Undir sama þaki – samstarf BHM við LÍS
Bandalag háskólamanna (BHM) og LÍS hafa átt með sér formlegt samtarf frá vormánuðum 2015. Reynslan af því er afar góð. Markmið okkar er að efla þekkingu stúdenta á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði og vinna saman að stefnumótun um sameiginleg hagsmuna- og réttindamál.
Starfsemi LÍS er kraftmikil og mikilvæg tenging BHM við stúdentahreyfingarnar hér á landi. LÍS hefur haft skrifstofu til umráða í húsnæði BHM í Borgartúni 6 og samgangur starfsfólks bandalagsins og LÍS-aranna stöðugt verið að aukast.
LÍS hefur veitt BHM mikilvæga innsýn í endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna en þar á LÍS tvo fulltrúa. Það er gott að vita af fulltrúum stúdenta í þessari mikilvægu vinnu sem snertir nær alla félagsmenn okkar. LÍS er einnig tengiliður BHM við Gæðaráð háskólanna en samtökin eiga sæti í ráðgjafarnefnd ráðsins. Það er okkur mikils virði að fá frá LÍS upplýsingar þróun háskólanáms hér á landi og gæðakröfurnar sem miðað er við.
BHM og LÍS hafa efnt til upplýsinga- og umræðufunda fyrir stúdenta, m.a. um geðheilbrigðismál, og beitt sér saman í hagsmunamálum gagnvart stjórnvöldum, t.d. um starfsnám á háskólastigi. Fulltrúar LÍS hafa tekið þátt í fjölmörgum fundum á vegum BHM og gert sig gildandi.
Það var gæfuspor fyrir BHM að efna til samstarfs við LÍS og ekki síður að hafa skrifstofu samtakanna undir okkar þaki í Borgartúni. Við væntum mikils af áframhaldandi samstarfi við LÍS.
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Formaður Bandalags háskólamanna
LÍS - Landssamtök íslenskra stúdenta fagna fimm ára stofnafmæli sínu laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Þessi grein er sú fjórða í röð greina um störf og sögu samtakanna sem skrifaðar eru að því tilefni.