Byggjum á bjargi

Á sandi byggði heimskur maður hús,
og þá kom steypiregn.
Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx,
og húsið á sandinum féll.

Einu sinni byggði heimskur maður hús á sandi. Við vitum ekki hvaða maður þetta var en vitum öll hver örlög hans voru. Húsið var byggt á veikum grunnstoðum, réði ekki við íslensku veðráttuna og féll.

Undirfjármögnun háskólanna er risavaxið vandamál sem hefur verið viðvarandi í of langan tíma enda staða háskólanna nú orðin grafalvarleg. Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, eru uggandi yfir bágri stöðu háskólanna og þeim óumflýjanlegu afleiðingum sem langvarandi niðurskurður hefur í för með sér. 

Baráttan gegn undirfjármögnun háskólanna er langþreytt. Við höfum lesið sömu fyrirsagnir frétta ár eftir ár um alvarleika stöðunnar en ekkert breytist. Rektorar háskólanna á Íslandi, stúdentahreyfingar og stúdentar hafa ítrekað kallað eftir breytingum. Þá tóku fulltrúar allra flokka á Alþingi undir áhyggjurnar á fundi sem haldinn var í Háskóla Íslands fyrir síðustu Alþingiskosningar.

Frambjóðendur sammældust um mikilvægi þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna í fjárframlögum til háskólanna, á kjörtímabilinu. Í aðgerðaráætlun Vísinda- og tækniráðs var sett fram það markmið að styrkja fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún yrði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016 og Norðurlanda árið 2020. Af skýrslu OECD fyrir árið 2016, Education at a glance, má sjá að Ísland er enn undir meðaltali OECD-ríkjanna og á langt í land með að ná meðaltali Norðurlandanna.

Árið er 2017 og við höfum ekki enn náð markmiðum Vísinda- og tækniráðs en verði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar samþykkt gengur hún enn frekar í berhögg við stefnu og loforð stjórnmálamanna.

Þess vegna veldur fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mér miklum vonbrigðum og áhyggjum. Þar er ekki gert ráð fyrir leiðréttingu á bágri stöðu háskólanna en á sama tíma lýsa stjórnmálamenn ríkisstjórnarinnar yfir að nú séu tímar efnahagslegs uppgangs í samfélagi okkar.

Enginn vafi leikur á gríðarlegu mikilvægi þess að á Íslandi sé gætt að því að framþróun sé í samfélaginu og að samkeppnishæfni sé haldið við í alþjóðlegu samhengi á sem flestum sviðum. Uppbygging og varsla um háskólamenntun á landinu er forsenda þess að þetta gangi eftir en ef við bregðumst er hætta á að það samfélag sem hér er að finna hrörni og nái ekki að halda í við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. 

Það virðist hafa skapast sú menning að háskólarnir eigi að vera undirfjármagnaðir. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnmálamönnum þyki eðlilegt að háskólarnir starfi við þessar kringumstæður og ætli sér ekki að leiðrétta það. Stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við vandann og kallar LÍS því eftir því að stjórnvöld séu hyggin og styrki stoðir háskólanna. Ætlum við að leyfa háskólunum að byggjast upp og blómstra eða láta þá falla í næsta óveðri?

Við vitum öll hvernig sagan endar. Ef við höldum áfram að byggja á sandi í staðinn fyrir að fjárfesta í sterkum grunni mun húsið á endanum falla. Þegar öllu er á botninn hvolft verður enduruppbygging dýrari samanborið við trygga og stöðuga fjármögnun háskólakerfisins. 

Á bjargi byggði hygginn maður hús,
og þá kom steypiregn.
Og þá kom steypiregn og vatnið óx og óx,
og húsið á bjarginu stóð fast.

Verum hyggin, byggjum á bjargi og húsið mun standa.

Landssamtök stúdenta á Norðurlöndum og í Eystrarsaltsríkjunum tóku undir þær miklu áhyggjur sem LÍS hefur á stöðu mála. Á nýliðnum fundi NOM, Nordisk Ordförande Möte, sem er bandalag landssamtaka stúdenta í þessum löndum, var yfirlýsing þess efnis tekin fyrir og samþykkt einróma. Aðildarfélögin átta sem sóttu fundinn voru öll hneyksluð yfir aðstæðum hérlendis og lýsa því yfir fordæmingu og krefja íslensk stjórnvöld um úrbætur á því óásættanlega ástandi sem hér ríkir.

Höfundur er Aldís Mjöll Geirsdóttir, formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Þessi grein er hluti af greinaskriftaátaki Landssamtaka íslenskra stúdenta um undirfjármögnun háskólanna í ljósi tillögu að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.

Previous
Previous

NUS National Conference í Brighton

Next
Next

Umræður á landsþingi LÍS um húsnæðismál Listaháskóla Íslands