Fyrsti dagur Landsþings LÍS árið 2018 – Stefna LÍS um gæði í íslensku háskólasamfélagi samþykkt

Landsþing Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS, var sett þann 23. mars 2018. Þetta er fimmta landsþing samtakanna og er dagskrá þess einkar metnaðarfull í ár. Landsþingið ber yfirskriftina Jafnrétti til náms – hvað er jafnt aðgengi að námi og hvernig tryggjum við það? Þingið fer með æðsta ákvörðunarvald samtakanna en þar koma saman fulltrúar frá öllum aðildarfélögum LÍS.

Þann 23. mars á Landsþinginu lagði framkvæmdastjórn LÍS fram stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi. David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnti stefnuna sem byggð er á vinnustofum Landsþings ársins 2017 þar sem yfirskriftin var Hvers virði er mín menntun – Efling stúdenta í gæðastarfi háskólanna. Eftir miklar samræður og samráð milli þingfulltrúa komust þeir að sameiginlegri niðurstöðu og ný stefna var samþykkt einróma af fulltrúum háskólanema á Íslandi sem og íslenskra háskólanema á erlendri grundu. Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskir stúdentar marka sameiginlega stefnu um gæði í íslensku háskólasamfélagi.

David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnir stefnuna.

David Erik Mollberg, gæðastjóri LÍS, kynnir stefnuna.

Í stefnunni er snert á mörgum flötum en meðal annars að mennta- og menningarmálaráðuneyti marki heildstæða menntastefnu en sér í lagi stefnu fyrir háskólastigið. Þá þarf að afla upplýsinga um samsetningu þess breiða hóps stúdenta sem stunda nám við háskóla á Íslandi og  erlendis. Safna þarf slíkum upplýsingum með sérstöku tilliti til félagslegrar víddar (e. Social Dimension) en á meðan stúdentar endurspegla ekki þverskurð þjóðarinnar hefur jafnt aðgengi að menntun ekki verið fyllilega tryggt.

Hlúa þarf að aðgengi að menntun og gæðum hennar með bættri fjármögnun ásamt þróaðri og bættum kennsluháttum. Þar að auki ber að gæta þess að aðgangsstýringar vegi ekki að jafnrétti til náms.

DSC01585.jpg

Háskólar landsins eiga að bjóða upp á nemendamiðað nám með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti og námsmat. Leggja skal ríka áherslu á virka þátttöku stúdenta, raunhæf verkefni og tengsl við atvinnulíf. Einnig þarf að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, efla sköpunarhæfni og hvetja til sjálfstæðra vinnubragða með siðferðisleg gildi að leiðarljósi.

Aukin fjármögnun háskólakerfisins er nauðsynleg til þess að mögulegt sé að auka gæði náms og er því skýr krafa LÍS að markmiðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé framfylgt en þar segir að fjárframlög til háskólastigsins skulu ná meðaltali OECD - ríkjanna fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025.

Innleiðing gæðastefnunnar marka tímamót í sögu samtakanna en stefnan styrkir sameinaða rödd stúdenta í hagsmunabaráttu sinni til muna. LÍS fagna þessum framúrskarandi áfanga og hlakka til að kynna stefnuna og beita sér fyrir því að henni verði fylgt eftir.

Nálgast má stefnuna hér.

Previous
Previous

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir kjörin formaður á Landsþingi LÍS

Next
Next

Landsþing LÍS 2018 Jafnrétti til náms. Hvað er jafnrétti til náms og hvernig tryggjum við það?