Landsþing LÍS 2018 Jafnrétti til náms. Hvað er jafnrétti til náms og hvernig tryggjum við það?

Landsþing LÍS verður haldið nú um helgina 23. – 25. mars í Háskólanum á Bifröst og sáu aðildarfélögin NFHB, NLBHÍ, NLHÍ, SH og SÍNE um skipulagningu þetta árið.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Jafnrétti til náms“ í hinum víðasta skilningi. Snert verður á sem flestum flötum er varða jafnrétti til náms í háskólakerfinu a Íslandi, hvar stöndum við framarlega og hvar getum við gert betur. Á þinginnu er stefnt að því að leggja grunninn að jafnréttisstefnu LÍS sem síðan verður unnin í framhaldi af þinginu og sá efniviður sem hlýst þar nýttur sem undirstaðan. Jafnrétti til náms er eitthvað sem allir stúdentar eiga að láta sig varða því það er hagur okkar allra að allir þeir sem hafa metnað og elju til þess að sækja sér menntun hafi til þess tækifæri án hindrana.

Ásamt því að vinna að jafnréttisstefnu í vinnustofum, fá fyrirlestra frá sérfræðingum í jafnréttismálum innan háskólanna og almennra aðalfundastarfa þá verður einnig kynnt fyrir þinginu ný gæðastefna sem grunnurinn var lagður að á síðasta landsþingi. Hún verður borin upp fyrir þingið og gefst aðildarfélögum tækifæri til að ræða stefnuna og leggja fram breytingartillögur. Hún verður síðan borin upp til samþykktar sem opinber gæðastefna LÍS.

Mennta- og menningarmálaráðherra mun einnig ávarpa þingið, fjalla um jafnrétti til náms sem og stöðuna almennt í háskólamálum á Íslandi. Að erindi hennar loknu munu stúdentar í sal geta borið upp spurningar við ráðherra til að efla hið mikilvæga samtal sem þarf að eiga sér stað á milli stúdenta og ráðamanna.

Hér má finna handbók þingsins en þar má sjá lista yfir alla fyrirlesara þingsins, dagskrá og aðrar upplýsingar.

Mikil tilhlökkun ríkir innan framkvæmdastjórnar LÍS fyrir þinginu enda skapast jafnan fjörugar umræður um hin ýmsu mál, en þó með eitt megin markmið, að efla hagsmunabaráttu stúdenta á öllum sviðum!  

Mikil samstaða, vinnusemi og gleði var á Landsþingi LÍS 2017 sem haldið var í Háskóla Akureyrar.

Mikil samstaða, vinnusemi og gleði var á Landsþingi LÍS 2017 sem haldið var í Háskóla Akureyrar.

Previous
Previous

Fyrsti dagur Landsþings LÍS árið 2018 – Stefna LÍS um gæði í íslensku háskólasamfélagi samþykkt

Next
Next

Fundur með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra