skoða að mennta sig utan heimalands horfa einnig til þátta er snúa að húsnæði og lífskjörum almennt.

Heimsókn í kosningamiðstöð Flokks fólksins

LÍS heimsótti kosningamiðstöð Flokks fólksins fyrir kosningar og kynnti fyrir þeim spurningar stúdenta. Ragnar Þór, formaður VR, og Ásta Lóa, þingmaður, tóku vel á móti okkur og Ragnar Þór svaraði því á 30 sekúndum afhverju stúdentar ættu að treysta Flokki fólksins fyrir atkvæði sínu.

Ragnar Þór, Lísa Margrét og Ásta Lóa í kosningamiðstöð Flokks fólksins