Áherslur Vinstri Grænna og svör við spurningum LÍS
-
Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok, eða ef fólk fer á örorkulífeyri. Námslánakerfið á að auka jöfnuð. Meta þarf árangur af nýjum Menntasjóði þar sem hluti námslána er nú orðinn styrkur til námsmanna. Meta þarf hvort að núverandi styrkjafyrirkomulag hygli ekki um of þeim sem þegar hafa sterka fjárhagslega og félagslega stöðu. Þá þarf áfram að huga að því að tryggja mannsæmandi grunnframfærslu fyrir námsmenn svo jafnrétti til náms verði tryggt. Hækka þarf frítekjumark til þess að tryggja rétt efnaminni nemenda til námslána óháð starfshlutfalli síðasta árs.
-
VG vill auka fjárveitingar til háskólastigsins þannig að fjármögnun háskólanna sé sambærileg við aðra háskóla á Norðurlöndunum. Með auknu fjármagni er mikilvægt að tryggja grunnrannsóknir og kennslu og jafnt aðgengi fólks að háskólanámi.
-
Menntun er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins. Vinna þarf með öllum ráðum gegn stéttaskiptingu í skólakerfinu. Öflugt og aðgengilegt menntakerfi, sem stendur öllum til boða á forsendum hvers og eins til að rækta hæfileika sína og færni, er undirstaða þess að við öll getum tekið þátt í lýðræðissamfélagi, þroskast og notið okkar. Til að jafna enn frekar aðstöðumun innan menntakerfisins skal stefnt að því að gera menntun endurgjaldslausa á öllum skólastigum. Háskólar þurfa fjárveitingar til að sinna rannsóknum jafnt sem kennslu. Áfram þarf að efla fjármögnun háskólastigsins. Stefna skal að því að ekki sé tekið gjald fyrir nám á háskólastigi til að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi.
Menntun á að vera óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum sem kunna að vera fyrirstaða og skulu menntastofnanir aldrei reknar í hagnaðarskyni. Sporna á við einkavæðingu í menntakerfinu. Menntun er ævilangt verkefni og því þarf að tryggja fjölbreytta framhaldsfræðslu og aðlaga hana að ólíkum hópum. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu með tilliti til samfélagsbreytinga og þess að sett verði aðalnámskrá um framhaldsfræðslu. Öflug framhaldsfræðsla er mikilvægt jöfnunartæki sem gerir fólki kleift að sækja sér ný tækifæri, hreyfa sig til á vinnumarkaði og tileinka sér nýja þekkingu. Styrkja þarf raunfærnimat enn frekar m.a. með menntun innflytjenda í huga.
Metum störf kennara að verðleikum. Aukum stuðning við kennara, þ.m.t. íslenskunám innflytjendabarna, og tryggjum þeim mannsæmandi vinnuaðstæður og tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað. Styðjum við fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla, ekki síst listnám. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda nám í fjarnámi um land allt. Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli og börn af erlendum uppruna.