Áherslur Sjálfstæðisflokksins og svör við spurningum LÍS

  • Endurskoða ætti námslánakerfið frá grunni í ljósi þess nýleg lög um menntasjóð námsmanna hafa verulega ágalla líkt og kom fram í skýrslu háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Búið er að vinna mikla grunnvinnu til að gera þær breytingar.

    Innleiða ætti námslánakerfi að danskri fyrirmynd þar sem allir námsmenn njóta styrks til framfærslu á meðan námi stendur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þeir sem þurfa aukinn stuðning geti tekið viðbótarlán á sanngjörnum kjörum. Þetta kerfi væri umtalsvert einfaldara en núverandi námslánakerfi, myndi tryggja jafnari tækifæri til náms og auka hvata til námsframvindu.

    Stóri vandinn í kerfinu í dag er þung vaxtabyrði og þá sérstaklega fyrir einstaklinga sem eru nú fastir í tvöföldu kerfi. Brýnasta verkefnið er að lagfæra stöðu þessara einstaklinga.

    Þá ætti sérstaklega að styðja foreldra í námi jafnvel með sérstökum barnastyrk. Loks ætti viðbótarlán vegna húsnæðis að endurspegla raunverulega húsaleigu/húsnæðiskostnað.

    Undir forystu Sjálfstæðisflokksins var frítekjumark hækkað verulega, styrkir gerðir sveigjanlegri og ábyrgðarmannakerfið afnumið að fullu.

  • Fjármögnun háskólastigsins hefur verið stórefld á síðasta kjörtímabili með sex milljarða auka fjármögnun. Nýtt árangurstengt fjármögnunarlíkan háskóla er síðan fyrsta skrefið í átt að aukinni sókn, þar er fjármögnun samræmd, gagnsæ og gæðadrifin. Fjármögnunarlíkan háskólanna á að geta tekið breytingum í samræmi við þarfir hvers tíma til að tryggja að hvert fag hljóti fjárframlög í takt við nýjustu og bestu kennsluaðferðir hverju sinni. Næstu skref eru að nýta fjármögnunarlíkanið til að styðja betur við námsframvindu og -árangur svo hægt sé að auka framlag með hverjum nemanda jöfnum en öruggum skrefum á næstu árum.

    Að auki hefur aukið samstarf og sameiningar háskóla jákvæð áhrif á fjármögnun háskólastigsins þar sem fjármunir nýtast betur um leið og gæði aukast.

  • Stjórnvöld styðja best við nemendur með ólíkar þarfir í gegnum fjármögnunarlíkan háskóla og námslánakerfið. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur sett fram hvata til að auka fjarnám og fjölga námstækifærum fyrir fatlaða einstaklinga. Lögð var áhersla á að auka samstarf háskólanna sem hefur leitt af sér aukið námsframboð víða um land. Þá hefur sú ákvörðun ráðherra um að fé fylgir nemenda óháð rekstrarformi háskóla m.a. leitt til þess að nám í Listaháskólanum er nú aðgengilegra en áður og stóraukið aðgengi að fjarnámi fyrir fólk óháð efnahag í Bifröst.

    Fjármögnunarlíkanið þarf að hvetja til fjölbreytts úrvals af námi og stuðla að samkeppni milli skóla í fjölmennustu greinunum. Þannig geti skólarnir sérhæft sig í að höfða til mismunandi hópa með mismunandi kennsluaðferðum eins og háskólarnir eru að gera í dag. Í gegnum námslánakerfið er svo hægt að beina sértækum stuðningi til þeirra sem þurfa á honum að halda hvort sem það sé til foreldra, erlendra nemenda, fatlaðra nemenda eða annarra.

    Samstarf háskóla hefur einnig stutt háskólana við að bjóða upp á fjölbreytt nám fyrir nemendur með erlendan bakgrunn og fatlaða nemendur til að auka námsframboð, auka íslenskukennslu og samstarf ólíkra háskóla til að auka aðgengi að menntun.

Heimsókn í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins

LÍS heimsótti kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar og kynnti fyrir þeim spurningar stúdenta. Áslaug Arna, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins tók á móti okkur og svaraði því á 30 sekúndum af hverju stúdentar ættu að treysta Sjálfstæðisflokknum fyrir atkvæði sínu. Lísa Margrét forseti LÍS átti síðan uppbyggilegar samræður um áherslur stúdenta við ráðherra háskóla og stefnu ráðherra.