Áherslur Pírata og svör við spurningum LÍS
-
Píratar munu beita sér fyrir því að íslenskt námslánakerfi færist í átt að styrkjakerfi, líkt og á norðurlöndunum. Þangað til að yfirfærslan yfir í styrkjakerfi verður kláruð, skal tryggja stúdentum viðeigandi grunnframfærslu sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks. Útfærslan á því hvernig viðmiðið á grunnframfærslu verði ákveðið skal vera ákveðið í samráði og samstarfi við helstu hagsmunafélög stúdenta á Íslandi og þarf lánasjóðurinn (framtíðarstyrktarsjóðurinn) að taka mið af mismunandi aðstæðum stúdenta og gera ráð fyrir því að stór hópur stúdenta þarf á viðbótarstuðningi að halda, og mun sá réttur ávallt vera til staðar.
-
Píratar vilja stuðla að sveigjanlegu og aðgengilegu námi óháð búsetu, efnahag, aldri eða öðrum þáttum. Ljóst er að aukinn sveigjanleiki, aukið aðgengi og fjölbreyttara nám felur í sér auknar fjárveitingar til allra háskóla landsins.
-
Til að byrja með, þá er efnahagslegt öryggi mikilvægur þáttur í því að fólk geti stundað námið sitt án aukaálags. Við viljum tryggja háskólanemum þennan stuðning með t.d. hækkun persónuafsláttar og greiða hann út, innleiða námsstyrki í auknum mæli, tryggja stúdentum atvinnuleysisbætur, byggja upp fleiri stúdentaíbúðir í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, hækka fæðingarstyrki og barnabætur, innleiða sveigjanlegra fæðingarorlofskerfi og fleira. Píratar vilja menntakerfi sem er aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag, fötlun, búsetu eða öðrum ytri þáttum. Jafnrétti til náms skal tryggt með stuðningi, hvort sem er í formi fjarnámslausna, fjárhagsaðstoðar eða tækni til að mæta fjölbreyttum námsþörfum. Við viljum stuðla að auknu samstarfi milli allra háskólanna hér á Íslandi og tryggja örugga fjármögnun háskólanna.
-
Píratar vilja tryggja að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntunarúrræðum sem henta þeirra þörfum. Menntun erlendis frá skal metin að verðleikum, en þar sem nauðsynlegt er að bæta við þekkingu vegna staðhátta, eins og í lögfræði eða kennslu, skal fólki gert kleift að sækja viðbótarnám til að komast inn á íslenskan vinnumarkað með sína menntun eins fljótt og auðið er. Nám í íslensku skal vera aðgengilegt öllum, óháð aldri, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða vinnutíma, og vera í boði á öllum færnistigum til að búa einstaklinginn undir líf í íslensku samfélagi. Setja skal fram skýra framtíðarsýn fyrir menntakerfið sem samræmist sjálfbærni, nýsköpun og samfélagslegum þörfum. Skólakerfið skal þróa langtímaáætlanir í takt við framfarir í tækni, vísindum og samfélagsþróun, þar sem endurskoðun er regluleg og áhersla á sveigjanleika.
Heimsókn í kosningamiðstöð Pírata
LÍS heimsótti kosningamiðstöð Pírata fyrir kosningar og kynnti fyrir þeim spurningar stúdenta. Lenya Rún taha Karim, varaþingmaður og frambjóðandi tók vel á móti okkur og svaraði því á 30 sekúndum afhverju stúdentar ættu að treysta Pírötum fyrir atkvæði sínu.