Elsa Drífudóttir Elsa Drífudóttir

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir kjörin formaður á Landsþingi LÍS

Síðasti dagskrárliður sunnudagsins, og þar með landsþingsins sjálfs, var kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta samtakanna. Tvö framboð bárust í embætti formanns, tvö framboð bárust í embætti alþjóðaforseta og eitt framboð barst í embætti gæðastjóra. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir var kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta. 

Síðastliðna helgi, 23.-25. mars, fór Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) fram í húsakynnum Háskólans á Bifröst. Landsþingið bar yfirskriftina Jafnrétti til náms – hvað er jafnt aðgengi að námi og hvernig tryggjum við það? Þingið er æðsta vald samtakanna og þar koma saman fulltrúar úr öllum aðildarfélögum LÍS.

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir flytur framboðsræðu sína

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir flytur framboðsræðu sína

Síðasti dagskrárliður sunnudagsins, og þar með landsþingsins sjálfs, var kjör formanns, gæðastjóra og alþjóðaforseta samtakanna. Tvö framboð bárust í embætti formanns, tvö framboð bárust í embætti alþjóðaforseta og eitt framboð barst í embætti gæðastjóra.

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir var kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta. Hún er 23 ára og lauk B.A. gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands vorið 2017. Hún hefur setið í framkvæmdarstjórn LÍS síðastliðin tvö ár, sinnt stöðu jafnréttisfulltrúa og starfað sem alþjóðaforseti samtakanna. Í ræðu sinni lagði Elsa ríka áherslu á mikilvægi þess að stúdentar láti ójafnrétti og aðgengisskort ekki líðast og að sett verði markmið innan samtakanna þar sem krafist er heildstæðrar menntastefnu frá yfirvöldum með sérstakri aðgengisáætlun fyrir háskólakerfið. Mikilvægt er að stúdentar standi sameinaðir í að gæta þess að þeirra hlutur sitji ekki eftir.

Nýkjörinn gæðastjóri, alþjóðaforseti og formaður

Nýkjörinn gæðastjóri, alþjóðaforseti og formaður

Aldís Mjöll Geirsdóttir var kjörin gæðastjóri. Hún er sitjandi formaður samtakanna og hefur komið mjög mikið að gæðastarfi þeirra. Aldís hefur meðal annars sinnt skrifum nýrrar gæðastefnu ásamt sitjandi gæðastjóra og verður fulltrúi íslenskra stúdenta á ráðherrafundi um Bologna ferlið sem tekur sér stað í París í maí. Aldís er 23 ára laganemi á þriðja ári við Háskóla Íslands.

Nýkjörinn alþjóðaforseti LÍS er Salka Sigurðardóttir. Salka er 23 ára og hefur sinnt starfi upplýsingafulltrúa í Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík síðastliðið ár. Hún er þriðja árs nemi í sálfræði við sama skóla.

Stefnumótun

Ásamt hefðbundnum þingstörfum var helgin nýtt í vinnustofur um jafnréttismál. Afrakstur vinnu helgarinnar mun koma til með að vera nýttur við gerð nýrrar jafnréttisstefnu samtakanna á komandi starfsári sem jafnréttisfulltrúi LÍS ber ábyrgð á. Þá var ný gæðastefna samtakanna samþykkt á þinginu en hafa skrif hennar staðið yfir á síðastliðnu starfsári. Umfjöllun um hana má finna í fréttatilkynningu hér.

Ályktanir þingsins

Tvær ályktanir voru lagðar fyrir þingið, þar sem óskað var eftir stuðningi aðildarfélaga LÍS. Sú fyrri kom frá Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri og snýr að yfirvofandi kennaraskorti.  Sólveig María Árnadóttir, formaður SHA og kennaranemi óskaði eftir stuðningi aðildarfélaganna þar sem um er að ræða málefni sem snertir allt samfélagið.

Yfirvofandi kennaraskortur hér á landi hefur verið töluvert til umræðu síðastliðin tvö ár. Ár hvert sækja færri nemendur í kennaranám og er meðalaldur starfandi kennara kominn hátt í fimmtugt. Þá er talið að um einungis 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara starfi í leik- og grunnskólum landsins. Því bendir þetta til að bæði þurfi að auka nýliðun og bæta starfsaðstæður kennara til muna, til þess að menntaðir kennarar sjái hvata og tilgang í því að fara í kennslu. (Úr ályktun)

Sigrún Jónsdóttir bar upp seinni ályktunina, fyrir hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands,  og greindi frá stöðu alþjóðlegra stúdenta á íslenskri grundu.

 Landsþing LÍS 2018 krefst þess að bæta þurfi afgreiðslu umsókna námsmanna á háskólastigi um dvalarleyfi hér á landi. Mörg dæmi eru til um misræmi á milli upplýsinga sem Háskóli Íslands veitir annars vegar og Útlendingastofnun hins vegar sem hefur áhrif á umsóknir námsmanna um dvalarleyfi. LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta telja jafnframt að háskólastofnanir eigi að standa vörð um réttindi nemenda sinna. (Úr ályktun)

Báðar ályktanirnar hlutu einróma samþykki um stuðning og verður því eitt af hlutverkum LÍS á komandi starfsári að koma þessum málum betur á framfæri í samráði við aðildarfélög.

Heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra

Lilja Alfreðsdóttir svara fyrirspurnum þingfulltrúa.

Lilja Alfreðsdóttir svara fyrirspurnum þingfulltrúa.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, kom einnig og heimsótti þingið á sunnudeginum. Hélt Lilja erindi þar sem hún sagði frá þeim störfum sem hafa átt sér stað innan Mennta- og menningarmálaráðuneytis frá því hún tók við embætti. Talaði hún einnig um niðurstöður Eurostudent könnunarinnar, sem er yfirgripsmikil könnun um hagi stúdenta í 28 Evrópulöndum. Niðurstöður könnunarinnar komu út fyrr í mánuðinum en taka LÍS þátt í úrvinnslu hennar ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneyti þessa dagana. Lagði hún ríka áherslu á samvinnu við stúdenta í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Tók Lilja einnig við spurningum þinggesta, þar sem hún var innt eftir svörum um ýmsa hluti, þar á meðal starfshóp um endurskoðun Lánasjóðsins, reglugerðir um starfsnám og drög að heildstæðri menntastefnu.

Framkvæmdarstjórn LÍS og þingfulltrúar aðildarfélaga.

Framkvæmdarstjórn LÍS og þingfulltrúar aðildarfélaga.

Landsþing LÍS er veigamikill vettvangur fyrir fulltrúa íslenskra stúdenta, þar sem þeir fá tækifæri til þess að koma saman yfir heila helgi og ráða ráðum sínum. Á Landsþinginu er framkvæmdastjórn gefið færi á að sýna afrakstur starfsársins og eru fulltrúar sammála um að vel hefur tekist til. LÍS hlakka til komandi starfsárs og þeirra verkefna sem eru fyrir höndum og óska nýkjörnum embættisaðilum innilega til hamingju.

 

Allar ljósmyndir eru teknar af Reyni Þrastarsyni

Read More