Allsherjarverkfall fyrir loftslagið 20. til 27. september 2019
Frá 22. febrúar 2019 hefur ungt fólk safnast saman á Austurvelli hvern föstudag til að krefjast öflugri aðgerða strax af hálfu stjórnvalda og fyrirtækja í baráttunni gegn hamfarahlýnun. LÍS hafa verið hluti af skipulagshóp verkfallanna frá upphafi en skipulagshópurinn efndi til Allsherjarverkfalls fyrir loftslagið frá 20. til 27. september, ásamt Landvernd. Unga kynslóðin hefur svo sannarlega látið til sín taka undanfarna mánuði og var það því ákall allsherjarverkfallsins að eldri kynslóðin og allir þeir sem hafa hingað til fylgst með á hliðarlínunni styðji við hreyfinguna.
Fyrsta hádegisverkfall vikunnar
Um 4 milljónir manns tóku þátt í Allsherjarverkfalli fyrir loftslagið 20. september síðastliðinn en boðað var til aðgerða í yfir 150 löndum. Þar á meðal voru ríflega 1200 manns sem tóku þátt á Íslandi. Mótmælendur gengu frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll þar sem tók við stútfull dagskrá af ræðum og tónlistaratriðum. Á meðal ræðufólks var Kári Stefánsson, Stjörnu-Sævar, Högni, Eydís Blöndal og grunnskólanemarnir Daði, Emelía, Jökull, Ida og Elís sem hafa öll tekið virkan þátt í verkföllunum undanfarna mánuði. Tónlistarfólkið Friðrik Dór, Krummi og GDRN stigu á stokk og skemmtu viðstöddum.
Framkvæmdastjórn á allsherjarverkfalli fyrir loftslagið
Loftslagsverkföll fóru svo fram með hefðbundnu sniði í hverju einasta hádegi í loftslagsvikunni og voru ýmsir hliðarviðburðir skipulagðir samhliða. Til að mynda fór fram bolaprentun og skiltagerð í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur sem var skipulagt af hópnum List fyrir loftslagið. Bíllausi dagurinn fór fram 22. september þar sem lokað var fyrir umferð á Miklubraut hjá Klambratúni, ásamt Hringbraut, og ferðaðist fólk þaðan á Lækjartorg með öllum mögulegu fararskjótum öðrum en einkabílnum.
Þann 27. september var fjölmennt á Austurvelli. Í kjölfar verkfallsins gengu fulltrúar frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), Stúdentaráði Háskóla Íslands (SHÍ), Ungum umhverifssinnum (UU), Foreldrum fyrir framtíðina og LÍS fyrir hönd skipulagshóps loftslagsverkfallsins á fund með forsvarsaðilum ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum.
Eftirfarandi voru kröfur loftslagsverkfallsins á fundinum:
Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið og lýsi yfir neyðarástandi vegna loftslagsvárinnar. Þeirri yfirlýsingu verða að fylgja aðgerðir af þeirri stærðargráðu sem tryggja að losun Íslands minnki árlega um a.m.k. 5% þannig að öruggt sé að kolefnishlutleysi náist fyrir árið 2040.
Stjórnvöld fylgi tillögum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) og sjái til þess að árlegar fjárfestingar í aðgerðir gegn loftslagsvánni af hálfu atvinnulífs og hins opinbera séu samtals 3,5% af landsframleiðslu.
Ásamt kröfunum fylgdi tillaga að yfirlýsingu á neyðarástandi.
Ríkisstjórnin sá sér ekki fært að skrifa undir en tók fram að hún myndi fara yfir kröfurnar og halda samtalinu áfram síðar. Á fundinum bauð umhverfis- og auðlindaráðherra skipulagshópnum að koma að endurskoðun á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem er af hinu jákvæða.
Loftslagsverkfallið mun halda áfram að krefjast aukinna aðgerða í loftslagsmálum. Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir framtíðina. Fyrir loftslagið.
Hádegisverkfall föstudaginn 27. september. Á borðanum stendur ,,Loftslagsaðgerðir strax”.