Opinn fundur um LÍN
Málefnanefnd Samfylkingarinnar um menntamál bauð LÍS að taka þátt í pallborði á opnum fundi um Lánasjóð íslenskra námsmanna í Iðnó þann 16. september.
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður og formaður málefnanefndar Samfylkingarinnar um menntamál, stýrði fundinum.
Sigrún Jónsdóttir, varaforseti LÍS, fór fyrir hönd samtakanna og sat í pallborði ásamt Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingarinnar og varaformanni allsherjar og menntamálanefndar; Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanns Bandalags háskólamanna og Marinó Erni Ólafssyni, lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Sigrún fór yfir helstu breytingarnar sem frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna hefur í för með sér og ræddi kosti og galla þeirra breytingar út frá umsögn LÍS. Sigrún lagði áherslu á kröfur stúdenta þegar kemur að breyttum vaxtakjörum. Í frumvarpsdrögunum, sem birtust inni á Samráðsgátt stjórnvalda í júlí, kom fram að námsmenn geta valið á milli verðtryggðs og óverðtryggðs láns við námslok og að vextir skulu vera breytilegir og byggja á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi. LÍS telja æskilegra að sett verði þak vexti. Marinó Örn Ólafsson fjallaði svo nánar um áhrif breyttra vaxtakjara út frá ýmsum sviðsmyndum. Þórunn Sveinbjarnardóttir ræddi kosti og galla frumvarpsins út frá sínum hagsmunahópi, greiðendum. Tók hún undir kröfur LÍS um þak á vexti og ræddi meðal annars þjónustuhlutverk SÍN. Guðmundur Andri Thorsson stiklaði á stóru um sögu LÍN og ræddi mikilvægi þess að sjóðurinn gagnist sem félagslegt jöfnunartæki.
Nálgast má umsögn LÍS vegna frumvarps um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna hér.